Skírnarathöfnin er falleg og hátíðleg athöfn. Við skírnina ríkir mikill samhugur,  og allir viðstaddir gleðjast og þakka fyrir barnið sem er fætt og óska því gæfu og Guðs blessunar um alla framtíð.

Á Íslandi er rík hefð fyrir því að börn séu borin til skírnar í heimahúsi. Það er fallegur siður sem færir heilagleikann inn á heimilin. Ekki er síðra að skíra börn í guðsþjónustu eða messu safnaðarins, þegar enn fleiri samgleðjast og sameinast í bæn fyrir barninu.

Skírnarþeganum eru valdir 2-4 skírnarvottar, eða guðforeldrar, sem eiga að gæta að velferð og vellíðan skírnarþegans og hjálpa til við að ala barnið upp í trú, von og kærleika.

Þegar um barnaskírn er að ræða er algengt að barninu sé gefið nafn um leið og nafninu þá haldið leyndu þar til það er nefnt við skírnina. Þetta er gömul venja sem á sér þann bakgrunn að ekki skuli nefna nafn barnsins opinberlega fyrr en barnið hefur verið helgað Guði.

Skírnin getur ýmist farið  fram í heimahúsi, kirkju eða kapellu. Prestur Íslenska safnaðarins í Noregi annast skírnarathafnir fyrir félaga í söfnuðinum þeim að kostnaðarlausu.

Hvað þarf að gera?

  • Tala við prestinn og panta samtal (inga @ kirkjan.no eða s. 40552800).
  • Ákveða með prestinum stund, stað og tíma.
  • Velja skírnarvotta 2-4 manneskjur og gefa prestinum upplýsingar um nöfn og kennitölur skírnarvottanna,  nafn, kennitölu og heimilisfang barnsins sem á að skíra sem og foreldra barnsins.

Þegar prestur skírir barn færir hann skírnarskýrslu og skráir í íslenska kirkjubók og sendir til Þjóðskrár á Íslandi.  Foreldrar þurfa sjálfir að senda fæðingarvottorð til Þjóðskrár á Íslandi með beiðni um skráningu í þjóðskrá til að barnið fái íslenska kennitölu og þar með íslenskt vegabréf. Foreldrar þurfa einnig sjálfir að skrá barnið í Þjóðkirkjuna á Íslandi en það er einfalt að gera á skra.is

Hér er hægt að skrá barnið og/eða foreldrana í Íslenska söfnuðinn í Noregi.

Ef nafnið sem foreldrar vilja velja fyrir barnið sitt er ekki að finna á listum Mannanafnaskrár yfir leyfð mannanöfn þarf að sækja um leyfi fyrir nafninu og það þarf að gera tímanlega. Hlekkur á vef mannanafnanefndar: https://www.island.is/mannanofn

Ef skírn fer fram í heimahúsi þarf að velja fallega skál til að skíra barnið upp úr, velja góðan stað á heimilinu þar sem athöfnin á að fara fram og hafa kertaljós logandi hjá skírnarskálinni. Í skálinni þarf að vera hreint ylvolgt vatn. Staðið er við skírnina og myndaður hringur svo búa þarf til gott pláss í kringum skírnarskálina. 

Skírn eldri barna og fullorðinna

Óskírðum eldri börnum, unglingum og fullorðnu fólki er velkomið að þiggja heilaga skírn hvenær sem það óskar eftir. Skírn fermingarbarna og fullorðins fólks er að inntaki hin sama og skírn nýfæddra barna en undirbúningur og framkvæmd tekur eðlilega mið af aldri viðkomandi.

Tákn

Mörg tákn eru notuð í skírninni, vatn, ljós, hvíti liturinn og síði skírnarkjóllinn.

Vatnið táknar grundvöll lífsins og rétt eins og við getum ekki lifað af án vatns getum við ekki lifað af án kærleika Guðs.

Skírnarkjóllinn sem er allt of stór og síður á litla barnið táknar að rétt eins og skírnarkjóllinn umvefur barnið er það líka umvafið kærleika Guðs sem er svo stór og víður að við getum ekki vaxið upp úr honum. Það vísar líka til þeirrar fyrirbænar að barnið fái að verða fullvaxta manneskja sem vex í trú um leið og það stækkar og dafnar.

Hvíti liturinn táknar fyrirgefningu.

Krossinn táknar sigur lífsins.

Kertaljósið vísar til orða Jesú þar sem hann segist vera ljós heimsins. Trúin er ljós sem vísar rétta leið í lífinu. Það minnir okkur líka á að fara eftir orðum Jesú þegar hann segir að við séum ljós heimsins og eigum að láta ljós okkar skína, og hvetur okkur til að láta góðverk okkar bera vitni um trú, von og kærleika.