1    Inngangur

1.1   Markmið

Markmið þessa skjals er að gera grein fyrir þeim grundvelli sem Íslenski söfnuðurinn í Noregi (Héðan af: Söfnuðurinn) byggir starf sitt á og útskýra þær skuldbindingar sem þessi grundvöllur hefur í för með sér fyrir starfsemi safnaðarins, starfsmanna hans, samstarfsmanna og félaga. Auðskiljanlegar siðareglur sem farið er eftir stuðla að trausti, bæði til safnaðarins og manna á milli.

1.2   Grundvöllur

Starf safnaðarins byggist á Biblíunni, hinni heilögu ritningu, sem og játningarritum hinnar evangelísk-lútersku íslensku Þjóðkirkju. Jafnframt eiga við þau lög og reglur sem á hverjum tíma eiga við starfsemi Þjóðkirkjunnar sem og stefna- og starfsáætlun safnaðarins.

Ef sú staða skyldi koma upp að mismunandi reglur stangast á, ber fyrst og fremst að fylgja landslögum. Söfnuðurinn býr við íslenska kirkjulöggjöf og norskt rekstrarumhverfi. Mál sem falla ekki undir norsk landslög ber að athuga gaumgæfilega og ráða úr með almennri skynsemi. Þeim málum sem starfsmenn safnaðarins, samstarfsaðilar eða aðrir geta ekki ráðið úr, ber að skjóta til stjórnar safnaðarins eða þar til bærra aðila.

1.3   Umfang

Siðareglur þessar eiga við alla starfsmenn safnaðarins, launaða sem ólaunaða, stjórnarmeðlimi, nefndameðlimi og presta safnaðarins. Einnig gilda um þessa aðila siðareglur þær sem kirkjuþing setur Þjóðkirkjusöfnuðum. Um presta safnaðarins gilda ennfremur siðareglur Prestafélags Íslands. Siðareglur safnaðarins eiga einnig við alla þá aðila, einstaklinga eða félög, sem söfnuðurinn kýs að eiga samstarf við. Ennfremur eiga þær við alla þá meðlimi safnaðarins sem taka þátt í aðalfundi og þar með stjórnskipun hans.

2    Ábyrgð kirkjunnar og samstarfsfélaga hennar

2.1   Fjármunir

Söfnuðurinn fær á hverju ári sóknargjöld frá norska ríkinu og sveitarfélögunum samkvæmt fjölda meðlima. Þetta er rekstrarfé safnaðarins og um það gilda ákveðin lög:

Sb. LOV 1969-06-13 nr 25: Lov om trudomssamfunn og ymist anna.

Sjá link: http://www.lovdata.no/all/hl-19690613-025.html#1

Söfnuðurinn er ábyrgur fyrir því að nota fjármuni sína skynsamlega og í samræmi við þau lög sem gilda.

2.2   Gjafir af fjármunum kirkjunnar

Við sérstök tilefni, til dæmis þegar starfsmaður eða stjórnarmeðlimur lýkur störfum innan safnaðarins, getur verið viðeigandi að gefa lítinn þakklætisvott fyrir hönd safnaðarins. Slíkar gjafir, þ.e. þær sem ekki falla innan ramma sem ákveðnir hafa verið af stjórn safnaðarins, mega ekki vera peningagjafir. Þess í stað getur komið til greina að kaupa t.d. listaverk eða blómagjöf eða annað í þeim dúr.

Hámarksverðgildi slíkra gjafa skal ekki fara fram úr samþykktri opinberri hámarksupphæð sem norska ríkið gefur út.

Hvorki er leyfilegt að gefa né þiggja gjafir í skiptum fyrir greiða eða viðskipti, eða til þess að ná fram persónulegum hagsmunum.

2.3   Jafnrétti við skipun/ráðning starfsmanna

Söfnuðurinn og meðlimir hans skulu sjá til þess að einstaklingum sé aldrei veitt starf, staða eða stöðuhækkun á öðrum forsendum en hæfni. Þetta á jafnt við í ráðningu prests, starfsmanna, launaðra sem ólaunaðra, skipun stjórnarmeðlima eða nefndarmeðlima. Ekki er leyfilegt að mismuna umsækjendum á forsendum kyns eða annarra þátta sem ekki hafa bein áhrif á stöðuna.  Hafa skal í heiðri það viðmið sem birtist í jafnréttisáætlun Þjóðkirkjunnar að hlutföll kynjanna sé 40/60.

2.4   Miðlun siðareglna

Formanni safnaðarstjórnar ber að sjá til þess að allir þeir aðilar sem falla undir þessar siðareglur (Sbr. lið 1.3) hafi greiðan aðgang að siðareglunum. Þær verði afhentar nýjum stjórnar- og nefndarmeðlimum og við ráðningu og skipun starfsmanna, launaðra sem ólaunaðra.

3    Ábyrgð einstaklinga

3.1   Trúnaður

Starfsmönnum safnaðarins, launuðum sem ólaunuðum, safnaðarstjórn og samstarfsaðilum (Sbr. lið 1.3) ber að starfa af kostgæfni, fyrir opnum tjöldum og vera reiðubúin til að rökstyðja ákvarðanir sínar og tilgreina þá hætti sem ákvarðanir þeirra eru byggðar á. Þeim ber að sýna trúnað við söfnuðinn og hagsmuni hans. Óheimilt er að nota stöðu sína gagnvart söfnuðinum til þess að leita eigin hagsmuna. Þagnarskylduna ber að virða.

