fbpx

Jóladagatal 14.desember

Gluggi 14… og tíminn virðist líða hraðar með hverjum degi.
Hvað er þá betra en að staldra við og lesa stutta jólasögu.
Við fengum senda þessa skemmtilegu sögu og textann sem henni fylgir frá Helga Haraldssyni, en hann ásamt konu sinni Dinu hefur verið fastagestur Gæðastunda í Ólafíustofu.
Gæðastundir er skemmtilegur hópur fólks sem hittist, í venjulegu árferði einu sinni í mánuði, í Ólafíustofu og spjallar og hefur gaman. Nýverið var einnig komið á fót Gæðastunda hóp í Sandefjord.
Helgi hefur verið duglegur við að lýsa upp dagana okkar með því að senda okkur fallegar myndir og annað skemmtiefni í tölvupósti undanfarið og því fannst okkur tilvalið að biðja hann um efni í jóladagatalið. Við látum nokkra myndir og tengla frá Helga fylgja með.
-Berglind, Inga, Pálína og Rebekka
Endur fyrir langalöngu (líklega 1973) snaraði ég stuttri jólasögu eftir einn af mínum uppáhaldshöfundum, Karel Čapek – hann sem skrifaði m.a. Salamöndrustríðið, Hvítu veikina o.m.a.
Apókrýfur Karels Čapeks eru eitt af mörgum meistarastykkjum þessa tékkneska rithöfundar. Þær eru safn af örstuttum svipmyndum úr sögu mannkynsins frá upphafi vega og fram eftir öldum. Hér túlkar hann á sinn hátt, oft ærið nýstárlega, sögulega atburði, stóra og litla. Undiralda frásagnarinnar er alls staðar hin sama: nærfærin mannúð og samhygð, en jafnframt napurt háð gagnvart valdasýki, yfirgangi, fordómum og öðrum svarthöfðaskap.
Snjallasti þátturinn er að mínum dómi „Dauði Arkimedesar“ sem mun hafa verið þýddur á íslensku.
En hér kemur jólasaga.
Karel Čapek.
Nóttin helga.
„Ég skil ekkert í þér maður“, hrópaði frú Dinah. Ef þetta væru skikkanlegar manneskjur, mundu þær leita á náðir oddvitans i staðinn fyrir að setjast upp hér! Af hverju tók ekki Símonarfólkið við þeim? Af hverju þurfti það endilega að lenda hjá okkur? Er Símonarfólkinu eitthvað vandara um en okkur? Oho, láttu mig vita það, frúin hans Símonar hefði aldrei tekið í mál að hafa svona rakkarapakk í sínu húsi! Ég er alveg gáttuð á þér maður að leggja lag þitt við svona – ja ég veit svei mér ekki hvað á að kalla þetta!“
„Ekki æpa svona, manneskja“, tuldraði Isachar gamli, „þau gætu heyrt í þér“!“
„Ég held þau megi heyra“, sagði frú Dinah og hækkaði enn róminn. „Ekki nema það þó. Það vantaði nú bara að maður mætti ekki opna munninn í eigin húsi fyrir einhverjum flökkulýð! Veit nokkur deili á þeim? — Konan mín — segir hann! Heyr á endemi! Ætli maður þekki ekki svona pakk! Að þú skulir ekki blygðast þín fyrir að hleypa svona nokkru inn í þín hús!“
Isachar ætlaði að bera því við að hann hefði nú bara hleypt þeim inn í fjárhúsið en sá að sér; honum var annt um heimilisfriðinn.
„Og hún“, hélt frú Dinah áfram full heilagrar vandlætingar, „hún er sko ólétt get ég sagt þér. Jesús minn, það vantaði nú bara að við lentum á milli tannanna á fólki fyrir bragðið. Ég held þú sért ekki með réttu ráði!“
Frú Dinah gerði hlé til að ná andanum.
