fbpx

Ólafía Jóhannsdóttir

Nú er hafin Ólafíuvika með spennandi og margvíslegum viðburðum sem vonandi höfða til sem flestra. Sem dæmi má nefna sunnudagaskóla og söngnámskeið fyrir börn sem fóru fram um liðna helgi og framundan eru handavinnukvöld, karlaganga og tónleikar með söngflokknum Laffí, þar sem þau flytja sálumessuna, Requiem eftir Fauré.

Við ljúkum svo vikunni á Ólafíumessu og fjáröflunarkaffi á eftir í sænsku Margaretakirkjunni, en Ólafía sem Ólafíuvikan er kennd við, átti lifandi trú á Jesú Krist sem leiddi hana í starfi meðal ógæfukvenna á strætum Óslóar. Hún fann kraft til þeirra starfa í trú sinni, von og trausti á frelsarann og hún er sterk fyrirmynd og veitir okkur innblástur í þeim efnum.

Við höfum lagt okkur fram við að heiðra minningu þessarar merkiskonu með því að benda á störf hennar og baráttuanda til góðra verka og árið 2009 var stofnaður hjálparsjóður í hennar nafni, Ólafíusjóður sem er styrktarsjóður Íslendinga sem búsettir eru í Noregi.  

Einnig má nefna að skrifstofan okkar og safnaðarheimili, Ólafíustofa er nefnd í höfuðið á henni og Ólafíurósin er teiknuð upp eftir hálsmeni sem Ólafía bar við hátíðleg tækifæri. Rós þessi er tákn okkar og hana er að finna á stólu, höklum og á lógói.  

En hver er þessi Ólafía – eða Laffí eins og hún var gjarnan kölluð? Hún er stundum kölluð móðir Teresa norðursins þessi smávaxna, vinnusama og látlausa kona.

Ólafía Jóhannsdóttir fæddist árið 1864, þann 22. október, að Mosfelli í Mosfellsdal. Hún ólst upp hjá Þorbjörgu móðursystur sinni og ljósmóður í Reykjavík, við frjálsræði og tiltrú á sjálfri sér, og kannski þá sterku sannfæringu á að hlutirnir geti orðið betri. Hún barðist frá unga aldri fyrir sjálfstæði, sínu eigin  sjálfstæði, fyrir sjálfstæði landsins  og síðast en ekki síst fyrir barðist hún fyrir sjálfstæði og sjálfræði kvenna, og leitaði allra leiða til að bæta lífsgæði þeirra. Á okkar dögum er hennar fyrst og fremst minnst fyrir það óeigingjarna starf sem hún vann hér í Osló á meðal ógæfufólks og þá aðallega meðal kvenna í fátækt, vændi og neyslu.

Það stórkostlega starf, sem gerir hana svo sannarlega að engli í mannsmynd, að alvöru dýrlingi – spannar síðasta hluta ævi hennar en saga Ólafíu er óvenjuleg allt frá byrjun.

Hún fór snemma ótroðnar slóðir, og þó hún hafi ekki lokið formlegri skólagöngu þá skrifaði hún fjölmargar greinar um þau málefni sem brunnu á henni, ritstýrði tímaritum, var virk í kvennréttindabaráttunni á Íslandi, beitti sér fyrir stofnun Háskóla Íslands, og vildi koma á stofn menntastofnun fyrir konur á Íslandi.  Hún kynntist Hvítabandinu á ferðum sínum erlendis og stofnaði hvítabandið á Íslandi og var fyrsti formaður þess. Hún var svo mælsk og mikill ræðusnillingur sem hreif alla með sér þegar hún talaði að hún varð fljótt eftirsóttur fyrirlesari fyrir Hvítabandið, m.a. í Bandaríkjunum og Kanada, og var ráðin til starfa á Bretlandi.

Ekki nóg með það heldur var Ólafía líka fyrst íslenskra kvenna til að skrifa sjálfsæviminningar sínar (Frá myrkri til ljóss) og gaf út bókina Daglegt ljós á eigin kostnað til að styrkja trú samlanda sinna. Auk þess skrifaði hún bókina Aumastar allra, De ulykkeligste, sem er einstakt bókmenntaverk sem lýsir reynsluheimi kvenna – en ekki þeirra sem voru fínar fyrirmyndakonur, heldur ljær Ólafía þeim útskúfuðu rödd, og segir frá andlegum, líkamlegum og félagslegum þjáningum þeirra á kærleiksríkan og heiðarlegan hátt.

Árið 1903 tók Ólafía arf eftir Þorbjörgu fóstru sína, og seldi þá allar eigurnar og hélt til Noregs. Hún varð veik á þessum tíma og varð fyrir sterkri trúarlegri reynslu sem hún lýsir í sjálfsæviminningum sínum, en fann að hún gat hvílt í trúnni. Hún seldi smám saman allt verðmætt sem hún átti til að geta hjálpað öðrum, bjó sjálf við eins þröngan kost og hún gat til að geta gefið öðrum meira. Hún tók konur inn á heimili sitt og hlúði að þeim, fyrst í lítilli kytru í Smalgangen 4 og safnaði svo fé ásamt fleiri konum í Hvítabandinu til að geta komið á fót heimili fyrir nauðstaddar konur. Fyrst var það til húsa í Langgaten þar sem Ólafía veitti heimilinu forstöðu meðan heilsan leyfði en seinna flutti það í stærra húsnæði á Sagveien við Akerselva. Ólafía lést 21. júni árið 1924 á Menighetssøsterhjemmet í Osló.

Saga Ólafíu er lítið þekkt á Íslandi en í Noregi er hennar minnst sem mikilvægs brautryðjenda í bættum kjörum fyrir þá sem standa hvað verst.  Í Osló er gata nefnd eftir henni, Olafia gangen, kynsjúkdómadeild háskólasjúkrahússins heitir Olafiaklinikken og í Vaterlandsparken, á því svæði sem hún starfaði stendur styttan hennar, þar horfir hún yfir þar sem enn er nóg verk að vinna í þágu þeirra sem minnst mega sín í okkar samfélagi í dag.

Náunga kærleikur Ólafíu var ekki orðin tóm heldur sýndi hún kærleika með lífi sínu öllu og verkum. Megi það verða okkur öllum hvatning til að huga að hvert öðru og huga að þeim sem ekkert eiga.

Guð blessi minningu Ólafíu Jóhannsdóttur.

Miðvikudagsbænin að þessu sinni er textabrot úr dagbókum Ólafíu en þennan texta má einnig finna þrykktan á glugga við skrifstofu í Ólafíustofu.

Játning Ólafíu

 Og hann lét lífsins ljós skína inn í dauðþreytta meðvitund mín,

gaf mér hið fólgna manna að eta,

sagði við mig, eins og hann einn getur sagt:

„Ég mun alls ekki sleppa þér og eigi heldur yfirgefa þig.“

– Á þeim stundum skildist mér að það var ekki ég,

sem hélt í hann, heldur hann, sem hélt í mig.

Þá reyndi ég, að þótt móðir geti gleymt barni sínu,

þá gleymir hann ekki smælingjum sínum.

Textabrot þetta er að finna í ævisögu Ólafíu Jóhannsdóttur eftir Dr. Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur sem kom út í Reykjavík árið 2006.