Bolludagur er mánudagurinn í föstuinngangi, 7 vikum fyrir páska, en föstuinngangur kallast síðustu þrír dagarnir fyrir lönguföstu, sem hefst á miðvikudegi með öskudegi.
Algengt var í kaþólskum sið að fastað væri á kjöt dagana tvo fyrir lönguföstu og var það boðið í þjóðveldislögunum. Önnur merki um siði tengda þessum degi er ekki að finna fyrr en á 19. öld. Í Sturlungu og biskupasögum er talað um „að fasta við hvítan mat“ (mjólkurmat) í föstuinngang. Líklegt er að menn hafi nýtt sér þessa daga fyrir langt föstutímabil til að gæða sér á ýmsu góðgæti, ekki síst brauðmeti.
Rík hefð er fyrir því að föndraðir séu bolluvendir, oftast úr litríkum pappírsræmum sem límdar eru á prik. Börn flengja svo foreldra sína með eða forráðamenn með vendinum og hrópa: „Bolla! Bolla! Bolla!“.
Sá siður að vekja menn með flengingum á bolludaginn er talinn hafa borist til Danmerkur frá mótmælendasvæðunum í norðanverðu Þýskalandi og síðan til Íslands með dönskum kaupmönnum á 19. öld. Í upphafi taldist flenging ekki gild nema flengjarinn væri alveg klæddur og fórnarlambið óklætt, og því ekki óalgengt að börn vöknuðu snemma til að geta „bollað“ foreldra sína í rúminu. Sá sem er flengdur getur losnað undan þjáningunum með því að gefa bollu í staðinn, og fyrir hvert högg átti barnið að fá eina bollu.