Íslenski söfnuðurinn í Noregi er hluti af þjóðkirkju Íslands. Söfnuðurinn deilir grunngildum og markmiðum starfsins með íslensku þjóðkirkjunni þó með þá sérstöðu að vera kirkja meðal Íslendinga erlendis.
Söfnuðurinn er fyrir alla, líka þá sem sækja ekki vanalega kirkju á Íslandi. Söfnuðurinn leggur áherslu á fjölbreytt starf sem höfðar til sem flestra og leitast við að vera samkomustaður Íslendinga í Noregi.
Söfnuðurinn boðar einnig kristna trú meðal Íslendinga í Noregi á grundvelli evangelískrar Lútherskrar trúar og stendur fyrir reglulegu helgihaldi í Ósló og sem víðast um Noreg. Vilji er til að byggja upp fast starf á sem flestum stöðum í Noregi í samstarfi við Íslendinga búsetta á svæðinu.
Reglulega er í boði samvera og fræðsla fyrir allan aldur þó að í öndvegi séu börn og unglingar/ungmenni og þeir sem komnir eru yfir sextugt.
Allt starf safnaðarins skal vera aðgengilegt fötluðum.
Boðið er upp á kærleiksþjónustu sem einkum er fólgin í sálgæsluviðtölum og heimsóknum til aldraðra og langveikra. Sóknarprestur er einnig starfsmaður Ólafíusjóðs sem er hjálparsjóður nauðstaddra Íslendinga í Noregi.
Íslenski söfnuðurinn í Noregi leggur rækt við íslenska tungu og menningu í breiðum skilningi og stuðlar að listflutningi íslensks efnis t.d. tónlist, leiklist og styður félagslíf Íslendinga í Noregi á menningarlegum grundvelli.
Söfnuðurinn leggur ríka áherslu á umhverfisvernd og meðvitaða stefnu í umhverfismálum. Söfnuðurinn leitast við að hafa jákvæð áhrif á umhverfi og samfélag með ákvörðunartöku sinni og þjónustu.
Söfnuðurinn er með persónuverndarstefnu sem tekur mið af norskum og íslenskum lögum.
Lögð er rækt við samvinnu og samstarf við:
- Þjóðkirkjuna á Íslandi
- Biskupsstofu
- Íslenska presta í Noregi
- Sendiráð Íslands í Noregi
- Norsku, Sænsku og Finnsku kirkjurnar í Noregi
- Norges Kristne Råd
- Íslensku söfnuðina í Skandinavíu
- Tengiliði safnaðarins víðsvegar um Noreg
- Íslenska kóra í Noregi
- Íslendingafélög í Noregi
Íslenski söfnuðurinn í Noregi er opin og frjálslynd kirkja, umburðarlynd og framsækin, með rætur í hefðinni en óhrædd að vaxa mót nýjum tímum.
Þið eruð öll velkomin að taka þátt í starfi safnaðarins, óháð því hvaðan þið komið eða á hvaða leið þið eruð. Þið eruð velkomin eins og þið eruð.
Íslenski söfnuðurinn í Noregi vill reynast ykkur sem stór, umburðarlynd og elskandi fjölskylda sem fagnar fjölbreytileika og samstöðu.