3.2   Starfshæfni

Einstaklingum eða félögum sem taka við starfi, stjórnarsæti, verkefni eða annarri þjónustu í þágu safnaðarins ber að uppfylla öll þau almennu skilyrði sem viðeigandi staða krefst. (Sjá viðeigandi lög um starf þjóðkirkjunnar)

Einstaklingum í stjórn safnaðarins og öðrum ábyrgðarstöðum ber að gera viðvart um persónuleg tengsl eða aðra hagsmuni sem haft geta áhrif á stöðu þeirra. Ekki er æskilegt að tveir eða fleiri einstaklingar með náin fjölskyldu-, viðskipta- eða hagsmunatengsl taki saman þátt í stjórnarstörfum.

Í málum þar sem stjórnarmeðlimur getur haft persónulegra hagsmuna að gæta ber honum að gera viðvart um stöðu sína og sitja hjá í umræðum og kosningum varðandi það mál.

3.3   Líferni

Prestar safnaðarins, stjórnarmeðlimir, leiðtogar í barna- og unglingastarfi, og aðrir sem fara með umboð safnaðarins eiga að sýna ábyrgð og fordæmi í eigin líferni. Þeir skulu leitast við að fylgja kristilegu siðferði á öllum sviðum. Það á einnig við um rafræn samskipti.

Sérstaklega mikilvægt er að starfsmenn safnaðarins í barna- og unglingastarfi sýni fordæmi á hinum mörgu sviðum lífsins. Siðareglur og heilræði fyrir leiðtoga í barna-og unglingastarfi Þjóðkirkjunnar skulu vera leiðtogum safnaðarins kunnar. Neysla áfengis er óheimil þegar starfað er með börnum og unglingum. Starfsmenn skulu einnig gæta þess að misnota ekki stöðu sína gagnvart börnum og unglingum eða aðhafast nokkuð sem getur ógnað þeim.

Til þess að fylgja kröfum siðareglanna um líferni er mikilvægt að starfsmenn safnaðarins leiti eftir símenntun, fræðslu og uppbyggingu í trú og kristnu samfélagi. Þeir skulu einnig kynna sér þau lög sem eiga við stöðu sína.  Siðareglurnar skulu yfirfarnar af sóknarpresti og stjórn safnaðarins árlega.

4    Persónuleg sambönd og þagnarskylda

4.1   Persónuleg sambönd

Í sálusorgarviðtölum og í öðrum samtölum sem bundin eru trúnaði ber starfsmanni sem til þess hefur fagmenntun í umboði safnaðarins að mæta tilfinningum og tiltrú skjólstæðings síns faglega og í viðeigandi nánd.  Hann skal einnig gæta þess að stofna ekki til óviðeigandi sambands við skjólstæðing sinn, heldur þekkja sín eigin mörk og minnast þess að skjólstæðingurinn getur haft önnur mörk. Hann má aldrei misnota stöðu sína eða ógna velferð skjólstæðings síns.

4.2   Þagnarskylda

Starfsmönnum í umboði safnaðarins ber að gæta þagnarskyldu og fara leynt með það sem þeir verða áskynja í sálusorgarviðtölum eða öðrum samtölum og störfum sem þagnarskylda hvílir á. Undantekningu skal gera frá þagnarskyldunni ef augljós hætta býður skjólstæðings eða annarra. Barnaverndarlögin rjúfa þagnarskyldu presta. Starfsmönnum í umboði safnaðarins getur einnig verið skylt að rjúfa þagnarskyldu, í samræmi við gildandi landslög, og ber að gera skjólstæðingi sínum grein fyrir mörkum þagnarskyldunnar.

Þagnarskylda á einnig við eftir að starfi lýkur í þágu safnaðarins.

5    Uppgjör og fyrirgefning

Samstarfsmenn og manneskjur almennt brjóta og syndga hver gegn annarri og þarfnast iðulega bæði þess að biðjast fyrirgefningar og að veita hana. Þó er ekki hægt að krefjast hennar.

Það að fyrirgefning sé til staðar þýðir ekki að létt sé tekið á sárum eða skaða sem hlotist getur af orðum og verkum. Fyrirgefning krefst uppgjörs og stundum einnig þess að gerandi bæti fyrir brot sitt eins og hægt er, og þar að auki að allir viðkomandi stuðli að því að endurvinna traust.

Kærleikur Guðs sem birtist í fyrirgefningu syndanna fyrir dauða og upprisu Jesú Krists er brennidepill kristinnar trúar, og ber þess vegna að setja mark sitt á allt starf safnaðarins. Fyrirgefningin veitir nýtt afl og traust gagnvart Guði og mönnum. Eins og Drottinn hefur fyrirgefið okkur, svo skulum við og gera (Sbr. Kól 3:13).

“Íklæðist því eins og Guðs útvalin, heilög og elskuð börn hjartagróinni meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi. Umberið hvert annað og fyrirgefið hvert öðru ef einhver hefur sök á hendur öðrum. Eins og Drottinn hefur fyrirgefið ykkur, svo skuluð þið og gera. En íklæðist yfir allt þetta elskunni sem bindur allt saman og fullkomnar allt.” (Kól.3.12-14)