60 ára og eldri hittast fimmtudaginn 10. mars í Ólafíustofu

marsNæstkomandi fimmtudag, 10. mars, hittast 60 ára og eldri á skrifstofu Íslenska safnaðarins í Noregi, Pilestredet Park 20, í Ósló.

Við hefjum stundina á stuttri kyrrðarstund kl. 12:15 sem sr. Ása Laufey Sæmundsdóttir leiðir, síðan borðum við léttan íslenskan hádegisverð saman. Eftir hádegisverðinn verður boðið upp á kaffi og páskalegt meðlæti. Við tökum lagið, spjöllum saman og eigum gott samfélag saman.

Veriði velkomin til okkar, við hlökkum til að sjá ykkur !

Guðþjónusta í Skjold kirkju í Bergen, 6. mars kl. 14.

Skjold_THNæsta sunnudag, 6. mars kl. 14:00, verður guðsþjónusta í Skjold kirkju, Skjoldlia 55, Bergen.

sr. Ása Laufey Sæmundsdóttir leiðir guðsþjónustuna. Sönghópurinn í Bergen syngur og leiðir almennan söng.

Gígja Guðbrandsdóttir, Valur Guðjón og Ólöf Halldóra sjá um sunnudagaskólann sem verður á sama tíma. Páskaeggjaleit sunnudagaskólans og kirkjukaffi eftir messuna.
Þetta er tilvalið tækifæri til þess að hitta aðra Íslendinga og eiga notalega stund saman.

Verið hjartanlega velkomin !

 

Hjóna- og paramessa í Nordberg kirkju 6. mars kl.14

IMG_0497Hjóna- og paramessa verður sunndaginn 6. mars kl.14 í Nordberg kirkju í Óslo.  Þema messunnar er ástin, kærleikurinn og samböndin í lífi okkar.  Predikunin verður samtalspredikun milli prests og hjóna sem segja frá reynslu sinni af löngu sambandi.Það eru hjónin Elín Kolbeins og Otto Guðjónsson og Ágústa María Arnardóttir og Hjörleifur Valsson sem þjóna með sóknarpresti.  Ískórinn syngur undir stjórn Gísla J. Grétarssonar. Hjörleifur Valsson leikur á fiðlu og fallegar ástarperlur flytur Dóra Steinunn Ármannsdóttir. Fermingarbörnin aðstoða við helgihaldið. Altarisganga og hjónablessun fer fram í messunni.

Fjólublár hökull og stóla sem er hluti af messuskrúða prests verður tekinn í notkun með bænarorðum. Hanna María Helgadóttir hefur saumað og bróterað.

Að sjálfsögðu eru allir velkomnir í messu hjón, pör og einhleypir.

Sunnudagaskóli á sama tíma og kaffi í safnaðarheimilinu í umsjá Íslendingafélagsins í Oslo.

Verið hjartanlega velkomin í kærleiksmessu.

Ath! Vegna forfalla er pláss fyrir ein hjón til viðbótar á hjónanámskeiðið á laugardeginum sem fram fer í Ólafíustofu. (sjá sér auglýsingu hér á síðunni).

Fjölskylduguðsþjónusta í Sandefjord

images-1Fjölskylduguðsþjónusta verður n.k sunnudag 21. febrúar kl.14 í Olavs kapelle, Bjerggata 56 í Sandefjord.

Altarisganga fer fram og skírnardags barnanna sérstaklega minnst. Hvað þýðir fjólublái liturinn og hvað er eiginlega fasta?

Margrét Ólöf Magnúsdóttir djákni leiðir stundina ásamt sr. Örnu Grétarsdóttur.

Líf og fjör, sögur, söngur, bæn og fræðsla.

Verið hjartanlega velkomin.

Símakerfi skrifstofunnar liggur niðri

10408794_10152162744796962_7667478683478588047_nVegna tæknilegra örðuleika við skipti á netþjóni liggur símakerfi skirfstofunnar niðri um tíma. Vonandi verður þessu komið í lag hið fyrsta.

