Styrkir

Verkefnastyrkur og hjálparstyrkur úr Ólafíusjóði 

Styrkir á vegum Íslenska safnaðarins í Noregi eru tvenns konar. Annars vegar er um að ræða verkefnastyrk sem sótt er um til stjórnar safnaðarins og hins vegar er hægt að sækja um hjálparstyrk í Ólafíusjóðinn hjá stjórn sjóðsins, þá er umsóknum skilað til sóknarprests. Sjá nánar úthlutunarreglur fyrir verkefnastyrki og skipulagsskrá Ólafíusjóðsins.

Nánari upplýsingar um styrk úr Ólafíusjóðnum má fá hjá presti safnaðarins.

Nánar um verkefnastyrk:

Hægt er að sækja um verkefnastyrki til safnaðarins. Kynnið ykkur úthlutunarreglurnar og fyllið umsóknareyðublaðið út. Athugið að umsóknarfrestur til að skila inn styrkumsókn er í lok mars ár hvert. Sendið tölvupóst á starfsmadur@kirkjan.no til að fá sent umsóknareyðublað.

Íslenski söfnuðurinn í Noregi 2008
Úthlutunarreglur vegna verkefnastyrkja til menningarmála á kristilegum grundvelli.
1. Tilgangur styrkjanna er að efla menningarstarfsemi og menningartengda starfssemi á kristilegum grundvelli sem og að efla tengsl milli Íslands og Noregs.
2. Umsækjendur geta verið einstaklingar, félagasamtök eða hópar.
3. Með umsókninni verður að fylgja greinargóð lýsing á verkefninu með verkáætlun og tímasetningum, ítarleg fjárhagsáætlun (kostnaðar- og tekjuáætlun) og upplýsingar um aðstandendur. Í umsókn skal koma fram hvernig verkefnið tengist eflingu kristinnar trúar og/eða menningar.Styrkir safnaðarins geta aldrei verið hærri fjárhæð en sem nemur helmingi alls kostnaðar við verkefni.
4. Umsækjandi ábyrgist að fullnægjandi leyfi séu fyrir framkvæmd verkefnis og notkun heimilda ef þarf, sem og öðrum þáttum verkefnisins.
5. Íslenski söfnuðurinn í Noregi og styrkþegi gera með sér sérstakan samning sem m.a. kveður á um fyrirkomulag greiðslu, lokaskýrslu og eftirfylgni.
6. Styrkþegi skal skila skriflegri lýsingu ( lokaskýrslu ) á framkvæmd og árangri verkefnisins. Að öðru leyti ber styrkþega að veita Íslenska söfnuðinum í Noregi upplýsingar um framkvæmd verkefnisins þegar og ef eftir því er leitað.
7. Umsóknir þurfa að vera á eyðublöðum frá Íslenska söfnuðinum í Noregi og póststimplaðar eigi síðar en síðasta umsóknardag.
8. Auglýst skal eftir styrkumsóknum einu sinni á ári í fréttabréfi og heimasíðu safnaðarins. Umsóknarfrestur er til 31.mars ár hvert og skulu umsóknir afgreiddar fyrir lok apríl.
9. Safnaðarstjórn áskilur sér rétt til að breyta úthlutunarreglum þessum og skal það gert eigi síðar en tveimur mánuðum áður en umsóknarfrestur rennur út.

Stjórn Íslenska safnaðarins í Noregi 14. janúar 2008