fbpx

Sprengidagur

Saltkjöt og baunir, túkall!

Sprengidagur er þriðjudagurinn í Föstuinngangi fyrir Lönguföstu sem hefst á Öskudag í 7. viku fyrir Páska.

Í árbók Ferðafélagsins eftir Árna Björnsson er að finna eftirfarandi um heiti sprengidags

Elsta heimild um hið íslenska heiti dagsins tengist átveislu fyrir föstuna og er að finna í íslensk-latnesku orðasafni Jóns Ólafssonar Grunnvíkings frá því um 1735. Þar segir hann Sprengikvöld þýða orðrétt kvöld sprengingar, eða kvöld miklifenglegrar átveislu með allskonar meðlæti en nefnir einnig að þetta sé sveitamál.

Jón Sigursson forseti reyndi að koma heitinu hvíti Týsdagur inn í málið árið 1853 í Íslandsalmanakinu, en það virðist aðeins einu sinni hafa komist á bók í Lagasafni handa alþýðu 1906.

Líklega hefur Jón og fleiri talið að hér væri um að ræða gamalt og gleymt íslenskt orð, en svipuð nöfn er að finna í norrænum málum svo sem; Hvitetirsdag, Kvitetysdag, feitetysdag og grautetydag. Orðsifjafræðingar hafa talið þá nafngift dregna af þeim sið að borða hvitt á þeim degi, aðallega hveitibollur í soðinni mjólk.

Víða um hinn kristna heim er haldið upp á þennan dag og hann oft nefndur Mardi gras sem er Franska og þýðir Feiti þriðjudagur.

Öll vísa þessi nöfn í eitthvað matarkyns, enda var þetta var síðasti dagurinn á kaþólskum tíma sem borða mátti kjöt fyrir lönguföstu. Ef hart var í ári vegna stríðs eða veðráttu voru stundum fleiri matartegundir bannaðar, svo sem egg, smjör, korn, og jafnvel fiskur. Hversu löng og ströng fastan var, 7-9 vikur var breytileg milli ára og var föstutilskipunum beitt sem einskonar hagstjórnartæki líku því sem seðlabankar og efnahagsstofanir annast nú á dögum, þótt útskýringin væri oftast tengd trúnni.

Nafngift dagsins sprengidagur verður að teljast frekar sérstök og ber keim af þjóðskýringu. Ekkert svipað nafn á þriðjudegi í föstuinngangi er að finna í nálægum málum. Í þýsku er hinsvegar að finna orðið Sprengtag og fleirtalan Sprengetage um þá merkisdaga kaþólsku kirkjunnar þegar vígðu vatni var stökkt yfir söfnuð, matvæli og jafnvel hús, híbýli, kvikfénað og akra. Sögnin Sprengen þýðir m.a. að stökkva (vígðu vatni ) og Sprengel er það sem á íslensku nefnist stökkull. Þá skyldi maður vera prestinum til aðstoðar við vatnsdreifinguna, eða eins og segir í ritgerð Odds biskups Einarssonar um gömlu siðina frá 1593:

,,En þá hann dreifði vígðu vatni á fólkið, fór hann svo að, að hann vígði vatnið fyrir embætti hvern sunnudag, og gekk síðan fram í kirkju, og hafði svo kýrhala lítinn, í kross lagðan, í skapti, og gekk djákninn eptir honum með vatnspottinn, en prestur stökkti á allt fólkið aptur og fram og las þetta úr Davíðs psaltara: «aspergis me Domine hysopo» -síðan tók hann til embættis.»

Því verður ekki neitað að, þýska orðið sprengtag er líkt orðinu sprengidagur og sú tilgáta verið lögð fram að orðið hafi borist hingað frá Þýskalandi með Hansakaupmönnum undir lok miðalda, eða jafnvel í gegnum norskuna. Við siðbreytinguna á 16.öld var sá siður, að stökkva vígðu vatni á menn bannaður en orðið hugsanlega geymst áfram og fest við föstuinnganginn sem líklegt er að verið hafi einn þeirra tíma , þegar vígt vatn var hvað mest um hönd haft. Löngu seinna býr þjóðin sér svo til þá skýringu á þessu framandlega orði, að á þriðjudaginn í föstuinngang hafi mönnum í kaþólskum sið hætt við að éta sig í spreng. Í Noregi hefur orðið hinsvegar fest við laugardaginn fyrir páska, sem einmitt var mikill «sprengidagur» í kaþólskum sið.

Mardi Gras
Mardi Gras
Saltkjöt og baunir