Öskudagur er upphafsdagur lönguföstu, miðvikudagurinn í 7. viku fyrir páska.
Öskudagur hefur lengi verið mikilvægur í katólska kirkjuárinu og er nafn hans dregið af því að þá er sums staðar ösku dreift yfir höfuð kirkjugesta, og jafnvel með til þess gerðum vendi. Líklegt má telja að sá siður að börn flengi fullorðna með vendi á bolludag sé ættaður héðan. Annars staðar þekkist að ösku sé smurt á enni kirkjugesta.
Eins og lesa má á mörgum stöðum í Biblíunni, táknar aska hið forgengilega og óverðuga en auk þess hefur hún verið talin búa yfir heilnæmum og hreinsandi krafti. Langafasta er hinn kirkjulegi tími iðrunar og dreifing ösku yfir söfnuðinn á að minna hann á forgengileikann og hreinsa um leið af syndum.
Nafnið öskudagur kemur fyrir í íslenskum handritum frá 14. öld en gæti þó verið eldra. Þar gegnir dagurinn sama hlutverki og í öðrum katólskum sið í Evrópu, sem dagur iðrunar.
Langafasta átti að vera tími íhugunar og góðrar breytni, auk föstunnar að sjálfsögðu, sem á Íslandi snérist um að sleppa kjötafurðum og stundum jafnvel mjólk og fiskmeti.
Þótt hátíðleiki öskudagsins hafi verið hverfandi eftir siðbreytinguna hélt fólk áfram að gera sér glaðan dag síðustu dagana fyrir lönguföstu og þróuðust ýmsir siðir kringum bolludag, sprengidag og öskudag hér á landi. Siður bolludags og öskudags virðast þó hafa skipt um víxlað hlutverkum.
Seint á 19.öld var mánudagurinn í 7. viku fyrir páska hefðbundinn frídagur í skólum og algengt víða að börn „marséruðu“ í grímubúningum og komu saman til að slá köttinn úr tunnunni. Þeir siðir hafa væntanlega borist frá Danmörku eða Noregi. Árið 1917 hafði frídagurinn verið færður yfir á öskudaginn víðast hvar á landinu og siðirnir fluttust með. Á 20.öld datt sá siður að „marséra“ og slá köttinn úr tunnunni, víðast hvar upp fyrir en Akureyringar hafa haldið fast í hann og siðurinn síðar breiðst út þaðan á ný.
Sú hefð að hengja öskupoka á fólk er venja sem ekki finnst annars staðar en á Íslandi. Kannski má rekja upphaf þess til katólskunnar og krafts öskunnar sem gjarnan var mögnuð með heilögu vatni. Sóttu menn í að taka ösku og hennar hreinsunarmátt með sér heim úr kirkjum til að blessa hús og hýbíli. Þessi pokasiður þekkist á Íslandi allt frá miðri 18. öld, og mögulega enn eldri. Pokasiðurinn skiptist lengi vel í tvennt eftir kynjum: konur hengdu öskupoka á karla en karlar poka með steinum á konur, en aðalatriðið var að koma pokunum fyrir án þess a fórnarlambið tæki eftir því.
Snemma á 20. öld þróaðist öskupokasiðurinn í þá átt að verða ástajátning. Ungar stúlkur sendu ungum piltum sem þeim leist vel á poka til að gefa áhuga sinn til kynna.
Spurning er svo hvort sú staðreynd að ekki er lengur hægt að beygja títurprjóna hafi orðið til þessa að þessi hefð hefur nánast horfið.