Bréf Snorra Ásgeirssonar til safnaðarstjórnar og svar stjórnar til Snorra:
Safnaðarmál
Á framhaldsaðalfundi sem haldinn var 18. sept. 2022 sagði formaður stjórnar kirkjunnar að söfnuðurinn væri stiftelse.
Þetta kemur af einhverjum ástæðum ekki fram í fundargerð þessa fundar. Á fundinum sagði annar stjórnarmaður: “ Í norskum lögum um stiftelser sem við heyrum undir er það stjórnar að ákveða upphæð þóknunar fyrir fundasetu. Slíkar ákvarðanir þarf ekki að leggja undir aðalfund“. Þessari ræðu stjórnarmanns var dreift skriflega til fundarmanna. Ekki er þessa fullyrðingu heldur að finna í fundargerð.
Standist þetta getur maður velt því fyrir sér hvað það sé fleira sem aðalfundi er óheimilt að fjalla um af málefnum safnaðarins. Finnst fólki það eðlilegt að stjórn ákveði ein hvað hún sjálf er að taka sér í laun og þóknanir, og aðalfundur hafi ekkert um það að segja? Ég dreg það stórlega í efa að söfnuðurinn geti verið stiftelse og í mínum huga er aðalfundur æðsta vald í öllum málefnum safnaðarins. Stiftelse er ekki lýðræðislegt félagsform, ef félagsform geti kallast. Stiftelse hefur ekki meðlimi, eftir því sem ég best veit. Söfnuðurinn hefur þó meðlimi. Nokkrar spurningar sem við þyrftum að fá svör við: Hvað er stiftelse. Er Íslenska Kirkjan í Noregi stiftelse. Hún er ekki skráð sem stiftelse. Hvenær varð íslenska kirkjan stiftelse og hvers vegna. Hver ákvað það???
Það er mín skoðun að stjórn eigi að miðla upplýsingum og sjá til þess að fundargerðir stjórnarfunda og aðalfunda séu aðgengilegar fólki í söfnuðinum. Í fundargerð framhaldsaðalfundar 18. sept. 2022 er haft eftir stjórnarmanni að „lagalegt umhverfi“ hafi neytt stjórn til að taka fundargerðir stjórnarfunda af heimasíðu, en reynt verði að finna lausn á þessu. Hefur þessi lausn fundist? Er unnið að því að leysa þetta?
Ég vona að söfnuðurinn blómstri og allt starf innan hans verði fyrir opnum tjöldum og lýðræðislegt.
Það er ósk mín að pistillinn verði birtur á heimasíðu safnaðarins.
Snorri Ásgeirsson – Osló, 7. nóvember 2023
Svar stjórnar:
Heill og sæll kæri Snorri;
Ég vil byrja á að biðja afsökunar á því hve lengi þú hefur þurft að bíða eftir svari við erindi þínu!
Íslenska Kirkjan í Noregi er skráð sem slík hjá norskum yfivöldum sem «Forening» eða «Félag». Um slíkt rekstrarform eru ekki til sérstök lög. Ríkisstjórn Ernu Solberg hóf undirbúning að gerð sérstakra laga um félagasamtök «Foreningslov» en enn sem komið er hafa þau ekki litið dagsins ljós, en félög hafa jafnan stuðst við «Lov om stiftelser (stiftelsesloven)» og í þeim tilfellum sem við á «Lov om aksjeselskaper (aksjeloven)»
Af þessu hefur gætt misskilnings hjá okkar meðlimum þegar verið er að vitna í stiftelsesloven að áheyrendur hafa túlkað sem svo að kirkjan okkar sé stiftelse.
Forening, eða félag, er rekstrarform sem snýst um að halda utanum rekstur á t.d. félagsstarfsemi, menningarstarfsemi, góðgerðarstarfi og öðru slíku.
Stiftelse er á sama hátt rekstrarform sem snýst um að halda utanum rekstur á t.d. félagsstarfsemi, menningarstarfsemi, góðgerðarstarfi, eða hverskyns starfsemi en þar sem fjárhagsleg umsýsla á stærri þátt.
Það er rétt sem þú bendir á að stiftelse hefur ekki meðlimi, en hefur heldur enga eigendur, en forening hefur hinsvegar meðlimi.
