fbpx

Jóladagatal 11.desember

Í glugga 11 er ekki annað hægt en að minnast á það að skórnir fara út í glugga í kvöld. Og okkur fannst tilvalið að deila með ykkur þessum texta af vefsíðu þjóðminjasafnins um þennan sið.
Skór úti í glugga
Aðfaranótt 12. desember er siður íslenskra barna að setja skó sinn út í glugga því þá er von á jólasveininum Stekkjarstaur til byggða. Í gluggakistunni fær skórinn að vera fram að jólum og vonast börnin eftir því að jólasveinarnir, sem koma hver á fætur öðrum til byggða síðustu næturnar fyrir jól, gefi þeim eitthvert smáræði í skóinn.
Börnin þurfa þó að vinna fyrir þessum litlu smágjöfum og þurfa að vera stillt og prúð, annars eiga þau það á hættu að fá kartöflu í skóinn. Þó nú sé þessi siður í nokkuð föstum skorðum hér á landi hefur það ekki alltaf verið svo og í upphafi var mikill hringlandaháttur á því hversu marga daga fyrir jól gjafir kæmu í skó og hversu mikið væri sett í hvert skipti.
Ástæðan fyrir þessu misræmi er sjálfsagt sú að þegar siðurinn barst hingað til lands fyrst tíðkaðist hann aðeins innan mjög afmarkaðra hópa. Þeir sem kynntust siðnum fyrst hér á landi voru íslenskir sjómenn sem sigldu um Norðursjó en í Hollandi og á fleiri svæðum við Norðursjó tíðkaðist sá siður að börn settu skó sinn út í glugga aðfaranótt 6. desember, sem er messudagur heilags Nikulásar, verndara barna og sæfara í kaþólskum sið, og vonuðust eftir því að hann gæfi þeim eitthvert smáræði í skóinn. Íslensku sjómennirnir sem kynntust þessum sið fluttu hann með sér heim og tóku upp á því að innleiða siðinn meðal barna sinna og verður hans fyrst vart hér á landi í kringum 1930. Í byrjun breiddist siðurinn hins vegar hægt út og þekktist aðeins innan þröngra hópa. Um miðja öldina tók útbreiðslan svo loks við sér og fór þá að vera almennt meðal íslenskra barna að setja skóinn út í glugga.
Hér á landi var það þó ekki heilagur Nikulás sem gaf í skóinn heldur jólasveinarnir. Hins vegar var það lengi vel misjafnt eftir heimilum hvenær skórinn var fyrst settur út í glugga og byrjuðu sum börn strax þann 1. desember að vonast eftir gjöfum. Einnig var það mjög misjafnt eftir heimilum hversu mikið börnin fengu í skóinn og fengu börn af ríkari heimilum stundum fúlgur fjár í hvert skipti og virtust jólasveinarnir stundum gera helst til mikinn mannamun þegar þeir útdeildu gjöfunum.
Í lok 7. áratugarins var ástandið orðið svo slæmt að leitað var ráða hjá þjóðháttasafni Þjóðminjasafnsins um hvernig væri hægt að bregðast við þessu ósamræmi og óhófi. Þá var tekið til þess bragðs að reka mikinn áróður í fjölmiðlum og í leikskólum gegn hvers kyns óhófi í þessum efnum. Smátt og smátt komst síðan sú regla á að þar sem jólasveinarnir eru þrettán talsins kemur ekkert í skóinn fyrr en þrettán dögum fyrir jól, þann 12. desember og ekki kemur nema smáræði í skóinn í hvert sinn.
Heimildir:
Árni Björnsson. Saga daganna. Mál og menning, Reykjavík 1993.
Árni Björnsson. Saga jólanna. Tindur, Ólafsfjörður 2006.