fbpx

Fyrirlestur og flipp

Hún var full af fræðslu og hlýju kvöldstundin sem við áttum síðastliðinn fimmtudag með Guðna Má Harðarsyni, þar sem hann flutti okkur fyrirlestur og fróðleiksmola um uppeldi, áföll og úrvinnslu.

Guðni er vel tengdur efninu, með lifandi og persónulega nálgun og höfðu einhverjir á orði að þau hefðu getað setið og hlustað klukkutíma lengur.

Á sunnudaginn prufukeyrðum við svo fjölskylduflipp sem var mjög hressandi og skemmtilegt og kveikti keppnisskapið í einhverjum svo það verður klárlega endurtekið. Við spiluðum meðal annars Kahoot, og fórum í teikni- og orðaleiki á íslensku sem getur einmitt verið góður hvati fyrir smá og stóra til þess að skerpa á notkun á okkar ástkæra ylhýra. Síðast en ekki síst gátu börn og fullorðnir átt góð samskipti og spjall.

Við þökkum öllum kærlega fyrir komuna.

Framundan hjá okkur í vikunni eru svo fyrirlestur um íslenskar draugasögur sem fylltur er húmor og léttleika, Morgunkaffi og ungmennahittingur á föstudaginn og Loftslagspílagrímar /Helgistund á sunnudaginn. Fylgist endilega með hér á heimasíðunni og á Facebook.