60 ára og eldri láta gott af sér leiða

kransÁ síðustu árum hafa 60 ára og eldri á Ósló svæðinu komið saman í Ólafíustofu og átt þar góðar stundir. Farið er yfir það helsta í Íslenskum dagblöðum, tekið í spil, unnið að handverki, litið á íslenskt sjónvarpsefni og ýmislegt fleira.

Í vetur heldur starfið áfram og næsti fundur verður á fimmtudaginn 7. nóvember klukkan 12:00. Stundin hefst á bænastund og sameiginlegum málsverði. Að því loknu verður boðið upp á efni til föndurgerðar og markmiðið er að útbúa jólaskraut sem selt verður til styrktar Ólafíusjóði. Hægt verður að kaupa afraksturinn á aðventuhátíð safnaðarins í Nordberg kirkju þann 1. desember.

Allir 60 ára og eldri hjartanlega velkomnir. Einar T. Traustason, Osvald Kratsch og Valdimar Svavarsson fræðslufulltrúa taka vel á móti fólkinu.

Allra heilagra messa – Íslenskukennsla – Sunnudagaskólinn

Allra heilagra

Allra heilagra messa þar sem minnst er látinna verður í Nordberg kirkju kl.14 sunnudaginnn 3. nóvember.

Skírt verður í messunni og fermingarbörn aðstoða við helgihaldið. Gengið verður til altaris.

Ískórinn syngur undir stjórn Gísla J. Grétarssonar og Hjörleifur Valsson leikur á fiðlu. Peggy Jenset situr við orgelið að venju.

Elín Arndís Gunnarsdóttir kennari sér um íslenskukennslu fyrir grunnskólabörn sem búa á Óslóarsvæðinu. Kennsla hefst fyrir messu.

Sunnudagaskólinn í umsjá Hrefnu og Heiðrúnar er á sínum stað á meðan á messu stendur.

Kirkjukaffi í umsjá Íslendingafélagsins í lok messu.

Verið öll hjartanlega velkomin.

In Memoriam – Glæsileg dagskrá

Olafia frimerkiÁ fæðingardegi Ólafíu Jóhannsdóttur, þriðjudaginn 22. október n.k. sér listanefnd safnaðarins um dagskrá í Ólafíustofu á milli kl. 19:00 og 21:00. Sr. Arna Grétarsdóttir verður með minningarstund í upphafi dagskrárinnar og síðan ætla eftirfarandi listamenn og konur að bjóða uppá skemmtiatriði. Sigurbjörg Þrastardóttir ljóðskáld og rithöfundur. Tómas Guðni Eggertsson organisti. Ragnhild Hilt leikona, og Hjörleifur Valsson fiðluleikari. Boðið verður uppá kaffi og afmælistertu í lok dagskrárinnar.

Verið hjartanlega velkomin.

Listanefnd safnaðarins

Guðsþjónusta með bíóívafi i Nordberg kirkju.

solGuðsþjónusta verður í Nordberg kirkju þann 13. október kl.14. ískórinn syngur og fermingarbörn og ungleiðtogar aðstoða við messuhaldið. Sr. Kristín Þórunn Tómasdóttir og sr. Árni Svanur Daníelsson predika og þjóna ásamt sr. Örnu.

Sunnudagaskólinn á sínum stað og íslenskukennsla hefst.

Messukaffið í umsjá Íslendingafélagsins í Ósló.

Verið hjartanlega velkomin til kirkju.

Íslenskukennsla í Nordberg Kirkju

Elín Arndís Gunnarsdóttir kennari mun í vetur sjá um íslenskukennslu fyrir grunnskólabörn sem búa á Óslóarsvæðinu. Fyrsti fundur með foreldrum verður í Nordberg kirkju í tengslum við messu þann 13. október kl. 13:30. Yngstu systkini geta mætt í sunnudagaskólann á meðan þau eldri æfa færni í íslensku og foreldrar geta mætt í messu með bíóívafi. Kennslan er í boði íslenska safnaðarins og er því fjölskyldum að kostanaðarlausu. Skráðu barnið þitt með því að senda tölvupóst á: [email protected]

Verið hjartanlega velkomin.

Hvað eiga Lady Gaga og Hómer Simpson sameiginlegt?

judasHvað eiga Lady Gaga og Hómer Simpson sameiginlegt? 
Hversu lengi er verið að brjóta boðorðin tíu í bíómynd?
Árni Svanur Daníelsson ætlar að ræða um trúarstef í kvikmyndum á laugardagsnámskeiði í Ólafíustofu 12. október kl.13. Hann mun fjalla um það hvernig við getum notað kvikmyndir sem vettvang og efnivið í samtalið um stóru spurningarnar í lífinu. Hann mun sýna fjölda sýnidæma sem leiða okkur inn í mikilvægar spurningar, ræða um það hvernig Biblían og Guð birtar í nokkrum þekktum bíómyndum og tala um það hvernig tónlistarmyndbönd birta okkur spegil af samfélagi og samtíð.
Verið öll hjartanlega velkomin meðan húsrúm leyfir.

