Gluggi 12 og fyrsti jólasveinninn er komin til byggða. Því kemur hér örlítill fróðleikur um íslensku jólasveinana, aðallega sóttur af vef Þjóðminjasafnins.
Flest okkar ef ekki öll höfum við líklega einhvern tímann trúað á jólasveinana, foreldra þeirra illvættina Grýlu, Leppalúða og sjálfan jólaköttinn.
Það er líkt og í mörgum öðrum löndum trú sem er tengd komu jólanna. Í gamla daga var sú hjátrúin algeng að ef krakkarnir væru óþekkir þá myndi Grýla taka þau með sér upp í fjall og sjóða þau í pottinum sínum, og að jólakötturinn át þau börn sem ekki fengu ný klæði fyrir jólin.
Íslensku jólasveinarnir eru alls óskyldir þeim alþjóðlega rauðklædda Santa Claus sem er kominn af dýrlingnum Nikulási biskupi, verndara barna og sæfarenda í kaþólskum sið. Þeir eru af kyni trölla og voru upphaflega barnafælur. Þeim var líst að þeir væru klofnir upp í háls, með klær fyrir fingrum, kringlótta fætur og engar tær. Þeir voru sagðir illir að eðlisfari og líkastir púkum og lifa mest á blótsyrðum manna og óvönduðum munnsöfnuði. Þeir voru sagðir rógsamir og rángjarnir, einkum á börn. Síðar í nokkurnvegin mannsmynd en stórir, ljótir og luralegir.
Fyrsta ritaða heimildin þar sem minnst er á jólasveinana er frá 17. öld en það er Grýlukvæði séra Stefáns Ólafssonar frá Vallanesi.
Börnin eiga þau bæði saman
brjósthörð og þrá,
af þeim eru jólasveinar,
börn þekkja þá.
Af þeim eru jólasveinar
jötnar á hæð,
öll er þessi illskuþjóðin
ungbörnum skæð.
Flest börn myndu sjálfsagt vilja forðast þá jólasveina sem hér er minnst á enda var það svo að jólasveinarnir voru upphaflega, líkt og Grýla og Leppalúði eru enn, barnafælur sem foreldrar notuðu til að hræða börn sín til hlýðni. Yfirvöldum hefur greinilega ekki litist á blikuna vegna þess að með Húsagatilskipun frá árinu 1746 var tekið fram að bannað væri að hræða börn með óvættum á borð við jólasveinana. Hvort sem það var Húsagatilskipuninni fyrir að þakka eða einhverju öðru tóku jólasveinarnir að mildast með árunum og hættu að vera börnum lífshættulegir, þó þeir væru enn hrekkjóttir þjófar.
Þegar líða tók á 20. öldina urðu hinir íslensku jólasveinar fyrir miklum áhrifum frá erlendum starfsbræðrum sínum og fóru að klæða sig upp í rauð spariföt í líkingu við þau sem sjást á hinum alþjóðlega Santa Claus og dönskum jólanissum. Þá fóru þeir einnig að vera góðir við börn og gefa þeim gjafir í skó.
Þeir hafa þó alltaf haldið í séríslensk einkenni sín á borð við nöfnin, búsetuna í fjöllunum og fjöldann. Reyndar var það um tíma nokkuð á reiki hversu margir íslensku jólasveinarnir væru og hver væru þeirra réttu nöfn
Hvað fjölda jólasveinanna varðar hafa menn nú sammælst um að þeir séu þrettán en eins og kemur fram í kvæðinu „Jólasveinar einn og átta“ voru einnig uppi hugmyndir um að þeir væru ekki nema níu. Litið hefur verið á það sem svo að áður en þessi mál voru bókfest hafi það verið mismunandi eftir svæðum hversu margir jólasveinarnir voru og hvaða nöfn þeir báru.
Má þar nefna nöfn eins og Pönnuskuggi, Guttormur, Bandaleysir, Lampaskuggi, Klettaskora, Bitahængir, Froðusleikir og Syrjusleikir.
Það var þá ekki síst fyrir tilstilli kvæðis Jóhannesar úr Kötlum um jólasveinana sem birtist í bókinni Jólin koma árið 1932, og Eyjólfur Magnússon las svo skemmtilega fyrir okkur í glugga 1, að fjöldi þeirra og nöfnin urðu almennt þekkt en þar eru hinir þrettán jólasveinar sem við þekkjum í dag allir nefndir til leiks.
Fyrir þá sem hafa gaman af því að sjá gömlu íslensku jólasveinana að þá heimsækja þeir Þjóðminjasafnið, einn á dag, síðustu þrettán dagana fyrir jól á slaginu kl. 11 frá og með 12.desember og er viðburðinum er streymt frá YouTube rás safnsins.