Íslenski söfnuðurinn í Noregi var formlega stofnaður árið 1997. Sr. Jón Dalbú Hróbjartsson hafði fyrir þann tíma þjónað Íslendingum í Noregi um nokkurt skeið en hann var þá prestur íslensku kirkjunnar í Svíþjóð. Það var sr. Sigrún Óskarsdóttir sem var sett í embætti prests Íslenska safnaðarins í október 1997 og var þá haldin fyrsta guðsþjónusta íslensks safnaðar í Noregi að viðstöddum mörg hundruð Íslendingum. Íslenski söfnuðurinn fékk þá sem og eftir afnot af kirkju bandaríska safnaðarins í Ósló tvo sunnudaga í mánuði.

Söfnuðurinn hefur talið, þegar fjölmennast var, yfir 8 þúsund manns.  Árið 2007 þegar sr. Arna Grétarsdóttir gerðist prestur safnaðarins voru um 2000 félagar skráðir. Sú tala hækkaði ört eftir 2008 þegar efnahagshrunið dundi yfir og þúsundir Íslendingar streymdu til Noregs. Tók við mikill annatími hjá söfnuðinum og starfsfólki hans árin sem á eftir fylgdu. Af því leiddi að starfsfólki fjölgaði og var þá til viðbótar við prest í fullu starfi annar prestur í hálfu starfi, fræðslufulltrúi í hálfu starfi og starfskona á skrifstofu í fullu starfi. Þessu til viðbótar voru svo starfandi leiðtogar í sunnudagaskólanum á fleiri stöðum vítt og breitt um landið. Sú starfsemi hefur alltaf verið mikilvægur hluti af starfi Íslenska safnaðarins því það hefur einnig gefið íslenskum börnum tækifæri til þess að hittast og tjá sig á íslenskri tungu og um leið efla íslenska menningu. Þetta hefur að sjálfsögðu átt við fullorðna fólkið líka og er það sem hefur gefið Íslenska söfnuðinum sérstöðu meðal trúfélaga að hann hefur einnig sinnt því að efla og varðveita íslenska tungu, íslensk gildi og menningu.

Starf prests Íslenska safnaðarins og safnaðarins sjálfs hefur einnig verið einstakt að því leyti að presturinn þjónar landinu í heild og ferðast því vítt og breitt.

Árið 2012 festi söfnuðurinn kaup á því húsnæði sem í dag hýsir safnaðarheimili, skrifstofur prests og starfsmanns, en áður hafði sú aðstaða verið leigð á öðrum stað. Þessu húsnæði var gefið nafnið Ólafíustofa til heiðurs Ólafíu Jóhannsdóttur. Þar hafa verið haldnir fastir viðburðir fyrir börn og fullorðna ásamt því að ýmsir hópar hafa haft þar fundaaðstöðu. Þá hafa einnig kórar og tónlistarfólk haft þar aðstöðu til æfinga.

Árið 2016 urðu mikil umskipti innan safnaðarins þegar norska ríkið gerði þá kröfu/lagabreytingu að norrænu söfnuðirnir í Noregi yrðu að fá sína félaga til að staðfesta aðild sína að söfnuðunum með sannanlegum hætti. Var þetta gert til að forðast falskar skráningar sem vart hafði orðið við í einhverjum trúfélögum. Til þessa höfðu þeir sem fluttu til Noregs frá Íslandi, og voru skráðir í íslensku þjóðkirkjuna, sjálfkrafa verið skráðir í Íslenska söfnuðinn í Noregi. Það sama átti við um sænska og finnska söfnuðinn í Noregi. Var þessi krafa sett fram með stuttum fyrirvara og reyndist of knappur tími fyrir söfnuðinn til þess að hafa samband við hvern félaga, sem á þessum tíma voru vel yfir sjö þúsund. Þar með missti söfnuðurinn líkt og hendi væri veifað stærstan hluta tekna sinna og næstu ár á eftir voru þung í rekstri eftir milljónatap og yfirvofandi gjaldþrot. Unnu stjórn og starfsfólk safnaðarins vel og mikið að því að vinna upp þennan missi og í ársbyrjun 2020 hafði það tekist og gott betur að vinna upp félagatal safnaðarins til þess sem áður hafði verið skráð.

Prestar er starfað hafa fyrir söfnuðinn í tímaröð:

Sr. Jón Dalbú Hróbjartsson – Sóknarprestur 1994-1997

Sr. Sigrún Óskarsdóttir – Sóknarprestur 1997-2001

Sr. Hannes Björnsson – Sóknarprestur 2001-2004

Sr. Helgi Hróbjartsson – Sóknarprestur 2004-2007

Sr. Arna Grétarsdóttir – Sóknarprestur 2007-2016

Sr. Ása Laufey Sæmundsdóttir –  Prestur 2015- 2017.

Sr. Ragnheiður Karítas Pétursdóttir – Sóknarprestur 2016-2018

Sr. Lilja Kristin Þorsteinsdóttir –  Prestur 2017-2018.

Sr. Þórey Guðmundsdóttir – Afleysingaprestur jan 2019 – ágúst 2019

Sr. Inga Harðardóttir – Sóknarprestur frá 2019 og núverandi prestur safnaðarins.