fbpx

Fjölbreyttur og skemmtilegur sunnudagur í kirkjustarfinu

Það var margt um að vera hjá okkur síðastliðinn sunnudag í starfinu.
Í Ólafíustofu var bæði ungmennahittingur og æfing hjá barnakórnum Litla Laffí.
Það var góð mæting á ungmennahittinginn en tíu ungmenni frá Osló og nágrenni áttu saman dásamlegan sunnudag með leiðtogunum Natalíu Rán og Líf. Farið var á jólamarkaðinn Jul i vinterland þar sem hópurinn andaði að sér jólastemmningunni. Ferðin í parísarhjólið klikkaði ekki og allir í skýjunum með daginn.

Þegar kuldinn var farinn að sækja að hópnum var rölt aftur að Ólafíustofu þar sem heitt kakó og gott spjall yljaði hópnum.

Ungmennahittingur er næst á dagskrá þann 8. desember í Ólafíustofu kl 16:00.



Barnakórinn Litla Laffí var með æfingu fyrir aðventuhátíðina okkar sem er á dagskrá þann 24. nóvember í Bøler kirkju. Barnakórinn ætlar að syngja með Röggu Gröndal á aðventuhátíðinni falleg jólalög. Mikil spenna er í hópnum fyrir því.

Menningarleg dagskrá var í Þrándheimi sama dag þar sem Norðfólk og Kór Kjartans héldu frábæra þjóðlagatónleika. Rebekka æskulýðsfulltrúi og Jón Arnar voru með þjóðlagasmiðju fyrir krakkana á undan og Íslendingafélagið sá um að það væri heitt á könnunni og smá kruðerí með fyrir alla þá sem litu við í Lademoen kirkju.

Tónleikarnir í Lademoen kirkju með Kór Kjartans og Norðfólk voru eftirminnilegir og óhætt að segja að þjóðlegur andi hafi svifið um Þrándheim þennan dag.