Dómsmál sænsku, íslensku og finnsku þjóðkirknanna í Noregi gegn norska ríkinu og Barna- og fjölskylduráðuneytinu var tekið fyrir í héraðsdómi, Oslo tingrett, dagana 3. og 4. maí sl. Lögmannsstofan Advokat Sulland fer með málið fyrir hönd norrænu safnaðanna en vegna heimsfaraldurs og annarra óviðráðanlegra aðstæðna hefur dregist verulega að málið komi fyrir dóm. Því miður var ekki fallist á sjónarmið sænsku, íslensku og finnsku safnaðanna og var Barna- og fjölskyldumálaráðuneytið sýknað af öllum kröfum. Málið var sótt sem gjafsókn að beiðni Sivilombudsmannen, og nú er beðið eftir staðfestingu á því að áframhaldandi gjafsókn fáist til að fara með málið lengra. Kirkjurnar þrjár eru sammála um að áfrýja málinu, að því gefnu að vilyrði sé veitt fyrir gjafsókn, og telja að grundvallarspurningum í málinu sé enn ósvarað.