
Í glugga 21 er Gróa Hreinsdóttir organisti, kórstjóri og rútubílstjóri. Gróa er ein af þríeykinu sem spilar á jólatónleikum safnaðarins sem fara í loftið 27.desember og spilar þar af sinni einstöku snilld á flygill
Gróa Hreinsdóttir er menntaður píanókennari frá Tónlistarskóla Reykjavíkur og hefur starfað við tónlist allt sitt líf. Kórastarf og kirkjutónlist hafa verið aðalstarf hennar síðustu áratugi, en hún starfar í dag sem organisti við tvær kirkjur í Drammen; Tangen og Strømsø, og starfaði áður sem slík á Íslandi. Gróa var formaður félags íslenskra kórstjóra um tíma og hefur stýrt fjölda kóra á Íslandi og stýrir í dag tveimur kvennakórum í Noregi. Hún hefur spilað í danshljómsveit og er einn forsprakka tónleikanna Jól í Ósló sem haldnir hafa verið við góðar undirtektir Íslendinga í Noregi.
Við báðum hana um að senda okkur góða jólaminningu og textinn hér að neðan er jólakveðja frá Gróu og það sem kom upp í hugann.
Úr æsku er mér afar minnisstætt að mamma saumaði á okkur systkinin ný
náttföt fyrir jólin. Man meira eftir þeim heldur en að hafa fengið
jólakjól – sem ég hef alveg örugglega fengið á hverjum jólum.
Svo er minningin um að fara með jólakort í hús og finna eplalyktina
koma á móti okkur þegar hurðin opnaðist.
Ein minning er að þegar ég var um það bil 9 ára að afi var niðri í
þvottahúsi að reita fiður af fuglum …. sennilegt þykir mér að það
hafi verið rjúpur, en ég er ekki viss. Þetta þótti mér pínu ógeðslegt
en ég man ekkert hvort ég borðaði nokkurn tímann rjúpur.
Mamma var æðislega flink að búa til matarveislur og alltaf á
gamlárskvöld eftir að við fluttum í „nýja húsið“ um 1967 var opið hús
hjá okkur um miðnætti á gamlárskvöld og bæði ættingjar og vinir komu í
miðnæturveislu.