Hjá söfnuðinum starfar menningarfulltrúi í hlutastarfi sem hefur umsjón með öllum menningar-, lista- og þjóðlegum viðburðum á vegum safnaðarins. Einnig sér hann um stefnumótun menningarstarfs og eflingu samstarfs við aðra aðila á sviði menningar og lista ásamt við að halda skrá yfir íslenskt listafólk búsett í Noregi.

Það er stefna safnaðarins að efla íslenska tungu, og menningu í breiðum skilningi, meðal Íslendinga í Noregi og stuðla að listflutningi íslensks efnis s.s. tónlistar og leiklistar. Þá er söfnuðinum einnig mikilvægt að styðja við félagslíf Íslendinga í Noregi á menningarlegum grundvelli og að eiga gott samstarf við Íslendingafélögin um land allt.

Söfnuðurinn hefur það sem skýra stefnu að greiða öllu listafólki fyrir vinnu sína og þá hafa einnig verið gerðir samstarfssamningar við alla íslensku kórana sem starfræktir eru. Við hvetjum alla sem hafa áhuga á að syngja í íslenskum kór eða stofna íslenskan kór að hafa samband við okkur.