fbpx

Sumardagurinn fyrsti

Sumardagurinn fyrsti, sem einnig er nefndur Yngismeyjardagur og þeim helgaður, er fyrsti dagur Hörpu, fyrsta mánaðar og upphaf sumarmisseris Íslenska misseristalsins.

Hann ber líkt og hörpu ætíð upp fyrsta fimmtudag eftir 18. apríl á tímabilinu frá 19.-25. apríl.

Sumardagurinn fyrsti var lengi messudagur í kaþólskri tíð hérlendis og lengur eða allt til 1744 þótt komið væri fram yfir Siðaskipti. Var hann það hvergi annarstaðar en hér á landi svo Danakonungur bannaði slíkt þótt landsmenn hafi haldið áfram að halda upp á daginn og sumarkomuna.

Hann var gerður að almennum frídegi árið 1971 og er einnig opinber fánadagur.

 

Hátíðir í sumarbyrjun eru líklega mjög gamlar þótt ekki séu margar öruggar heimildir til um þær. Getið er um sumarblót í fornsögunum en fyrsta

örugga heimildin sést í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá miðri 18.öld, þar sem talað er um sumarhátíð og sumargjafir.

Um miðja 19. öld þegar farið var að safna alþýðu heimildum kom fram að sumardagurinn fyrsti hafi verið mesta hátíð næst á eftir jólum.

Sumargjafir hafa tíðkast lengi því vitað er að þær tíðkuðust að minnsta kosti fjórum öldum áður en jólagjafir komu til sögunnar en jólagjafir eru ekki svo ýkja gamall siður ólíkt því sem margir halda.

Sumargjafir tíðkuðust langt fram eftir 20.öld og ennþá eimir eftir af þessum sið þó innihald gjafanna hafi nokkuð breyst og þá oftast aðeins ein gjöf sem tengist sumrinu og útileik. Margir gefa börnum eða barnabörnum ennþá sumargjafir og spurning hvort, að í velmegunarþjóðfélagi og eftir tíma heimsfaraldurs, það sé tíminn sem sé dýrmætasta gjöfin sem við getum gefið.

Samkvæmt íslenskri þjóðtrú boðar það gott frjósi sumar og vetur saman og með því átt við að hiti fari niður fyrir frostmark aðfararnótt sumardagsins fyrsta.

Í Sögu daganna – hátíðir og merkisdagar ( bls, 50, 2.útg.,1977) eftir Árna Björnsson, þjóðháttarfræðing, segir um sumardaginn fyrsta:

Hvarvetna var fylgst með því, hvort frost væri aðfararnótt sumardagsins fyrsta, þ.e. hvort saman frysti sumar og vetur. Yfirleitt var það talið góðs viti og jafnvel álitið að rjóminn ofan á mjólkurtrogunum yrði jafn þykkur og ísskánin á vatninu þessa nótt. Í því skyni settu menn skál eða skel með vatni út um kvöldið og vitjuðu svo eldsnemma morguns.

 

Sumardagurinn fyrsti í einhverri mótsögn við nafnið þýðir ekki endilega að sumarblíðan sé komin, en það má þó alltaf vona og það skortir víst lítið bjartsýni Íslendinga hvað það varðar 😊

 

Og með tónum Hjörleifs Valssonar fiðluleikara og Líttu sérhvert sólarlag eftir Braga Valdimar Skúlagson, óskum við ykkur Gleðilegs sumars!

 

Heimild Árni Björnsson; Saga daganna -hátiðir og merkisdagar.