2020 – 2021

Markmið stjórnar Íslenska safnaðarins í Noregi er að stjórna daglegum rekstri safnaðarins og gæta hags safnaðarmeðlima. Stjórninni ber að leita eftir nýjum sóknarfærum og möguleikum á að hagræða í rekstrinum á hverjum tíma.

Stjórnin er æðsta vald safnaðarins á milli aðalfunda og ber ætíð að fara að samþykktum aðalfundar svo lengi sem það brýtur ekki í bága við lög og reglur safnaðarins eða landsins.

Stjórn, prestur og aðrir starfsmenn safnaðarins skulu vinna saman að velferð safnaðarins.

Verkaskipting

Stjórnin samanstendur af fimm aðalstjórnarmönnum og fimm varamönnum. Af aðalstjórnarmönnum er valinn formaður, varaformaður, gjaldkeri, ritari og meðstjórnandi. Eðlilegt telst að allir stjórnarmenn sem færi hafa á mæti á boðaða stjórnarfundi og taki virkan þátt í þeim. Hver aðalstjórnarmaður hefur eitt atkvæði á stjórnarfundi. Ef einn eða tveir aðalstjórnarmanna geta ekki setið fundinn getur varastjórnarmeðlimur leyst þá af hólmi og greitt atkvæði í þeirra stað, í þeirri röð sem þeir eru settir.

Öllum sem sitja í stjórn ber að skrifa undir trúnaðareið og skila inn sakavottorði.

Stjórn er tryggð hjá IF forsikring (styreansvar) og Knif (starfsmannatrygging).

Formaður

Formaður er aðalumsjónarmaður stjórnarinnar. Hann safnar saman erindum til stjórnar og kallar til stjórnarfundar að öllu jöfnu fyrsta mánudag hvers mánaðar þar sem stjórn hittist og þriðja þriðjudag hvers mánaðar á netfundi.

Formaður stjórnar umræðum á stjórnarfundum og kallar til atkvæða sé þess þörf. Að auki skal formaður kalla til stjórnarfundar úti á landi tvisvar á stjórnarári (í byrjun árs og að hausti).

Formaður er ábyrgur fyrir rekstri safnaðarins á milli stjórnarfundar og starfar í umboði stjórnar, en skal samt sem áður ráðfæra sig við minnst einn stjórnarmann við allar ákvarðanir teknar á milli stjórnarfunda.

Formaður verður að starfa samkvæmt reglum og samþykktum stjórnar og ber ekki að fara inn á starfssvið annara stjórnarmanna.

Formaður getur samþykkt notkun fjármagns upp að 10.000 en hann verður að hafa samþykki eins annars stjórnarmanns ásamt sínu.

Ef formaður getur ekki setið stjórnarfund, eða fellur frá stjórninni af einhverjum ástæðum tekur varaformaður hans stað.

Varaformaður

Varaformaður er staðgengill formanns. Varaformaður getur einnig tekið að sér ýmis sérverkefni sem þarf að leysa á hverjum tíma

Gjaldkeri

Gjaldkeri hefur yfirumsjón með fjármunum safnaðarins og nauðsynlega skýrslugerð og skil sem að þeim lýtur. Gjaldkeri vinnur ásamt stjórninni að fjárhagsáætlun fyrir hvert næstkomandi almanaksár og fylgist með að áætluninni sé fylgt eins vel og kostur er á.

Gjaldkeri getur samþykkt notkun fjármagns upp að 15.000 en hann verður að hafa samþykki eins annars stjórnarmanns ásamt sínu.

Gjaldkeri skilar ársfjórðungsskýrslu til stjórnar um stöðu fjárhags safnaðarins.

Gjaldkeri er sá eini sem getur samþykkt greiðslu út af reikningum safnaðarins.

Ritari

Ritari ber ábyrgð á að fundargerðir séu ritaðar, skjalaðar og birtar á heimasíðu. Ritari sendir fundargerðir  á milli allra stjórnarmanna til yfirlestar sem þeir þá geta gert athugasemd við ef nauðsynlegt er. Ef engar athugasemdir berast innan 7 daga telst fundargerð samþykkt og þarf ekki að taka hana upp til umræðu á stjórnarfundi.