UNGLINGASTARFIÐ Í ÓSLÓ BYRJAR 11. OKTÓBER

Feel_the_music

Í Ósló verður unglingastarfið (13 til 17 ára) byggt upp í kringum tónlistarstarf. Boðið verður upp á aðstöðu og hljóðfæri þannig að hægt verði að æfa og spila tónlist. Þetta er frábært tækifæri til þess að taka þátt í skemmtilegu starfi meðal annarra unglinga og um leið að kynnast tónlistarheiminum betur.

Við munum tengja okkur við tónlistarviðburði og leita til íslenskra tónlistarmanna til þess að gefa góð ráð. Við munum líka vinna með aðra þætti sem snúa að tónlistarstarfi svo sem myndbönd, hönnun, texta og markaðsmál svo eitthvað sé nefnt. Allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi, hvort sem þeir spila á hljóðfæri eða ekki. Hjörleifur Valsson tónlistarmaður og Valdimar Svavarsson fræðslufulltrúi stýra starfinu en það verða þátttakendurnir sjálfir sem móta starfið og ákveða stefnuna.

Við hittumst föstudaginn 11. október í Ólafíustofu Pilastredet Park 20 Kl. 17:30 – 18:30 og ræðum hugmyndina yfir pizzu og kók. Vertu með frá byrjun og taktu vinina með.

Fylgstu með og á Facebook síðunni “Unglingastarfið í Oslo og nágrenni” eða sendu póst á [email protected] til þess að fá nánari upplýsingar.

Sunnudagaskólinn í Ósló 29. september

Tófa

 

Á sunnudaginn verður sunnudagaskóli í Nordberg kirkju, Kringsjarenda 1, klukkan 14:00. Að venju verður mikið sprellað, leikir, sögur og ýmislegt fleira skemmtilegt í boði fyrir börn og fullorðna. Nýr þáttur með Tófu sem enginn má missa af!!

Allir hjartanlega velkomnir. Kaffi og meðlæti í lok stundar.

Heiðrún Jónsdóttir og Runólfur taka vel á móti ykkur.

Guðsþjónusta og sunnudagaskóli í Fredrikstad

sunnudagaskóli teiknimyndSunnudaginn 15. september kl.14 verður guðsþjónusta og sunnudagaskóli í Østre Fredriksstad kirkju.

Østre Fredrikstad kirke, Kirkegaten 25 i gamle byen.

Helgihaldið verður með nýju ívafi þar sem gengið verður á skírnarfonti og krossmarkinu að kyrrðarperlunni þaðan að bænamiðunum og bænateikningum fyrir börnin og endað á því að tendra kerti.

Ískórinn syngur undir stjórn Gísla Jóhanns Grétarssonar.

Sunnudagaskólakennararnir María og Sigga kynna sunnudagaskólann sem verður 1 x í mánuði fyriri jól.

Sjá nánar í dagskrá sunnudagaskólans.

Hlökkum til að sjá ykkur!

 

Skráning í fermingarfræðslu veturinn 2013-14 hafin

Ferming + Ìsland 2010 086Skráning er hafin í fermingarfræðslu safnaðarins næsta vetur.  Foreldrar þeirra barna sem vilja taka þátt í fræðslunni og fermast næsta vor eða sumar þurfa að skrá sig rafrænt hér á heimasíðunni (til hægri).

Fermingarfræðslan saman stendur af tveimur helgarnámskeiðum í samstarfi við íslensku söfnuðina í Svíþjóð og Danmörku.  Námskeiðin fara fram í Aah stiftgaard í Svíðþjóð og er mestur kostnaður við námskeiðin greiddur af söfnuðinum.

Við skráningu í fræðsluna verður að taka frá dagana 27.-29.september 2013 og 9.-11. maí 2014. Aðal fræðslan fer fram á þessum helgum. Fermingarfræðslutímar verða skipulagðir eftir að skráningu er lokið og búsetudreifing er ljós. Börnin mæti svo í messur og/eða sunnudagaskóla og koma frekari tilmæli um það síðar.

Prestur safnaðarins mun ferma í Seltjarnarneskirkju 29. júní 2014. Aðrir fermingardagar verða settir upp í Ósló og úti á landsbyggðinni þegar skráningu er lokið.