Ungmennastarfið í Noregi hefur verið öflugt síðan það hófst haustið 2008 í Ósló. Ungmennahópar hafa verið virkir í Ósló, Stavanger, Bergen og Sandefjord en einmitt núna eru bara virkir hópar í Sandefjord og Ósló.

Sumstaðar hittast ungmennin einu sinni í mánuði, en í Ósló eru hittingar aðra hverja viku í Ólafíustofu. Rebekka Ingibjartsdóttir heldur utan um þá með áhugasömum ungleiðtogum og ungmennum.

Dagskráin er alltaf hugsuð út frá óskum þátttakenda og styður söfnuðurinn vel við bakið á slíku starfi. Aðaláhersla er lögð á gott samfélag og náungakærleikann, en leiðtogar reyna alltaf eftir bestu getu að miðla kristilegum gildum í verki.

Það er alltaf boðið upp á eitthvað matakyns á hittingunum enda eru margir að koma beint úr skóla eða öðru. Stundum er horft á mynd, eða spilað á spil. Á veturna finnst okkur gott að baka og búa til kakó og á vorin förum við út í eina krónu eða grillum pylsur.

Einu sinni á ári hefur söfnuðurinn boðið upp á stærri dagskrá þátttakendum að kostnaðarlausu, til dæmis lazertag, go-cart, keiluferð eða kvöld í Dreamport.

Ungmennahópar geta fengið kostnað greiddan af söfnuðinum svo það kosti ungmennin ekkert að vera með í félagsskapnum.  Við vitum að það er fullt af ungmennum þarna úti sem langar að kynnast jafnöldrum og eiga gott samfélag. Þess vegna hvetjum við eindregið til þess að fólk á aldrinum 13-20 ára hafi samband og prófi að hittast. Áhugi er fyrir ungmennastarfi bæði í Álasundi og Þrándheimi og við vonumst til þess að ungmenni á þeim svæðum vilji taka þátt í starfinu.

Hafðu endilega samband við Rebekku Ingibjartsdóttur æskulýðsfulltrúa (rebekka@kirkjan.no) ef þú hefur áhuga á að vera með eða ef þú vilt meiri upplýsingar.