Kirkjan okkar hefur síðan sín eigin lög sem samþykkt eru af aðalfundi, en eins og þar kemur fram eru þau aldrei hafin yfir landslög. Stjórnin setur sér svo sínar starfsreglur og siðareglur sem aðgengilegar eru á heimasíðu kirkjunnar.
Aðalfundur er vettvangur starfsskila stjórnar og þar er öllum heimilt að tjá sig og fjalla um öll þau mál er kirkjuna varða.
Fundargerðir aðalfunda eru aðgengilegar meðlimum og þarf ekki annað en að hafa samband við skrifstofu kirkjunnar til að fá slíkan aðgang. Þær eru hinsvegar ekki aðgengilegar á opinni heimasíðu kirkjunnar, og heldur ekki fundargerðir stjórnarfunda.
Ef skoðaðar eru heimasíður annarra kirkna, safnaða og trúfélaga bæði í Noregi og á Íslandi; og víðar; þá er hvergi að finna fundargerðir, hvorki aðalfunda né stjórnarfunda. Netið er einfaldlega of opinn miðill til þess að slík gögn geti legið fyrir augum allrar veraldar. Við reiknum með að fólk skilji það.
Fyrir fjölda ára samþykkti aðalfundur að stjórn skyldi fá greitt fyrir sín störf. Síðast var slík bókun gerð á aðalfundi árið 2009. Á þeim tíma, og fram að tíma heimsfaraldurs, hittist stjórn á stjórnarfundum einu sinni í mánuði, en hélt svo vinnufundi þess á milli. Í dag getum við unnið þessa vinnu á netfundum og ekki kemur til kostnaður vegna ferðalaga, gistingar og uppihalds. Það er þó mikilvægt hverri stjórn að hittast, og ekki síst þegar vinna á mikilvæg verkefni fyrir kirkjuna okkar, en það þarf ekki að reikna lengi til að sjá að kostnaðarliður stjórnar er miklu mun lægri í dag en hann var fyrir nokkrum árum, og tíðkaðist um árabil. Þökk sé tækninni. Þetta þekkir þú eflaust sem sjálfur sast í stjórn fyrir tíma netfundalausna.
Eins og fram kemur í stiftelsesloven sér stjórn um fárhagslegan resktur kirkjunnar, og ráðstafar fénu í þágu starfsins. Þar af leiðandi hefur það frá upphafi verið stjórnar að ákveða laun starfsmanna og stjórnarmeðlima. Ekki hefur tíðkast að leggja ákvörðun um laun fyrir stjórnarsetu í hendur aðalfundar. Það er þó ekkert því til fyrirstöðu að slíkt sé gert. Það þarf einfaldlega að ákveða það.
Sú stjórn sem nú situr hefur fyrst og fremst að markmiði að halda vel utanum rekstur kirkjunnar, hlúa að meðlimum og félagsstarfi kirkjunnar og allra íslendingasamfélaga í Noregi, gera kirkjuna góðan og aðlaðandi starfsvettvang fyrir starfsfólk og sjálfboðaliða og stuðla að uppbyggilegri umræðu og stöðugri uppbyggingu og þróun.
Á næsta aðalfundi sem haldinn verður þann 17. mars n.k. leggur stjórn fram tillögu til lagabreytinga sem samþykkja þarf á tveimur aðalfundum í röð. Þar bætum við inn í lög kirkjunnar eftirfarandi grein:
“Fyrir stjórnarfundi og aðra vinnu þiggur safnaðarstjórn og varamenn þóknun sem samþykkt skal af aðalfundi. Þóknun til stjórnar fylgir almennri launavísitölu.”
Þrátt fyrir að þessi lög verði ekki samþykkt að fullu fyrr en á aðalfundi árið 2025 vill sitjandi stjórn skapa fordæmi og leggur einnig til samþykktar nú á næsta aðalfundi tillögu um upphæð greðislu fyrir fundarsetu og tímalaun fyrir aðra vinnu,
Þetta viljum við gera til að auka trú og traust á störf stjórnar. Það er mín von að aðalfundur samþykki þessar breytingar.
Vonandi svarar þetta bréfkorn einhverju af þínum spurningum og vangaveltum varðandi þá liði sem þú nefnir.
Með bestu kveðjur, vinsemd og virðingu
Hjörleifur Valsson
formaður stjórnar Íslensku Kirkjunnar í Noregi