Ritari ber ábyrgð á að verkefnaskrá sé uppfærð og það sé til skrá yfir samþykktir á stjórnarfundum.

Ritara er heimilt að láta aðra, svo sem starfsmann, sjá um ritun fundargerðar og eftirfylgd hennar.

Meðstjórnandi

Meðstjórnandi hefur enginn föst verkefni en tekur að sér sérverkefni eftir þörfum og aðstoðar aðra stjórnarmenn við þeirra verk.

Önnur hlutverk

Stjórn skal útnefna aðila sem sinna eftirtöldum hlutverkum.  Stjórn getur útnefnt einn úr stjórn eða valið utanaðkomandi aðila til verksins. Stjórn getur kallað alla þá aðila sem stjórn útnefnir til þessara verkefna á stjórnafundi og skulu þeir þá launast í samræmi við laun stjórnarmanna.

Öllum sem taka að sér hlutverk á vegum stjórnar ber að skrifa undir trúnaðareið og skila inn sakavottorði.

 

Formaður Ólafíusjóðs

Formaður Ólafíusjóðs stjórnar Ólafíusjóði á milli aðalfunda ásamt kjörinni stjórn sjóðsins. Formaður sjóðsins er tengiliður við stjórn safnaðarins og sér um að upplýsa stjórn um málefni Ólafíusjóðs sem snúa að söfnuði. Ólafíusjóður er þó sjálfstæð eining og stjórn hans hefur fullvald yfir honum, það eru einungis ákvarðanir sem hafa áhrif á fjárhag safnaðarins sem stjórn hans hefur áhrif á.

Formaður Ólafíusjóðs 2020-2021 er: Rannveig María Gísladóttir

Persónuverndarfulltrúi safnaðarins

Persónuverndarfulltrúi er ábyrgur fyrir því að persónuverndarstefnu er fylgt eftir. Persónuverndar- fulltrúi skal taka á móti kvörtunum hvað varðar persónuvernd. Persónuverndarfulltrúi er einnig ábyrgur fyrir að allir aðilar sem vinna fyrir söfnuðinn skili inn tilheyrandi trúnaðareið. Persónuverndarfulltrúi skal einu sinni á ári framkvæma persónuverndar úttekt.

Persónuverndarfulltrúi 2020-2021 er: Elín Soffía Pilkington

Ábyrgðaraðili fasteigna

Ábyrgðaraðili fasteigna sér um eftirfylgni mála er lúta að fasteignum safnaðarins.

Ábyrgðaraðilinn skal einnig halda fasteignamöppu/skrá yfir allar fasteignir, eina per fasteign, sú mappa/skrá skal vera uppfærð á hverjum tíma.

Ábyrgðaraðili fasteigna sér um að sækja tilboð í öll þau verkefni sem þarf að vinna við fasteignir safnaðarins.

Ábyrgðaraðili fasteigna 2020-2021 er: Björn Hallbeck

Ábyrgðaraðili fréttabréfs

Ábyrgðaraðili fréttabréfs skal fylgja eftir útgáfu fréttabréfs í samræmi við ákvarðanir stjórnar um það. Aðilinn ber ábyrgð á öllu innihaldi fréttabréfs og skal gefa loka samþykki fyrir útgáfu bréfsins.

Ábyrgðaraðili fréttabréfs 2020-2021 er: Katla Sveinbjörnsdóttir

Starfsmannastjóri

Starfsmannastjóri er ekki yfirmaður starfsmanna en ber ábyrgð á eftirfylgd starfsmannamála (personalansvar) svo sem launavinnslu, veikindavottorða, frídaga, starfsmannaviðtala, lífeyrismála, umsjón starfsmannaviðburða og margt annað sem til fellur.

Starfsmannastjóri 2020-2021 er: Ingvar Ingólfsson

Trúnaðarmaður

Starfsmenn geta leitað til trúnaðarmanns með trúnaðarmál sem eru þá einungis á milli hans og starfsmann og getur hann tekið það nafnlaust áfram ef þörf þykir.

Trúnaðarmaður 2020-2021 er: Inga Harðardóttir

Varastjórn

Skal vera boðuð til stjórnarfunda annan hvern mánuð.

Samþykktar fundargerðir skulu vera sendar til varastjórnar svo varastjórn sé vel inn í málum.

