Safnaðarstarfið er fjölbreytt og í stöðugri uppbyggingu. Leitast er við að efla starf víðs vegar um landið með tengiliðum á hverjum stað fyrir sig. Sem dæmi um það má nefna barna- og unglingastarf sem hefur verið haldið úti um árabil á fleiri stöðum.
Unglingastarf hefur verið miðað við 13-20 ára. Starfið hefur verið öflugt síðan það hófst árið 2008, mjög fjölbreytt starf sem leggur áherslu á gott samfélag og dagskrá sem passar hverjum hópi fyrir sig. Unlingahittingar eru í Osló og Sandefjord tvisvar í mánuði og annan hvern mánuð í Stavanger og Bergen.
Í Ólafíustofu er reglulega boðið upp á Krílakaffi og Gæðastundir. Í Krílakaffi eiga foreldrar og forráðamenn ungra barna saman notalega stund með söng og notalegu spjalli. Gæðastundir eru að jafnaði einu sinni í mánuði þar sem fólk á öllum aldri hittist yfir léttum hádegisverði og margvíslegri dagskrá og/eða spjalli.
Mánaðarlegar guðsþjónustur sem hluti af föstu helgihaldi hafa verið í Ósló, Kristiansand og Sandefjord. Einnig má nefna jólahátíðir, sem hafa verið fastur liður í Bergen, Stavanger og Þrándheimi, og sjómannadagsmessu í Tromsø.
Það er einnig stefna safnaðarins að bjóða upp á margvísleg námskeið og fræðslu fyrir fullorðna, s.s. sjálfsstyrkjandi námskeið og hjónanámskeið.
Sjálfboðaliðastarf er þýðingarmikið fyrir allt starf safnaðarins. Það er fjölbreytt starf og margir möguleikar fyrir áhugasama.