Við bendum á farsíma hjá Ingu á skrifstofunni: 40074099 og/eða hjá sóknarpresti: 95753390.

Við biðjumst afsökunar á þeim óþægindum sem þetta kann hafa skapað.

 

 

Námskeiðið Andlegt ferðalag í anda 12 sporanna í Ólafíustofu

destiny-courageNámskeiðið Andlegt ferðalag í anda 12. sporanna hefst í næstu viku, í Ólafíustofu í Osló. 12 spora kerfið þekkja flestir og er í dag stundað útum allan heim. Öll höfum við einhverja reynslu sem ekki er auðvelt að vinna úr og þessi aðferð hefur reynst mörgum vel til að ná bata og öðlast eitthvað nýtt og gott inn í líf þeirra og aðstæður. Ekki er horft á fíkn sérstaklega í þessari vinnu.

Kynningarfundir verða haldnir í Ólafíustofu, Pilestredet Park 20 í Osló. Fyrsti kynningarfundurinn verður þriðjudaginn 16. febrúar kl. 19:30 – 21:30 og í framhaldi verða opnir kynningarfundir 23. febrúar, 1. mars og 8. mars. Eftir það er hópunum lokað en það er eðli starfsins að það er unnið í lokuðum hópum þar sem trúnaður myndast. Námskeiðið er opið öllum og er þátttakendum að kostnaðarlausu.

Hægt er að kynna sér efni námskeiðsins á heimasíðunni: www.viniribata.is

Utan um námskeiðið halda Elísabet Valdimarsdóttir Long, sem hefur víða haldið fyrirlestra, ráðstefnur og námskeið um 12 spora kerfið s.l. 20 ár og sr. Ása Laufey Sæmundsdóttir.

Margar reynslusögur er að finna inná Vinir í bata heimasíðunni, hér er brot úr einni reynslusögu en hún ber heitið: «Vitnisburður – 12 sporin.»

,, Margt sem ég uppgötvaði um sjálfa mig olli sársauka, en þá þurfti ég að gæta þess að takast á við tilfinningarnar mínar á þeim hraða sem viðráðanlegur var hverju sinni. Með því að deila með félögunum í fjölskylduhópnum uppgötvunum mínum kom ég auga á lausnir og hvernig ég gat unnið úr því sem ég fann. Þetta varð sannkölluð sjálfsstyrking.  Mér fannst stórkostlegt að finna að ég var ekki ein um að finna fyrir vanmætti, ótta við fólk sem hefur völd eða er ráðríkt, vangetu til að setja fólki skýr mörk, svo eitthvað sé nefnt. Ég kannaðist við mjög margt sem lýst er í algenga hegðunarmynstrinu, en gegnum sporavinnuna fækkaði þeim atriðum verulega sem áttu við mig. Í lok vetrar átti ég nýjan spegil, þann sem kallaður er Áfangar í bata. Hann var þó ekki sprungulaus og ákvað ég því í vor að fara aftur í gegn um sporin í vetur.  Með því að vinna í sporunum hefur innsæi mitt aukist, sjálfsmeðvitund mín batnað til muna og ég hef lært að ég hef ekki stjórn á öllu.

60 ára og eldri hittast fimmtudaginn 11. febrúar í Ólafíustofu

februar 60 ára og eldriNæstkomandi fimmtudag, 11. febrúar, hittast 60 ára og eldri á skrifstofu Íslenska safnaðarins í Noregi, Pilestredet Park 20, í Ósló.

Við hefjum stundina á stuttri kyrrðarstund kl. 12:15 sem sr. Ása Laufey Sæmundsdóttir leiðir, síðan borðum við hádegismat saman. Að þessu sinni verður boðið upp á saltkjöt og baunir í tilefni föstunnar. Eftir hádegisverðinn verður boðið upp á kaffi og meðlæti, á meðan mun Fríða Gunnarsdóttir, audiopedagog og fv. framkvæmdastjóri Heyrnahjálpar kynna stuttlega heyrnaskerðingu, tæknilegar lausnir og aðgengismál.