„Það var sosum auðvitað að þú gætir ekki sett einhverri ungpíu stólinn fyrir dyrnar.Þú bráðnar eins og smér þegar þær gefa þér gotur. Ekki mundir þú gera það fyrir mig, Isachar! Látið þið bara fara vel um ykkur, nógur er hálmurinn í fjárhúsinu — eins og við séum þau einu í Betlehem sem eigum fjárhús! Af hverju lét Símon þau ekki fá fang af hálmi? Af því að það hefði frúin ekki tekið í mál, nefnilega! Það er bara ég sem tek öllu með þögn og þolinmæð›i.“
Isachar gamli sneri sér til veggjar. Kannski fer að sljákka í henni, hugsaði hann; það er dálítið til í því sem hún segir, en að gera svona veður út af einni …
„Hugsa sér, að hleypa bláókunnugu fólki inn í húsið“, sagði frú Dinah í réttlátri reiði. „Hver veit hvers konar skötuhjú þetta eru. Nú kemur manni ekki blundur á brá í alla nótt, en þér er víst sama! Allt fyrir aðra, ekkert fyrir mig! Hvernig væri nú að taka svo sem einu sinni örlítið tillit til konunnar sinnar, langþreyttrar og lasinnar. Ætli ég verði svo ekki að þrífa eftir þau á morgun? Af hverju er þessi maður ekki í vinnu úr því hann segist vera smiður? Af hverju lenda allar hörmungar á mér? Heyrirðu til mín, Isachar!
En Isachar sneri í hana baki og þóttist sofa.
„Heilaga guðs móðir!“, andvarpaði frú Dinah, „er það nú líf! Nú þori ég ekki að loka auga í alla nótt, en hann sefur eins og rotaður selur. Þau gætu stolið ofan af okkur húsinu án þess að hann rumskaði …
Svo varð þögn sem ekkert rauf nema hroturnar í Isachar gamla.
Um miðmætti vaknaði hann við niður bældar stunur. Æ hver fjárinn, hugsaði hann skelfdur, eitthvað á seyði í fjárhúsinu. Bara að Dinah vakni nú ekki …Það yrðu nú ræðuhöld í lagi!
Hann lá grafkyrr og lést sofa.
Eftir smástund heyrðust stuna á ný. Miskunnsami guð, láttu nú ekki kerlinguna vakna, bað Isachar gamli í öngum sínum, en í því fann hann að Dinah rumskaði við hlið hans, reis upp og lagði við hlustirnar. Nú er skrattinn laus, hugsaði Isachar mæðulega og bærði ekki á sér.
Frú Dinah stóð þegjandi upp, kastaði yfir sig sjali og gekk út í húsagarðinn. Það er best að láta hana afskiptalausa hvað sem hún tekur til bragðs …
Leið nú drjúg stund hávaðalaust uns frú Dinah kom hljóðlega aftur. Í svefnrofunum fannst Isachar hann heyra snark í viði en ákvað að láta ekki á sér kræla. Kannski Dinah sé loppin og ætli að orna sér?
Svo læddist Dinah út aftur. Isachar opnaði augun og sá að pottur var á hlóðum fullur af vatni og logaði glatt undir. Hvað skyldi nú standa til? hugsaði hann undrandi, sofnaði strax aftur og vaknaði ekki fyrr en Dina skálmaði einkar ábúðarmikil út með rjúkandi pottinn.
Nú var forvitni Iasachars vakin, hann fór á fætur og girti sig. Ég verð að sjá hva gengur á, sagði hann ákveðinn við sjálfan sig, en í dyrunum rakst hann á konu sína. Hann ætlaði að spyrja hverju þessi fyrirgangur sætti en komst ekki að.
„Hvaða ráp og gláp er þetta á þér manntuska,“ hreytti frúin út úr sér og hljóp út aftur með einhverjar dulur í fanginu. Í gættinni snéri hún sér viðog hrópaði höstug,“Farðu í rúmið, og … vertu ekki að þvælast fyrir hérna, heyrirðu það?“
Isachar gamli rjátlaði út í húsasundið. Við fjárhúsdyrnar sá hann herðabreiða mannpersónu hanga í umkomuleysi og tók stefnuna þangað. „Jæja laxi“, sagði hann kumpánlega, „varstu rekinn út? Svona geta þessar kerlingar látið, Jósef minn …“ Og til að breiða yfir þetta karlmannlega vesaldarástand, leit hann upp í skyndi og benti: „Sjáðu stjörnuna a’tarna! Hefurðu nokkurn tíma séð aðra eins stjörnu?“
-Helgi Haraldsson