Kirkjuleg hjónavígsla er helgiathöfn þar sem brúðhjón gefast hvort öðru og lofa að standa saman í gleði og sorg, styðja hvort annað, deila áhyggjum sínum og tvöfalda gleðina!
Þar mætast tveir einstaklingar á jafnréttisgrundvelli og heita því að vera hvor öðrum trúr, elska og virða hvor annan, og eiga, njóta og taka saman á móti yndi og erfiðleikum lífsins.
Athöfnin er tjáning gleði og vonar, samstöðu og ábyrgðar. Viðstaddir umlykja hjónin fyrirbæn og blessunaróskum og vissan um návist Guðs jafnt í daglegu lífi sem og á stórum stundum veitir hjónunum styrk til að lifa saman í kærleika, samstöðu og umhyggju.
Kirkjuleg hjónavígsla fer alla jafnan fram í kirkju en hægt er að fá leyfi til að hafa athöfnina heima eða úti undir berum himni.
Hvað þarf að gera?
- Hafa samband við prestinn og ræða stað og stund, uppbyggingu og yfirbragð athafnarinnar.
- Útvega hjúskaparstöðuvottorð hjá Skatteetaten (https://www.skatteetaten.no/skjema/provingsattest/)
Hjónaefni þurfa að útvega sér hjónavígsluvottorð (no. prøvingsattest) hjá skattayfirvöldum í Noregi (no. skatteetaten) ef þau hafa verið búsett í landinu lengur en 6 mánuði en annars þarf að útvega hjónavígsluvottorð frá því landi sem búið var í og láta fylgja umsókn til skattayfirvalda hér.
Hjónavígsla getur ekki farið fram ef hjónavígsluvottorð berst ekki presti fyrir athöfn.
- Tala saman um umfjöllunarefnin hér að neðan
Venjulega hittir prestur hjónaefni fyrir vígslu einu sinni ef vegalengdir hamla því ekki. Farið er yfir samtalspunkta sem sjá má hér að neðan sem og athöfnina sjálfa.
Ekkert gjald er tekið fyrir hjónavígslu og söfnuðurinn greiðir fyrir kirkjuleigu.
Hægt er að bóka hjónavígslu á skrifstofu safnaðarins eða með því að hafa samband við sóknarprestinn (inga @ kirkjan.no)