Í glugga 20 er uppskrift að hnoðaðri brúnni lagtertu, þessi er krydduð og kósý á jólunum. Það eiga líklega margir uppskrift að slíkri tertu og uppskriftirnar oft gengið á milli manna í gegnum tíðina.
Þessi kemur einmitt úr vel notaðri uppskriftarbók og þó að hún hafi tekið breytingum eins og verða vill á þá er gaman að eiga þá handrituðu með svona ruski og kuski eins og oft fylgir þessum uppskriftarbókum. En hér kemur ein útgáfa af þeirri brúnu og svo er bara að finna sína sérvisku.
Brún lagterta
1 kg hveiti
500 gr sýróp
250 gr sykur
250 gr smjör
5 tsk engifer
1 tsk negull
1 tsk kanill
2 tsk matarsódi
2 stk egg
Þurrefnum er blandað saman og svo er smjöri og eggjum bætt út í smátt og smátt og hnoðað þar til samfellt.
Þá er deiginu skipt í 3 -4 hluta og flatt út á bökunarpappír á plötu. Vel má nota kökukefli til að fletja út og hægt að bæta við smá hveiti ef það klístrast við.
Bakið við 175-180 gráður í um það bil 12 mínútur.
Smjörkrem
400 gr smjör
400 gr flórsykur
2 egg
3 tsk vanilludropar
2-3 msk rjómi
Setjið smjör, flórsykur, egg og vanilludropa í hrærivélaskálina og þeytið saman á miðlungshraða í 10 mínútur. Bætið þá rjómanum út í og þeytið áfram í 2 mínútur.
Smyrjið kremi á fyrsta botninn og leggið svo næsta botn ofan á og endurtakið.
Gott er að leyfa kökunni að standa yfir nótt eða í nokkra klukkutíma til þess að leyfa henni að taka sig. Hafið hana undir plasti.
Skerið svo í hæfilega stóra bita og frystið.
Njótið vel.