Fermingarfræðsla 2023-2024 

Verið hjartanlega velkomin í fermingarfræðsluna! 

Fermingarárið markar tímamót í lífinu og fermingin á sér stað á miklum breytingatíma í lífi ungrar manneskju. Fermingarfræðslan býður upp á samtal um gildin í lífinu, hvað það er að vera almennileg manneskja og hvað trú og lífsviðhorf hafa til málanna að leggja. Í fermingarfræðslunni er ekki lögð áhersla á utanbókarlærdóm heldur á það að unglingarnir fái tækifæri og stuðning til að hugsa sjálfstætt og leita svara við stóru spurningunum í lífinu, m.a. um Guð, lífið, eilífðina, æðruleysi og hvað við getum sjálf lagt af mörkum til eigin hamingju. Í því samhengi kynnast fermingarbörnin trú og bæn, Biblíunni, starfi kirkjunnar og kærleiksboðskap Jesú Krists. 

Hvernig fer fræðslan fram? 

Fermingarfræðslan hjá Íslensku kirkjunni fer fram á annan hátt en hjá öðrum kirkjum því fermingarbörnin eru dreifð um allan Noreg en öll fermingarbörnin taka virkan þátt engu að síður.  Fræðslutímar eru á netinu einu sinni í mánuði og svo hittist hópurinn á tveimur fermingarnámskeiðum í október og í maí. Mjög mikilvægt er að fermingarbörnin mæti á fermingarnámskeiðin.  

  • Foreldrafundur verður á netinu 5. september kl. 18.00 
  • Fyrsti fermingarfræðslutíminn á netinu er 12. september kl 15.30. 
  • Fermingarnámskeiðin fara fram 6.-8. október og 26.-28.apríl. Vinsamlegast takið helgarnar strax frá! 

Fermingardagar

Mánudagurinn 20. maí, annar í hvítasunnu, í Osló.  

Sunnudagurinn 7. júlí í Háteigskirkju í Reykjavík. 

Einnig er möguleiki að fermast hjá öðrum prestum og kirkjum á Íslandi. Ef þið óskið eftir því, eða eftir öðrum möguleikum, má endilega ræða það við okkur.  

Fermingarnámskeið 

Fermingarnámskeiðin fara fram með íslenskum fermingarbörnum frá Danmörku og Svíþjóð. 

Farið er til Åh stiftsgård í Svíþjóð og er helgardagskráin full af leikjum, fræðslu og frjálsum tíma.  

Íslenska kirkjan stendur straum af öllum ferðakostnaði fermingarbarnanna á fermingarnámskeiðin. 

Foreldrar eru velkomin með sem sjálfboðaliðar. 

Berglind Gunnarsdóttir, skrifstofustjóri Ólafíustofu, getur aðstoðað við að skipuleggja ferðalagið.

 

Yfirlit yfir dagsetningar

5. september Foreldrafundur á netinu kl. 18.00 (linkur sendur í tölvupósti) 

12. september Fyrsta fermingarfræðslan á netinu kl. 15.30 

6.-8. október Fermingarnámskeið. Farið með rútu frá Osló.  

7. nóvember Fermingarfræðslan á netinu kl. 15.30 

12. desember Fermingarfræðslan á netinu kl. 15.30 

16. janúar Fermingarfræðslan á netinu kl. 15.30 

13. febrúar Fermingarfræðslan á netinu kl. 15.30 

12. mars Fermingarfræðslan á netinu kl. 15.30 

9. apríl Fermingarfræðslan á netinu kl. 15.30 

26.-28. apríl Fermingarnámskeið. Farið með rútu frá Osló. 

20. maí Fermingarmessa í Sænsku Margaretakirkjunni í Osló 

7. júlí Fermingarmessa í Háteigskirkju í Reykjavík

 

Við hvetjum fermingarbörnin og foreldra að mæta í guðsþjónustur og ungmennahittinga í sinni heimabyggð. Íslenska kirkjan er með reglulegar guðsþjónustur í Osló, Kristiansand og Sandefjord og fyrir jólin bætast Bergen, Stavanger og Þrándheimur við.  

Einnig bjóðum við upp á ungmennahittinga í Osló aðra hverja viku, og öðru hvoru í Bergen, Stavanger og Sandefjord. Og því tilvalið að nýta sér unglingahópana sem eru starfandi þar til að kynnast öðrum íslenskum krökkum.

Og ef ykkur langar að byrja með ykkar eigið æskulýðsstarf eða unglingahóp megið þið endilega hafa samband við okkur til að koma því af stað. Rebekka Ingibjartsdóttir, æskulýðsfulltrúi safnaðarins og allir flottu leiðtogarnir okkar eru til í allskonar skemmtilegheit með unglingum um allt land.   

 

Kennsluáætlun 

Fræðarar námskeiðsins: 

Inga Harðardóttir, prestur  

Rebekka Ingibjartsdóttir, æskulýðsfulltrúi, og Guðjón Andri Reynisson Rabbevåg, og fleiri leiðtogar og kennarar eru einnig með í ferðalögum. 

Kennslufyrirkomulag: 
Mest af kennslunni fer fram á tveimur fermingarfræðsluhelgum, ein að hausti og önnur að vori, sem mikilvægt er að öll fermingarbörnin sæki. Einnig eru fermingarfræðslutímar einu sinni í mánuði á netinu frá september til maí. Við biðjum fermingarfræðslunemendur að sækja messur í heimabyggð, gjarnan með einhverjum úr fjölskyldunni.   

Kennsluefni: 
Verkefni á netinu 

Aha! Verkefnabók – afhent á námskeiðinu í október 

Biblían 
 

Fræðslulýsing: 
Í fermingarfræðslunni verður meðal annars fjallað um gildi í lífinu, hugtök kristinnar trúar, samfélag, menningu og fjölmenningu, athafnir kirkjunnar, bænina, trúarlíf, sjálfsmynd og aðstæður ungmenna. 

Yfirmarkmið: 
Fermingarfræðslunni er ætlað að vekja og efla með ungmennum trú á Guð, kenna þeim um grundvallaratriði kristinnar trúar og virkja þau í starfi kirkjunnar. 

Ennfremur að hjálpa börnum að varðveita eigin trúarsannfæringu um leið og þau læra að virða þau sem hafa aðra trúarsannfæringu. 

Undirmarkmið: 
Að nemendur: 

  1. kynnist kristinni trú. 
  1. kynnist mismunandi athöfnum hinnar Lúthersku kirkju. 
  1. þjálfist í að lesa Biblíuna og ígrunda efni hennar og sögur. 
  1. Fái tækifæri til að skoða sjálfsmynd sína og gildi í lífinu 
  1. fylgist með helgihaldi og taki þátt í því og samfélagi kirkjunnar. 

Námsmat haustmisseris: 

Prestur heldur utan um mætingu og verkefnavinnu hvers fermingarbarns og metur hana. Ef fermingarbarnið fermist hjá öðrum söfnuði og presti, t.d. á Íslandi, er hægt að fá skriflega staðfestingu á þátttöku í fermingarnámskeiði Íslenska safnaðarins. 

Námsáætlunin byggir á námskrá fermingarstarfa frá Biskupsstofu. 

Skráning í valmynd hér á síðunni eða smelltu hér