Við hlökkum til að sjá ykkur !

Samnorræn messa í sænsku Margareta kirkjunni

images-2 Samnorræn messa verður í Margareta kirkjunni í Ósló sunnudaginn 7. febrúar kl.11. (Hammersborg Torg 8B, 0179 Oslo) Íslenski, sænski og finnski söfnuðurnir í Noregi standa saman að þessari messu sem fer fram á íslensku, sænsku, finnsku og norsku. Ískórinn mun syngja fallega íslenska sálma undir stjórn Gísla J. Grétarssonar. Prestarnir sr. Arna Grétarsdóttir, sr. Per Andres Sandgren, sr. Anssi Elenius og sr.Morthen Dafinn Sørlie munu leiða messuna. Sr. Anssi Elenius predikar á finnsku og verður predikuninni varpað á vegg í norskri þýðingu.  Sunnudagaskólinn verður á sama tíma og munu leiðtogar Íslenska safnaðarins  hafa umsjón með honum.

Kaffi og spjall á eftir í safnaðarheimili kirkjunnar eftir messuna.

Athugið messutímann kl.11.

Verið hjartanlega velkomin!

Messa í Nordberg kirkju 24. janúar með Ómari Diðrikssyni. Örþing um tónlistarmál safnaðarins á eftir.

MusikMessa verður í Nordberg kirkju sunnudaginn 24. janúar kl.14.  Ómar Diðriksson mun syngja nokkur af sínum hjartnæmu lögum ásamst Ískórnum og Hjörleifi Valssyni. Stjórnandi Ískórsins er Gísli J. Grétarsson og organisti er Ole Johannes Kosberg. Sr. Ása Laufey Sæmundsdóttir predikar og þjónar fyrir altari.

Sunnudagaskólinn verður á sínum stað og kirkjukaffi í umsjá Íslendinafélagsins.

Örþing um tónlistarstefnu safnaðarins verður í kirkjukaffinu. Margrét Bóasdóttir söngmálastjóri þjóðkirkjunnar verður með stutt innlegg og 3 mínútna innlegg hafa Hjörleifur Valsson og sr. Ása Laufey Sæmundsdóttir.   Opin umræða um tónlistarmál í 30 mínútur.  Öll þau sem hafa skoðanir, hugmyndir og uppbyggjandi tillögur er varða tónlistarmálin okkar eru hvött til að taka virkan þátt.

Fundarstjóri sr. Arna Grétarsdóttir.

 

Verið hjartanlega velkomin til messu og örþings!

Hjóna- og paranámskeið 5. mars n.k.

images-1Hjóna- og paranámskeið verður haldið í Ólafíustofu þann 5.mars n.k. kl.15.

Farið verður í samskipti sem efla ást og vináttu og kennd verða fimm tungumál kærleikans.

Námskeiðið endar á kærleikskvöldi þar sem valin hjón segja frá reynslu sinni og farið verður út að borða á veitingarstað. Eins er hægt að hafa samband við skrifstofu varðandi ódýra hótelgistingu. Einnig minnum við á hjóna- og paramessuna sem verður á sunnudeginum kl.14 í Nordberg kirkju.

Kostnaður við námskeiðið er greiðsla á kvöldverði og hótelgistingu sem hjónin sjá sjálf um. Námskeiðið sjálft er í boði safnaðarins. Látið vita við skráningu hvort farið er út að borða.

Leiðbeinendur á námskeiði eru sr. Arna Grétarsdóttir og Eygló Sigmundsdóttir sálfræðingur.

Fjöldi þátttakenda takmarkast við 7 pör. Skráið ykkur sem fyrst!

Skráningu og fyrirspurnir skal senda á [email protected]