Kæru tilvonandi hjón!

Nú nálgast stóri dagurinn ykkar þegar þið ætlið að gefast hvort öðru og lofa að standa saman í gleði og sorg, styðja hvort annað, deila áhyggjum ykkar og tvöfalda gleðina!

Kirkjuleg hjónavígsla er helgiathöfn. Þar mætast tveir einstaklingar og heita því að vera hvort öðru trú, elska og virða hvort annað, og eiga, njóta og taka saman á móti yndi og erfiðleikum lífsins.

Athöfnin er tjáning gleði og vonar, samstöðu og ábyrgðar. Viðstaddir umlykja hjónin fyrirbæn og blessunaróskum og vissan um návist Guðs jafnt í daglegu lífi  sem og á stórum stundum veitir hjónunum styrk til að lifa saman í kærleika, samstöðu og umhyggju.

Kirkjuleg hjónavígsla fer fram í kirkju en hægt er að fá undanþágu til að hafa athöfnina heima eða úti undir berum himni.

Athöfnin og dagurinn er ykkar, og alveg eins og það er mikilvægt að undirbúa hátíðardaginn þá er líka mikilvægt að nota tækifærið til að undirbúa sambandið. Nú hafið þið tækifæri til að ræða ýmis málefni sem oft gleymist að ræða í dagsins amstri og vita hvaða afstöðu maki ykkar hefur til ýmissa mála. Hér er ekkert rétt eða rangt svar – það er hægt að vera hjartanlega sammála um sumt en sammála um að vera ósammála um annað. Markmiðið er að í hjónabandinu ríki jafnvægi og sátt, og að það sé eðlilegt að ræða og taka til athugunar tilfinningar og afstöðu beggja aðila.

Meðfylgjandi eru punktar fyrir ykkur að tala saman um, velta upp mismunandi nálgun á málunum, tjá ykkar skoðun og sýn, og vera tilbúin að heyra hvað hinu finnst.

Að lokum megið þið gjarnan setja niður á blað nokkrar lýsandi setningar um tilvonandi maka, og tilfinningar ykkar í hans/hennar garð, hvað þið elskið í fari hins – eitt lítið ástarbréf upp á gamla mátann.

Ekki hika við að hafa samband við mig ef eitthvað kemur upp á eða þið viljið ræða eitthvað undir minni handleiðslu.

Með hjartans bestu kveðjum,

Inga

Sr. Inga Harðardóttir, prestur

Sími/Tel: (+47) 40 55 28 00

prestur@kirkjan.no

Íslenski söfnuðurinn í Noregi

Den Islandske Menigheten i Norge

Pilestredet Park 20

0176 Oslo

www.kirkjan.no