Gluggi 18 og við fáum ljúfa jólakveðju frá tónlistarfólkinu Gróu Hreinsdóttur og Hjörleifi Valssyni sem söfnuðurinn hefur undanfarin ár notið góðs af samstarfi við.
Þau flytja hér lagið Hin fyrstu jól eftir Ingibjörgu Þorbergs.
Lagið samdi hún árið 1954 við texta Kristjáns frá Djúpalæk eftir beiðni frá Tage Ammendrup, sem margir kannast við úr íslenska Ríkissjónvarpinu, en honum fannst þá eitthvað lítið til af íslensku jólalögum.
Hin fyrstu jól
Það dimmir og hljóðnar í Davíðsborg,
í dvala sig strætin þagga.
Í bæn hlýtur svölun brotleg sál
frá brunni himneskra dagga.
Öll jörðin er sveipuð jólasnjó
og jatan er ungbarns vagga.
Og stjarnan skín gegnum skýjahjúp
með skærum, lýsandi bjarma,
og inn í fjárhúsið birtan berst,
og barnið réttir út arma,
en móðirin sælasti svanni heims,
hún sefur með bros um hvarma.
Og hjarðmaður birtist, um húsið allt
ber höfga reykelsis-angan,
í huga flytur hann himni þökk
og hjalar við reifarstrangann,
svo gerir hann krossmark, krýpur fram
og kyssir barnið á vangann.