Unglingahópur safnaðarins á leið á Landsmót

 LANDSMÓT ÆSKULÝÐSFÉLAGA ÞJÓÐKIRKJUNNAR

Nú líður að landsmóti ÆSKÞ sem Íslenski söfnuðurinn hefur boðið fermdum unglingum að fara á s.l ár. Hér er á ferðinni frábær dagskrá með uppbyggilegri skemmtun og fræðslu fyrir unglingana okkar. Flogið verður 27.okt  og til baka 31.okt. n.k.  Enn eru örfá sæti laus og eru þau sem hafa áhuga beðin um að hafi samband við Örnu prest. Fermdir unglingar að 18 ára aldri er boðin þátttaka.

Mótið er haldið á Selfossi 28.- 30.október 2011.

金の心

Styðjum börn sem misstu foreldra í jarðskjálftunum í Japan

"Og ég mun gef þeim nýtt hjarta og leggja þeim nýjan anda í brjóst" (Esk, 11:19)

 
Um mótið:

Mótið í ár verður góðgerðarmót þar sem við beinum sjónum okkar til barna í Japan sem eiga um sárt að binda eftir hinar miklu náttúruhamfarir í landinu fyrr á árinu. Um 1200 börn og unglingar yngri en 20 ára misstu foreldra sína í skjálftunum og flóðunum sem fylgdu á eftir. Mörg þessarra barna þjást af áfalla-streituröskun og hafa geðlæknar bent á að besta leiðin til bata sé að gefa börnunum kost á að dvelja í áhyggjulausu umhverfi þar sem þau fá notið sín í leik og starfi. Ákveðið hefur verið að láta afrakstur þess sem safnast á mótinu renna til hjálparsamtaka í Japan sem nefnast ,,Hearts of Gold”. Samtökin hafa það að markmiði að gera líf þessara barna bærilegra m.a með því að gera þeim kleift að sækja skólaferðalög, sumarbúðir og fleira. Toshiki Toma, prestur innflytjenda og Hjálparstarf kirkjunnar halda utan um söfnunina með okkur.

Dagskrá mótsins verður góð blanda af helgihaldi, leik, söng og fræðslu. Sameiginleg fræðsla á laugardagsmorgninum er í höndum Sr. Sigurvins Jónssonar æskulýðsprests í Neskirkju og Sr.Toshiki Toma prests innflytjenda. Eftir fræðsluna tekur við hópastarf og meðal þess sem í boði verður er: Japönsk tíska, Kristileg tónlist, Sævar Poetrix, Karate, Björgunarsveit, Breytendur, Sushi, Kökuskreytingar, Dans, Manga, Origami, Leikjahópur, Quidditch, íþróttir og fl. Kvöldvökur og helgistundir verða auðvitað á sínum stað svo ekki sé minnst á búningaballið þar sem Ingó Veðurguð, Stuðlabandið og Dj Búni halda upp stemmningunni.

Í ár efnum við til búningakeppni og skemmtiatriðakeppni. Veitt verða þrenn verðlaun í hvorum flokki fyrir sig. Þemað á búningaballinu er rautt, sem minnir okkur á Japan.

Skráning í fermingarfræðslu veturinn ’11-’12 stendur yfir

Fermingarfræðsla vetrarins hefst með fermingarnámskeiði í Svíþjóð dagana 23.-25. september. Allir verða að skrá sig með rafrænni skráningu (sjá hér á síðunni) svo þeim berist tölvupóstur með frekari upplýsingum um námskeiðið og fyrirkomulag fræðslunnar í vetur. Hlakka til að hitta nýjan hóp af fermingarbörnum í haust.

Samúðarkveðja til norsku þjóðarinnar

Okkar dýpstu samúðarkveðjur til norðmanna á sorgardögum. Atburðir gærdagsins hreyfa við okkur öllum en engum meir en þeim sem misst hafa ástvini sína. Íslenski söfnuðurinn bendir Íslendingum á að kirkjur norsku kirkjunnar eru opnar fyrir þau sem vilja tendra ljós, sameinast í bæn og eiga samfélag. Við getum líka tendrað ljós heima við og sameinast i bæn til Guðs um styrk til þeirra sem líða. Verum hvort öðru stuðningur á erfiðum tímum og munum að trú, von og kærleikur styrkir.

Með bæn og blessunarkveðju til ykkar allra.                                                                                  

Prestur og safnaðarstjórn.

Sumarfrí prests

Í neyðartilfellum verður hægt að ná í prest safnaðarins sr. Örnu Grétarsdóttur í sumar í gegnum Ingu Erlingsdóttur á skrifstofunni.  Senda má erindi á tölvupóstfangið [email protected], póstum verður þó einungis svarað óreglulega í sumar því er gott  ef erindið er ekki trúnaðarmál að senda afrit til Ingu á [email protected] Guð blessi ykkur sumarið.

