Hver dagur er gjöf sem ber að þakka og það er ekki sjálfgefið að fá að safna árunum í sarpinn sinn en það er einn höfðingi, Osvald Kratsch, sem var svo lánsamur að fagna 95 ára afmæli sínu í vor og er enn glaður og lítur hvern dag jákvæðum augum.
Osvald var um langt skeið öflugur liðsmaður í safnaðarstarfi Íslenska safnaðarins í Noregi og tók virkan þátt í messum, sat í stjórn og kom að skipulagi og framkvæmd á starfi fyrir 60 ára og eldri. Hann er m.a. þekktur fyrir snitturnar sínar en hann hafði þann sið að koma við bæði á Ólafíustofu og í sendiráðinu með snittur, kökur og fallegar servíettur.
Einar Traustason, fyrrum formaður Íslenska safnaðarins og góður vinur Osvaldar, Rebekka Ingibjartsdóttir, æskulýðsfulltrúi og fyrrum samstarfskona Osvaldar og Inga Harðardóttir, prestur safnaðarins, gerðu sér ferð til að heimsækja Osvald á dögunum. Tilgangurinn var að bera honum allar þær hlýju kveðjur sem við hjá söfnuðinum erum beðin fyrir til hans og að sjálfsögðu að færa honum blóm, vínarbrauð og fallegar servíettur.
Skemmtilegar sögur komu upp úr spjallinu fyrir utan hjúkrunarheimilið þar sem hann dvelur nú og er kallaður Kongen av Island. Osvald var t.d. í mörg ár fánaberi á 17. júní hátíðum í Osló enda sannur skáti sem státar af því að hafa verið fremsti fánaberi á lýðveldishátíðinni á Þingvöllum árið 1944. Hógvær og glettinn vildi hann nú ekki hreykja sér sínu framlagi til safnaðarins en fannst þó gaman að rifja upp þegar hann seldi forláta dúkkusafn sem hann hafði komið sér upp og gaf ágóðann, 10.000 nkr, í Ólafíusjóð sem er hjálparsjóður fyrir nauðstadda Íslendinga.
Slegið var á þráðinn til sr. Örnu Grétarsdóttur og urðu það miklir fagnaðarfundir með aðstoð tækninnar. Ekki var hægt að kveðja höfðingjann án þess að taka með honum lagið, og auðvitað varð uppáhaldslagið hans Ó þá náð að eiga Jesú fyrir valinu og það fékk að hljóma í haustsólinni.