Íslenska kirkjan í Noregi er lifandi samfélag Íslendinga um allan Noreg. Áhersla er lögð á að byggja upp kærleiksríkt og opið kirkjustarf sem býður m.a. upp á fjölbreytt helgihald og aðgengilegar athafnir, menningarviðburði og félagsstarf, fræðslu, barna- og æskulýðsstarf, fermingarfræðslu, sálgæslu og stuðning á erfiðum tímabilum. 

Hlutverk íslensku kirkjunnar í Noregi er að vera kærleiksríkt skjól sem Íslendingar í Noregi geta leitað til í gleði og sorg.  

Ólafíustofa er heimili safnaðarins í Osló og þar fer ýmislegt fram, kóræfingar, sunnudagaskóli, unglingahittingar, Gæðastundir eldri borgara, handavinnukvöld og heilmikið af skipulags- og skrifstofuvinnu. Starf kirkjunnar er þó engan veginn bundið við Osló því reglulegir unglingahittingar, fjölskyldustundir og prjónakvöld eru líka í Stavanger, Sandefjord, og Kristiansand,  auk þess sem boðið er upp á útivistardaga, sunnudagaskóla, guðsþjónustur og jólahátíðir í Sandefjord, Kristiansand, Stavanger, Bergen, Þrándheimi og Tromsø.

Íslenska kirkjan í Noregi er í góðu samstarfi við íslenska kóra og Íslendingafélög víða um Noreg. Söfnuðurinn styrkir íslenska félagsskapinn með árlegum styrkjum auk þess að styrkja eða standa straum af kostnaði í kringum viðburði sem eru haldnir á hverjum stað fyrir sig.

Prestur Íslensku kirkjunnar í Noregi kemur til sóknarbarna um allt land, auk þess að sinna sálgæslu og samtalsþjónustu í síma og á skjánum. Hægt er að óska eftir skírn, hjónavígslu og útför óháð búsetu og leggur söfnuðurinn sig fram um að koma til móts við þarfir og óskir.

Fermingarfræðslan fer fram á netinu einu sinni í mánuði og með tveimur fermingarnámskeiðum þar sem íslensku fermingarbörnin í Noregi fara til Svíþjóðar að hitta íslensk fermingarbörn frá Danmörku og Svíþjóð. Fermingarmessur safnaðarins fara fram í Osló og Reykjavík að sumri til.

Hjá Íslensku kirkjunni í Noregi starfa sr Inga Harðardóttir prestur, Berglind Gunnarsdóttir skrifstofustjóri, Pálína Ósk Hraundal menningarfulltrúi og Rebekka Ingibjartsdóttir æskulýðsfulltrúi. Auk þess er fjöldi leiðtoga, stjórn safnaðarins og sjálfboðaliðar sem gera það kleift að halda úti metnaðarfullu og kraftmiklu starfi.

Skráningin þín skiptir máli. Íslenska kirkjan í Noregi er sjálfstætt skráð trúfélag í Noregi. Norska ríkið greiðir Íslensku kirkjunni í Noregi trúfélagagjald fyrir hvern skráðan meðlim og fyrir það fé er starfinu haldið gangandi. 

 

Lögð er rækt við samvinnu og samstarf við:

  • Þjóðkirkjuna á Íslandi
  • Biskupsstofu
  • Sendiráð Íslands í Noregi
  • Tengiliði safnaðarins víðs vegar um Noreg
  • Íslenska kóra í Noregi
  • Íslendingafélög í Noregi
  • Íslenska presta í Noregi
  • Norsku, sænsku og finnsku kirkjurnar í Noregi
  • Íslensku söfnuðina í Svíþjóð og Danmörku
  • Norges Kristne Råd

Söfnuðurinn leggur ríka áherslu á umhverfisvernd og meðvitaða stefnu í umhverfismálum. Þá er leitast við að hafa jákvæð áhrif á umhverfi og samfélag með ákvörðunartöku og þjónustu.

Persónuverndarstefna safnaðarins tekur mið af norskum og íslenskum lögum.

Íslenski kirkjan í Noregi er opin og frjálslynd kirkja, umburðarlynd og framsækin, með rætur í hefðinni en óhrædd að vaxa mót nýjum tímum.

Þið eruð öll velkomin að taka þátt í starfi safnaðarins, óháð því hvaðan þið komið eða á hvaða leið þið eruð. Þið eruð velkomin eins og þið eruð.

Íslenska kirkjan í Noregi vill reynast ykkur sem stór, umburðarlynd og elskandi fjölskylda sem fagnar fjölbreytileika og samstöðu.

Íslenska kirkjan í Noregi er hluti af þjóðkirkju Íslands. Söfnuðurinn deilir grunngildum og markmiðum starfsins með íslensku þjóðkirkjunni þó með þá sérstöðu að vera kirkja meðal Íslendinga erlendis. Enn fremur starfar söfnuðurinn eftir norskum lögum og þeirri stefnumótun sem söfnuðurinn setur um starfsemi sína á hverjum aðalfundi.

Aðalfundur Íslensku kirkjunnar er haldinn á hverju ári, í apríl eða maí að lokinni sunnudagsmessu. Allir safnaðarfélagar eru hvattir til að mæta. Allir skráðir félagar geta boðið sig fram til trúnaðarstarfa og hafa kosningarétt á aðalfundi. Í stjórn safnaðarins sitja 5 einstaklingar og 3 til vara. Einnig starfa margir sjálfboðaliðar vítt og breitt um landið við ýmiss konar störf. Þau sem vilja og hafa tök á því að bætast í þann hóp hafi samband við sóknarprest, sr. Ingu Harðadóttur.