Varastjórn er einnig boðuð til fundar stjórnar á landsbyggðinni.

Getur tekið að sér ýmis verkefni á vegum stjórnar t.d. hlutverk eins og nefnd hér að ofan.

Laganefnd

Laganefnd er skipuð þremur aðilum, tveimur sem kosnir eru á aðalfundi og einum skipuðum af stjórn. Fulltrúi stjórnar er Björn Hallbeck

Verkefni laganefndar er að fara yfir núverandi lög Íslenska safnaðarins í Noregi og koma með tillögur að breytingum þannig að þau samræmist nýjustu lagabreytingum og reglugerðum og sem falli betur að starfsemi hans.

“Íslenski söfnuðurinn í Noregi er einn af söfnuðum íslensku Þjóðkirkjunnar. Lög og reglur um íslensku Þjóðkirkjuna og norsk lög um trúfélög gilda um söfnuðinn, presta hans og starfsmenn nema annað sé tekið fram í reglum þessum.”

Starfsfólk safnaðarins

Innan safnaðarins finnast nokkrar stöður. Það skal finnast starfslýsing fyrir allar stöður hjá söfnuðinum.

Allt starfsfólk safnaðarins er tryggt hjá Knif forsikring lögbundnum tryggingum.

Allt starfsfólk með meira en 20% stöðu er líka tryggt hjá Storebrand með sértryggingar örorku-, slysa- og ferðatryggingu.

Allt starfsfólk sem fær greiðslur frá söfnuðinum yfir eitt G (99 858) á einu ári skal hafa lífeyri hjá Storebrand samkvæmt ákvörðun stjórnar og starfsamningi á hverjum tíma.

Lífeyrir 2020 er 4,8 % eða 2,8 umfram lögbundinn lífeyrir.

Öllu starfsfólki ber að skrifa undir trúnaðareið og skila inn sakavottorði.

Prestur

 • Er ábyrgur fyrir trúarlegri festu safnaðarins og skal tryggja að helgihald og safnaðarstarf fari fram
 • Ber ábyrgð á mótun og skipulagi kirkjulegs starfs safnaðarins
 • Ber ábyrgð á guðsþjónustuhaldi safnaðarins, trúfræðslu og kærleiksþjónustu
 • Sinnir kirkjulegum athöfnum fyrir safnaðarmeðlimi um allan Noreg
 • Stjórn safnaðarins og sóknarprestur starfa hlið við hlið að uppbyggingu safnaðarins
 • Er tengiliður við NKR og situr í þeim nefndum sem því fylgir
 • Er tengiliður við þjóðkirkjuna á Íslandi

Starfsmaður

 • Dagleg umsjón Ólafíustofu og föst viðvera á opnunartíma
 • Aðstoðar prest og stjórn við þeirra verkefni  
 • Ber ábyrgð á heimasíðu og samfélagsmiðlum safnaðarins
 • Vinnur að meðlimaskrá og verkefni henni tengdri
 • Aðstoð við gjaldkera í hans störfum
 • Önnur verkefni sem stjórn felur starfsmanni á hverjum tíma

Menningarfulltrúi

 • Dagleg umsýsla, skýrsluhald og stefnumótun á sviði menningar og lista
 • Umsjón á menningar-, list- og þjóðlegum viðburðum á vegum safnaðarins
 • Ritstjórn fréttabréfs Íslenska safnaðarins í Noregi
 • Styrkja stöðu íslenskrar tungu meðal Íslendinga í Noregi
 • Umsóknir um styrki fyrir menningar- og listviðburði
 • Efla samstarf við íslendingafélög og íslenska kóra um allan Noreg
 • Tryggja að a.m.k. 20% af menningar- og listviðburðum verði haldnir á landsbyggðinni
 • Halda utan um skrá yfir íslenskt listafólk búsett í Noregi
 • Efling samstarfs við aðra á sviði menningar og lista
 • Önnur verkefni sem stjórn felur starfsmanni á hverjum tíma