Fermingarmessa í Seltjarnarneskirkju 3. júlí kl.11

Messa verður í Seltjarnarneskirkju 3. júlí kl.11. Í messu verða ungmenni fermd sem búsett eru í Noregi, Svíþjóð og Danmörku. Organisti er Friðrik Vignir Stefánsson. Kvartett úr kammerkór kirkjunnar leiðir messutón og sálmasöng. Margrét Grétarsdóttir syngur einsöng. Verið hjartanlega velkomin. Sr. Arna Grétarsdóttir þjónar.

Fermingarfræðsla Íslenska safnaðarins í Noregi 2012 – 2013.

Skráningarblað fyrir íslensk börn búsett í Noregi. Athugið að stærstur hluti fermingarfræðslunnar fer fram á tveimur helgarnámskeiðum í Svíþjóð helgina 28.-30. Sept. 2012 og helgina 10.-12. Maí 2013. Þau námskeið eru sameiginleg með íslenskum börnum búsettum í Svíþjóð og Danmörku. Auk þessa hittir prestur fermingarbörnin í messuferðum sínum um landið þar sem þau aðstoða við messuhald o.fl. 

Lýðveldishátíðin í Nordberg kirkju í Ósló

Lýðveldishátíðinni verður fagnað þann 19.júní n.k í og við Nordberg kirkju kl.14. Súsanna Andreudóttir formaður Íslendingafélagsins setur hátíðina. Ólafur Hallgrímsson flytur hátíðarávarp. Fjallkona flytur ljóð og sr. Arna Grétarsdóttir og Hjörleifur Valsson flytja hugvekju í tónum og tali. Ískórinn syngur ættjarðarlögin og Lúðrasveit Hönefoss blæs af krafti 17.júní stemmningu í mannskapinn. Gengið verður um hverfið í skrúðgöngu ásamt lúðrasveitinni. Íslendingafélagið í Ósló sér um hátíðarhöldin í samstarfi við söfnuðinn. Ýmislegt verður til skemmtunar börnum og fullorðnum. Dóri í Tempó spilar á gítar og syngur. Galdrakerling mætir á svæðið og ýmislegt annað skemmtilegt. Pylsur og íslenskt sælgæti. Messukaffi að venju í safnaðarheimilinu gestum að kostnaðarlausu. Verið hjartanlega velkomin. Sjá nánar: www.islendingafelagid.no

 

FJölskylduguðsþjónusta í Vesterøy kirkju Sandefjord

Hvítasunnudagurinn á Íslenska söfnuðinum verður í ár haldinn hátíðlegur í Sandefjord. Það verður fjölskylduguðsþjónusta kl.14 í Vesterøy kirkju. Íslendingafélagið Jötunn hefur umsjón með kaffinu á eftir. Sálmaval er á léttum nótum og andi Guðs svífur yfir vötnum enda Hvítasunnan hátíð heilags anda. Verið hjartanlega velkomin.

Sjálfstyrkingarnámskeið og messa í Tromsø

Sjálfstyrkingarnámskeið fyrir konur verður haldið á Sommerøya rétt utan við Tromsø laugardaginn 4. júní frá kl.14.30-17.30.

Leiðbeinendur á námskeiðinu eru Eygló Sigmundsdóttir sálfræðingur og sr. Arna Grétarsdóttir. Á námskeiðinu verður fjallað um sjálfstraust og samskipti; hvernig mótast sjálfsmynd okkar og hvernig viðhelst hún? Einnig verður fjallað um hvernig við getum tamið okkur meiri ákveðni í samskiptum og gerðar verða sjálfstyrkjandi æfingar. Mindfulnessæfingar, slökun, íhugun og bæn. Spennandi námskeið sem gefur þátttakendum nýja sín og aukið sjálfstraust. Kostnaður við námskeiðshald er greitt af söfnuðinum. Sendið skráningu til Brynju Gunnarsdóttur: [email protected]

Messa verður í Elverhøy kirkju sunnudaginn 5.júní (sjómannadaginn) kl.14. Kammerkór Tromsø syngur og leiðir sálmasöng. Organisti er Paul Gunnar. Kaffi og kökur á eftir í umsjá Íslendingafélgasins. Verið hjartanlega velkomin.

Guðsþjónusta í Ålesund kirkju sunnudaginn 15.maí kl.14.

Verið hjartanleg velkomin í guðsþjónustu í Ålesund kirkju n.k sunnudag kl.14. Notaleg og létt helgistund á íslensku sniðin að börnum og fullorðnum. Íslenskur sunnudagaskóli verður á svæðinu reglulega næsta vetur og væri gaman að sjá hversu margir hefðu áhuga á barnastarfi á þessu svæði. Hlakka til að sjá sem flesta. Verið hjartanleg velkomin. Arna Gr.