fbpx

Jóladagatal 23.desember

Í glugga 23 er söngdívan Guðbjörg Magnúsdóttir sem syngur svo ljúft á jólatónleikum safnaðarins 27.desember.

Guðbjörg hefur starfað sem söngkona á Íslandi allt frá árinu 1997 eftir að hún fluttist heim frá Þýskalandi.
Guðbjörg hefur sungið í Borgaleikhúsinu og fjölmörgum sýningum á Broadway.

Hún hefur m.a sungið inn á teiknimyndir, sungið í ótal hjónavígslum, árshátíðum, tekið þátt í Söngvakeppni Sjónvarpsins, bæði á Íslandi og í stóru keppninni í Svíþjóð árið 2000.

Guðbjörg hefur bæði lokið einsöngvaranámi og kennaranámi frá The Complete Vocal Institut í Kaupmannahöfn og starfar sem söngkennari/vocal coach hér í Noregi. Guðbjörg starfaði einnig sem söngkennari hjá Söngskóla Maríu Bjarkar í mörg ár og gaf út geisladiskinn Vindurinn Veit árið 2012.

Hér kemur lítil jólaminning frá Guðbjörgu.
Aðfangadagur úr æsku
Þegar líða tekur að jólum þá reikar hugurinn oft til baka og góðar minningar ylja mér um hjartarætur.

Alveg frá því ég man eftir mér þá fórum við systkinin alltaf í leiðangur á aðfangadag með pabba á meðan mamma stóð vaktina í eldhúsinu og eldaði jólamatinn, besta mat í heimi auðvitað. Kærleikurinn leyndi sér ekki í matnum hennar mömmu.

Í þessum leiðangri heimsóttum við bæði náskylda og fjarskylda ættingja sem bjuggu sumir hverjir einir og færðum við þeim lítinn glaðning með nærveru okkar.

Þetta kunnum við ekki alltaf að meta sem börn, en með árunum og sérstaklega síðar meir var þetta okkur mikilvæg lexía. Jólin eiga auðvitað að snúast um að gleðja og gefa. Þarna sáum við líka að fólk er allskonar, við erum jú allskonar.

Inn á milli heimsókna keyrðum við pakka til fjölskyldu og vina og heimsóttum einnig kirkjugarðinn og fórum með fallegar greinar á leiði látinna ættingja og minntumst þeirra.

Þegar við komum svo heim seinnipartinn fóru allir í sparifötin og á slaginu 18:00 féllumst við í faðma og hrópuðum gleðileg jól!

Þá voru jólin sko rétt að byrja hjá okkur litla fólkinu, við skófluðum í okkur fína jólamatnum eins fljótt og mögulegt var til að flýta fyrir því að geta opnað pakka.
Já ég er lánsöm að hafa átt yndislega æsku og góðar minningar sem ég verð ævinlega þakklát fyrir.
Knús og kærleikur,
Guðbjörg