Æskulýðsfulltrúi

 • Umsjón á æskulýðsstarfs í samstarfi við prest og starfsmann
 • Umsjón og skipulag sumarbúða, unglingamóta og leiðtoganámskeiða
 • Umsjón með leiðtogaþjálfun í samstarfi við prest
 • Tryggja samstarf milli allra æskulýðshópa innan safnaðarins sem eru starfandi í Noregi á hverjum tíma
 • Vinna að nýsköpun í æskulýðsstarfinu
 • Setja upp hálfsárs dagskrá æskulýðsstarfs tvisvar á ári og skila til stjórnar
 • Önnur verkefni sem stjórn felur starfsmanni á hverjum tíma

Ræstingar

 • Regluleg þrif á Ólafíustofu
 • Þrif í samræmi við þrifaplan (sjá aftast í þessu skjali)
 • Önnur verkefni sem stjórn felur starfsmanni á hverjum tíma.

Leiðtogar

 • Hafa umsjón með og bera ábyrgð á viðburðum og hópastarfi fyrir börn og unglinga í samstarfi við æskulýðsfulltrúa og prest safnaðarins
 • Leiðtogar verða að hafa náð 18 ára aldri

Ungleiðtogar

 • Aðstoða við viðburði, helgihald og hópastarf fyrir börn og unglinga í samstarfi við leiðtoga, æskulýðsfulltrúa og prest safnaðarins
 • Eru sjálfboðaliðar á aldrinum 14-17 ára
 • Eiga kost á að hljóta leiðtogaþjálfun á vegum safnaðarins

Stjórnarfundir

Stjórnarfundir eru mánaðarlega fyrsta mánudag hvers mánaðar klukkan 17:30. Fundarstaður er að öllu jöfnu Ólafíustofa en stjórn stefnir einnig að því að hafa sína fundi á öðrum stöðum.

Boða skal til stjórnarfundar með að minnsta kosti einnar viku fyrirvara. Formaður sendir út fundarboð ásamt dagskrá fundarins með tölvupósti. Hafi stjórnarmenn eða aðrir erindi til stjórnar skulu þau helst send stjórn í síðasta lagi sólarhring fyrir boðaðan fund. Öll erindi skulu berast á stjorn@kirkjan.no.

Stjórnarmönnum ber eins fljótt og auðið er að staðfesta þátttöku á fundinum þó í síðasta lagi einum degi áður. Ef stjórnarmaður forfallast eftir að hann hefur staðfest þátttöku ber honum að tilkynna það til formanns eins fljótt og auðið er.

Prestur tekur þátt í stjórnafundi en hefur ekki atkvæðisrétt en getur tjáð sig um málefni til umræðu. Prestur skal senda inn sín erindi sem þarf að taka upp á fundi eins og stjórnarmenn (sjá að ofan), einnig skal prestur flytja munnlega skýrslu um starf frá seinasta stjórnarfundi til næsta stjórnarfundar. Stjórn getur óskað eftir að prestur víki af fundi ef þörf þykir.

Starfsmaður skal sitja stjórnarfundi og sér um fundarritun, skráningu samþykkta og verkefna. Starfsmaður hefur ekki atkvæðisrétt en getur tjáð sig um málefni til umræðu. Stjórn getur óskað eftir að starfsmaður víki af fundi ef þörf þykir.

Til að stjórnarfundur teljist löglegur verður hann að vera tilkynntur með ofangreindum hætti og að minnsta kosti þrír aðalstjórnarmenn sitji hann.
Ef stjórnarmaður boðar forföll skal leitast við að boða varamann í hans stað.

Stjórnin getur gert einn eða fleiri stjórnarmenn ábyrga fyrir ákveðnu verkefni, svo fremi sem sá stjórnarmaður eða stjórnarmenn séu því samþykkir. Ef um lítið verkefni er að ræða getur stjórnin ákveðið að hún þurfi ekki að hafa frekari afskipti af málinu.

Til að tryggja vinnulag og afköst stjórnarfunda þá er fast form fyrir stjórnarfundina, mikilvægt er að hlúa að öllum þáttum starfsins sem einnig auðveldar líka fundargerð og annað í starfi stjórnar.

