VERIÐ VELKOMIN

Sama hver við erum eða hverju við trúum þá getum við flest sammælst um það að við þurfum að ganga vel um jörðina okkar. Þegar við göngum sem pílagrímar erum við ekki aðeins að hreyfa okkur úr stað heldur erum við einnig á andlegu ferðalagi. Við göngum með ásetningi, eflum bæði líkama og anda, og notum gönguna til að íhuga, biðja eða iðka núvitund.
Í mörg ár hafa trúfélög sótt í þessa gömlu andlegu iðkun og tengt hana við umhverfismál. Kristnir, búddisar, hindúar, múslimar og fleiri hafa gengið saman til að sýna samstöðu trúarhópa um það að jörðin sé heilög og að það sé skylda okkar að vernda hana.

Hér heima hafa pílagrímagöngur orðið fastur liður í starfi margra kirkna og safnaða, en þó hafa söfnuðir þjóðkirkjunnar ekki tekið þátt í alþjóðlegu verkefni loftslagspílagríma fyrr en nú.

UM VERKEFNIÐ

Kirkjur um allt land og utan munu skipuleggja pílagrímagöngur í ár, bæði lengri og styttri, og halda utan um hve margir kílómetrar eru gengnir. Eins er hægt að ganga á eigin vegum og láta okkur vita í gegnum heimasíðuna okkar hve marga kílómetra þú hefur gengið. Verkefnið hefst á öskudegi, við upphaf páskaföstunnar og lýkur 4. október á degi heilags Frans frá Assísí, verndardýrlings náttúrunnar.

Markmiðið er að íslenskir loftslagspílagrímar gangi að minnsta kosti 1400 kílómetra áður en Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna fer fram í Glasgow undir lok árs 2021, en þetta er fjarlægðin frá dómkirkjunni á Hólum í Hjaltadal til ráðstefnuhallarinnar í Glasgow.

​Skrefin okkar verða einnig hluti af alþjóðlegu verkefni loftslagspílagríma sem ætla að ganga frá Póllandi, Ítalíu og Svíþjóð til Skotlands og sýna þannig í verki að kirkjur um allan heim láta sig framtíð jarðar varða.

Ef þú gengur í skipulagðri göngu á okkar vegum sér prestur eða starfsmaður kirkjunnar um að skila kílómetrafjöldanum til okkar.
En þú ætlar að ganga á eigin vegum getur þú skráð þína göngu hér á síðunni.

Textinn er fenginn að láni frá vinum okkar á Íslandi frá síðunni
Loftslagspílagrímar.org og þar er einnig að finna meiri upplýsingar um verkefnið.