fbpx

Jóladagatal 13.desember

Þann 13. desember, á þriðja sunnudegi aðventunnar, skoðar sr Inga Harðardóttir aðventukransinn sem segir jólasöguna með sínum hætti.

Spádómskertið, fyrsta kertið, minnir á að beðið var eftir komu frelsarans frá upphafi vega, að spáð var fyrir um komu friðarhöfðingjans sem myndi leysa heiminn úr myrkri ótta og kærleiksleysis, löngu fyrir fæðingu hans.

Sú þjóð sem í myrkri gengur sér mikið ljós. Yfir þau sem búa í landi náttmyrkranna skín ljós. Því að barn er oss fætt. Sonur er oss gefinn. Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla, hann skal nefndur: Undraráðgjafi, Guðhetja, Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi. (Jes.9.1,5)

Betlehemskertið minnir á að Guð velur að fæðast í heiminn á fábrotnum stað, og að það var ekki rúm fyrir hann í mannabústöðum. Og þó við séum ekki tilbúin að taka á móti Guði þá kemur hann engu að síður til okkar á sinn hógværa og hugmyndaríka hátt.
Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs, að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni sem var þunguð. (Lúk. 2.4-5)
Hirðakertið, sem við kveikjum á í dag, minnir á að hirðarnir, láglaunafólk í næturvinnu úti í myrkri og kulda, fengu fyrst fregnirnar um fæðingu frelsarans og fóru strax að leita að honum og fundu hann.

En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar. Og engill Drottins stóð hjá þeim og dýrð Drottins ljómaði í kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir en engillinn sagði við þá: Verið óhræddir! (Lúk. 2.8-9)

Englakertið minnir á englana, himnesku herskarana, sem sögðu frá barninu í jötunni og sungu um dýrð Guðs í upphæðum og frið á jörðu.
Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra herskara sem lofuðu Guð og sögðu:
Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum. (Lúk. 2.13-14)
Gleðilega aðventu