Einu sinni í mánuði hittist stjórn á föstum mánaðarlegum fundi, aðaltakmark þess fundar er að halda verkefnum gangandi samkvæmt verkefnaskrá og fylgja eftir safnaðarstarfi og öðrum rekstri safnaðarins eftir þörfum.
Föst dagskrá hvers stjórnarfundar (ábyrgur fyrir lið er fyrir aftan)

 1. Fundur með presti í upphafi fundar, aðalumræða er safnaðarmál.
 2. Fundur með menningarfulltrúa
 3. Önnur mál sem hafa verið send inn til stjórnar – Allir

1. Fundur með presti / Safnaðarmál:

Prestur upplýsir stjórn um dagskrá fram að næsta stjórnarfundi og gengi frá seinasta fundi.

2. Fundur með Menningarfulltrúa:

Menningarfulltrúi upplýsir stjórn um dagskrá fram að næsta stjórnarfundi og gengi frá seinasta fundi.

3. Önnur mál sem hafa verið send inn til stjórnar

Tillögur fyrir önnur mál skulu vera send eins fljótt og auðið er fyrir stjórnarfund til að tryggja að stjórn geti undirbúið sig fyrir þær umræður.

Formaður forgangsraðar málum inn á dagskrá stjórnarfundar ef ekki er hægt að taka fyrir öll málefni innan eins fundar. Forgangsröðun skal vera gerð í samráði við aðra stjórnarmenn.

Ef stjórnarfundur kemst ekki yfir öll mál skulu eftirstandandi mál sem komast ekki að færast sjálfkrafa yfir á næsta stjórnarfund. Ef þau mál teljast of mikilvæg til að bíða eftir næsta fundi þá skal kallað til aukafundar stjórnar sem fyrst til að taka þau fyrir.

Allar tillögur skulu sendast á stjorn@kirkjan.no

Netfundur stjórnar

 1. Samþykkja fundargerð seinustu funda – Ritari
 2. Fara yfir stöðu fjármála – Gjaldkeri
 3. Starfsmannamál – Starfsmannastjóri
 4. Önnur aðkallandi mál

1. Fundargerð:

Fundargerð skal vera ritun á því sem gerist á stjórnarfundi og allar ákvarðanir stjórnar skulu koma þar fram nema það stangist á við persónuverndarlög (starfsmannamál t.d.) en þá skal vera sér afrit af fundargerð með þeim upplýsingum sem er geymd á lokuðu svæði stjórnar.

Til að auðvelda fundargerð þá getur stjórn nýtt sér Teams og að fundir séu teknir upp og fundargerð vísi til upptöku, allir fundarmenn verða þó að samþykkja upptöku. Birt fundargerð skal innihalda nægjanlegar upplýsingar um hvað hefur verið tekið fyrir á fundi stjórnar.

Fundargerð skal vera auðskilin og skýr yfirlestrar fyrir alla safnaðarmeðlimi.

Ritari stjórnar er ábyrgur fyrir fundarritun, ef ritari er ekki til staðar á fundi stjórnar þá er varaformaður ábyrgur fyrir ritun, ef varaformaður er ekki til staðar fellur þá það á formann að tryggja að fundarritun sé framkvæmd.

Fundaritari þarf að senda út drög að fundargerð innan við viku, þó helst sem fyrst, eftir stjórnarfund á alla stjórnarmenn sem voru til staðar, ef stjórnarmaður hefur athugasemd við fundargerð  getur hann skráð það inn í skjalið sem liggur á sameiginlega svæði.

Ef um einfalda leiðréttingu er að ræða (ritvillu) þá leiðréttir fundarritari það, ef um túlkunaratriði er að ræða þá skal reyna að leysa það með samskiptum á milli stjórnarmanna fyrir næsta stjórnarfund svo að fundargerð sé tilbúin til undirskriftar á næsta fundi stjórnar.

Stjórn samþykkir fundargerð síðasta fundar síns í byrjun hvers netstjórnarfundar, ef það eru óleystar athugasemdir þegar fundur hefst skal það vera fyrsta mál á dagskrá fundarins að leysa þær og uppfæra fundargerð og samþykkja þá fundargerð.

Fundargerð skal birt á heimasíðu safnaðarins innan 48 klukkustunda frá samþykkt, ef fundarritari sér ekki fram á að geta sjálfur gert það innan þess tíma þá er hann ábyrgur fyrir því að annar taki verkið að sér.

2. Fara yfir stöðu fjármála:

Gjaldkeri kynnir stöðu fjármála safnaðarins og hvort hún sé innan ramma fjárhagsáætlunar.

