fbpx

Dagur íslenskrar tungu 16.nóvember

Bildet kan inneholde: 1 person, tekst

Dagur íslenskrar tungu er haldinn hátíðlegur 16.nóvember ár hvert á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar eins af ástsælustu skáldum íslensku þjóðarinnar.

Þennan dag beinist athygli þjóðarinnar að stöðu tungunnar, gildi hennar fyrir þjóðarvitund og alla menningu. Þá eru einnig veitt verðlaun Jónasar Hallgrímssonar og sérstakar viðurkenningar fyrir störf í þágu íslenskunnar.

Jónas, sem fæddist árið 1807 að Hrauni í Öxnadal, var einn af lærðustu mönnum síns tíma, hann var með guðfræðipróf, stundaði nám í lögfræði og lauk prófi í náttúruvísindum í Kaupmannhöfn.

Jónas fór um árabil í viðamiklar rannsóknarferðir um Ísland og skrifaði nákvæmar skýrslur um íslenska náttúru, ásamt því að skrifa veðurdagbækur og Íslandslýsingar fyrir Hið íslenska bókmenntafélag.

Jónas var einstakur orðasmiður og ásamt því að skrifa fræðirit um náttúrfræði orti hann ljóð og var öflugur þýðandi.

Jónas hafði sterka málkennd, bar virðingu fyrir tungumálinu og hafði einstakt næmi fyrir blæbrigðum þess. Þetta gerði honum kleift að tjá sig á þann hátt að nýyrði og nýjar samsetningar í bundnu eða óbundnu máli runnu þýtt í augum lesandans líkt og þau hefðu alltaf verið hluti af okkar ylhýra.

Í kvæðum Jónasar má finna orð eins og fagurtær lind himinblámans, spegilskyggnd hrafntinnuþök, sveitarblómi og klógula erni en þessi orða má finna í kvæðinu Gunnarshólma.

Orðin hrímhvíta móður og landnámsmenn sem frjálsræðishetjur eru úr kvæðinu Ísland og í Vísum Íslendinga skrifar Jónas um gleðina sem skín af vonarhýrri brá, sálarylinn og vonarstund. En það eru einmitt þessi orð Jónasar sem gæða ljóðin lífi og gera þau skiljanleg flestum.

Jónas á einnig heiðurinn af mörgum fræðiorðum, en hann þýddi t.d. danska bók um stjörnfræði þar sem er að finna orð eins og aðdráttaafl, sporbaugur, líkindareikningur og fjaðurmagnaður. Með þeirri þýðingu ruddi hann braut þeirra sem á eftir komu í að þýða og skrifa rit um fræðilegt efni á íslensku með íslenskum orðum fyrir íslenska lesendur.

Við ljúkum þessum orðum á Sálmi nr. 28 eftir Jónas og mælum með að þið lesið hann jafnvel upphátt með skýrum íslenskum framburði, hvort sem það er harðmæli eða linmæli og takið sérstaklega eftir öllum dásamlegu orðunum.

Sálmur 28

Festingin víða, hrein og há,

og himinbjörtu skýin blá,

og logandi hvelfing, ljósum skírð,

þið lofið skaparans miklu dýrð.

Og þrautgóða sól, er dag frá degi

Drottins talar um máttarvegi,

ávallt birtir þú öll um lönd

almættisverk úr styrkri hönd.


Og þótt um helga þagnarleið

þreyti vor jörð hið dimma skeið

og enga rödd og ekkert hljóð

uppheimaljósin sendi þjóð,

skynsemi vorrar eyrum undir

allar hljómar um næturstundir

lofsöngur þeirra, ljóminn hreinn:

Lifandi Drottinn skóp oss einn.