fbpx

Dagskráin framundan

Á dögunum flutti Erna Kristín fyrir okkur tvo fantagóða fyrirlestra um jákvæða líkamsímynd við góðar undirtektir. Og það má með sanni segja að hún hafi opnað augu margra og minnt okkur á við erum kannski flest bara aldeilis ágæt eins og við erum.

Þá hefur Herdís Pálmadóttir verið að leiða okkur síðustu mánudagskvöld til móts við okkur sjálf og samskiptin í lífi okkar undir yfirskriftinn Betri samskipti – betra samband. Hún fjallaði um það hvernig við getum alltaf orðið aðeins betri í að þekkja okkur sjálf, þykja vænt um okkur sjálf og vera betri í að bregðast við okkar eigin tilfinningum sem og tilfinningum annarra.

Fleiri fyrirlestrar á þessum nótum hafa verið að falla í góðan jarðveg og því erum við hvergi af baki dottin í þessum málum. Hvort sem það eru tímarnir sem við erum að lifa, þar sem margir eru meira með sjálfum sér, hæglætið sem fylgir þessu tímum eða þroski og vitundarvakning sem á sér stað að þá virðist áhugi á þessum málum vera til staðar og við vonum svo sannarlega að þið eigið eftir að njóta þeirra fyrirlestra sem framundan eru.

Næsti fyrirlestur er strax annað kvöld og miðað við skráningu að þá verður hann að öllum líkindum mjög vel sóttur. Það er Aðalheiður Sigurðardóttir sem flytur fyrirlesturinn «Hvernig get ég hjálpað barninum mínu?» Aðalheiður er þaulreynd sem fyrirlesari og tengslaráðgjafi og hefur áralanga og persónulega reynslu af margskonar áskorunum.

4.maí kemur svo Sabína Steinunn Halldórsdóttir frá Færni til framtíðar sem sérhæfir sig í hreyfifærni barna með áherslu á útiveru og náttúruna. Í fyrirlestrinum «Að sá fræjunum» fer Sabína yfir það hvernig við getum örvað hreyfinám og haft jákvæð áhrif á skynþroska barna með aðstoð náttúrunnar.

20. maí verður Valdimar Þór Svavarsson með okkur og talar um meðvirkni og hlutverk í vanvirkum fjölskylduaðstæðum. Hann tekur sérstaklega fyrir tengslin á milli meðvirkni og áfalla í samskiptum og þekktra hlutverka sem þróast í slíkum aðstæðum í uppvekstinum, hlutverk sem geta fylgt okkur alla ævi ef ekkert er að gert.

Sjá má dagskrána framundan hér en við hvetjum ykkur til að fylgjast vel með hér á Facebook þar sem við auglýsum alla viðburði sérstaklega með nánari upplýsingum.