Ef staðan er sú að einhver liður fjárhagsáætlunar gangi ekki upp skal gjaldkeri koma með tillögu að lausn sem gæti falið í sér tilfærslu frá öðrum liðum fjárhagsætlunar sem eru þá undir áætlun.

Gjaldkeri skal vera fær um að svara fyrirspurnum vegna fjármála safnaðar á stjórnarfundum.

3. Starfsmannamál:

Stafsmannastjóri skal fyrir hvern stjórnarfund eiga stutt spjall við starfsfólk og prest.

Hann upplýsir stjórn um stöðuna. Umræða ef þörf krefur.

Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir ?

Aukafundur stjórnar

Ef stjórn þarf að kalla saman aukafund skal vera rík ástæða til þess og fundarefni skýrt áður en til þess fundar er kallað. Leitast skal við að halda aukafundinn á Teams (netfund).

Það skal leitast við að kosið sé um allar samþykktir á stjórnarfundum, undantekningu má gera ef þess er brýn þörf.

Fjárhagsrammar stjórnar

Engum innan stjórnar er heimilt að úthluta fjármagni umfram fasta fjárhagsramma stjórnar milli stjórnarfunda. En þessir rammar eru sem fylgir:

 • Allt yfir 15.000 NOK skal samþykkjast á fundi stjórnar.
 • Allt yfir 10.000 NOK skal gjaldkeri samþykkja.
 • Allt yfir 5.000 NOK skal formaður samþykkja.
 • Prestur verður að samþykkja allt umfram 2.500 NOK.

Allar samþykktir skulu tilkynntar gjaldkera skriflega.

Eins og er tekið fram að ofan þá er gjaldkeri sá eini sem getur greitt beint út af reikningi safnaðarins, greiðslur með persónulegum kreditkortum geta starfsmaður og prestur gert ásamt gjaldkera.
Greiðslur sem er ekki fylgir kvittun og/eða skýring á frá kreditkorti er dreginn frá launum viðkomandi starfsmanns. Ef kvittun kemur síðar fram er það þá endurgreitt til starfsmanns það sem var dregið af honum. Handhafi korts er ábyrgur fyrir notkun og innsendingu kvittana.

Brot á þessu telst sem alvarlegt brot í starfi og getur leitt til uppsagnar starfsmanna eða ósk um að stjórnarmaður víki.

Greiðsla fyrir stjórnarsetu

Viðmiðunarstuðull vegna vinnu og vinnutaps er 250 NKR pr. tíma, annar kostnaður borgast eftir reglum Norska ríkisins.

 • Fyrir fundarsetu á stjórnarfundi greiðast 1800 NKR
 • Fyrir störf sem stjórnarmanni er falið að vinna, er greitt fyrir vinnutap og kostnað.
 • Fyrir sérverkefni er greitt fyrir vinnu per tíma eftir samþykktum.
 • Áætluð vinna gjaldkera vegna eftirlit bókhalds er 100 tímar á ári og greiðist eftir aðalfund.
 • Áætluð vinna formanns er 100 tímar á ári og greiðist eftir aðalfund.
 • Formaður hefur til afnota tölvu og fær greiddan símakostnað.
 • Ritari hefur til afnota tölvu.

Ferðakostnaður og dagpeningar eru greiddir samkvæmt reglum Norska ríkisins.

Samþykktir taxtar af stjórn

Meðhjálpari við messu 1 000,- nok

Barna og unglingastarf

Stjórnandi: 1 400,- nok

Aðstoðarmanneskja (ungleiðtogi): 800,- nok

Tónlistarfólk sem kemur fram í messum og öðrum viðburðum fá 2 500,- nok

Organisti fær 3 500,- fyrir messu/viðburð

Kirkjukaffi styrkur venjulegur er 2 000,- nok en 4 000,- fyrir jólakaffi

Styrkir til Íslendingafélaga sem hafa samþykkt formlegt samstarf

Sjá kaffistyrk að ofan.

Árleg aðstoð við jólaball.

Árlegur menningarviðburður á svæði félagsins og í samstarfi við félagið.

10.000 króna hauststyrkur fyrir aðstoð við æskulýðsstarf

10.000 króna styrkur til 17. Júní hátíðarhalda.

Kórasamningur 2020

Kórar með kórasamning eru Ískórinn, Laffí, Sönghópurinn Björgvin, Hrafnaflóki og Kór Kjartans.

Hver kór fær styrk að upphæð 15.000 krónur á ári og skal hann líka dekka fyrsta viðburð fyrir söfnuðinn.

Fyrir aðra viðburði umfram fyrsta viðburð er greitt 600,- nok fyrir hvern kórfélaga sem syngur en þó að hámarki 7.800,- nok.

Söfnuðurinn styrki að auki einn sameiginlegan viðburð kóranna á ári að upphæð 15.000 krónur.

Verkfæri stjórnar

Aðalverkfæri stjórnar er Office 365 og verkfæri innan Office 365. Fjárhagskerfi er PowerOffice GO og því fylgir snjallforrit sem stjórn og allir starfsmenn nýta til að senda inn kvittanir, tíma og ferðareikninga.

Söfnuðurinn hefur einnig aðgang að Adobe forritum til vinnslu á myndefni og ýmsu öðru.

Öll skjöl skulu vistuð þannig að þau séu aðgengileg og breytanleg óháð stýrikerfi.

Öll skjöl skulu vera vistuð innan Office 365 (Teams) / Azure kerfi safnaðarins.

Engin skjöl skulu vera vistuð á persónulegum tölvum/svæðum.

Samstarf við aðra aðila

Samstarf við Íslensku söfnuðina í Skandinavíu

Söfnuðurinn hefur fast samstarf við hina íslensku söfnuðina í Skandinavíu um fermingarfræðslu, námskeið, ungmennahitting, sumarbúðir og leiðtogaþjálfun.

Söfnuðurinn sækir árlega um jöfnunarstyrk til íslensku þjóðkirkjunnar sem er nýttur til samstarfsins til að standa straum af ýmsum kostnaði.

NKR

Söfnuðurinn er áheyrnarmeðlimur í Norges Kristne Råd en hefur sótt um fulla aðild árið 2021.

Sóknarprestur situr í nefndum hjá NKR fyrir hönd safnaðarins.

Sænska og Finnska kirkjan

Samnorræn messa er haldin einu sinni á ári

Fastir reglulegir fundir presta (samstarf)

Söfnuðurinn og ofannefndar kirkjur standa saman í málaferlum gegn Barne- og familiedepartementet, sem kostað er af Sivilombudsmannen, eftir að hafa verið svipt sóknargjöldum og gert að nýskrá alla meðlimi.

Söfnuðurinn hefur komist að samkomulagi við Sænsku kirkjuna um afnot að Margaretakyrken i Oslo fyrir guðsþjónustur af og til.

Nordberg sókn

Nordbergkirkja  er aðgengileg fyrir söfnuðinn eftir samkomulagi.

Árlega hefur verið samstarf um alþjóðlega messu.

Íslenskir prestar í Noregi (Skandinavíu)

Söfnuðurinn hefur áður haldið samstarfsfundi með íslenskum prestum og stefnir að því að endurvekja þá.

Sendiráð Íslands í Noregi

Samstarfið er enn sem komið er óformlegt en stefnt er að því að koma því í fastari skorður.

Tengiliður okkar í sendiráðinu er Karí Jónsdóttir

Íslendingafélög

Leitast hefur verið við að hefja samstarf við Íslendingafélög víðsvegar um Noreg. Söfnuðurinn býður upp á styrki við þau félög sem vilja samstarf. Annarsvegar er það styrkur fyrir 17. júní hátíðarhöld og hinsvegar fyrir barna- og unglingastarf. Eins hefur söfnuðurinn falast eftir að félögin komi að því að sjá um messukaffi og fái greitt fyrir það. Söfnuðurinn hefur einnig flutt inn og gefið íslenskt jólanammi fyrir jólaböll íslendingafélaganna.

Samþykktir lögaðilar sem stjórn hefur valið sér til samstarfs

Lögfræðingur: Anna Guðný Júlíusdóttir (Advokat Anna Juliusdottir AS)

Löggildur bókari: Aketo AS (Jørn Krognes)

Löggildur endurskoðandi: Tom Sverre Bang – Glommen Revisor AS