Fréttir

Ískórinn

Minningarathöfn um prófessor Kjartan Ottósson

Minningarathöfn um Kjartan Ottósson (f.1956) prófessor í málvísindum og norrænum fræðum við Óslóarháskóla verður í Markus kirke,(Schwensens gt. 15, við Sankthanshaugen). miðvikudaginn 25.ágúst nk. kl.17. 

Kjartan Ottósson lést á Landspítalanum þann 28.  júní sl. og var jarðsunginn á Íslandi.

Blessuð sé minning hans.

Latibær til Noregs

Frábær barna og fjölskylduskemmtun með íþróttaálfinum og Sollu stirðu þann 28.ágúst kl.18 í safnaðarheimili Lambertseterkirkju. (Langbölgen 33, 1101 Oslo). Verð nkr.100 pr.mann.

Sýningin er flutt inn af Guðmundi Gíslasyni sem er þakkað hjartanlega fyrir þetta frábæra framtak í þágu yngstu kynslóðarinnar.


Hugmynd að barnakór

Íslenski söfnuðurinn er að kanna hvort að það sé áhugi fyrir því meðal foreldra að stofna barnakór sem myndi syngja á Aðventukvöldinu með Ískórnum. Æfingar myndu því bara verða fram að mánaðarmótum nóvember/desember. Hugmyndin er að æfa kannski 1-2 í mánuði og hafa íslenskan kórstjóra. Ef þið haldið að ykkar börn hefðu áhuga þá endilega sendið tölvupóst á [email protected] 

Eins væri gott að heyra ef einhver hefði tök á að taka slíkan kór að sér.

 


Guðsþjónusta í Kongshavn kapell í Tromøy, Arendal

Sunnudaginn 13. júní verður guðsþjónusta í Arendal, Kongshavn kapell í Tromøy. Sr. Helgi Hróbjartsson fyrverandi prestur safnaðarins mun predika og þjóna fyrir altari. Verið hjartanlega velkomin.

Fjölskylduguðsþjónustur í Tromsø og Ålesund

Fjölskylduguðsþjónusta verður á sunnudaginn 6. júní í Elverhøy kirkju i Tromsøy kl.14. Brynja Gunnarsdóttir stjórnarmeðlimur safnaðarins mun lesa ritningarlestra. Kaffi og meðlæti eftir stundina.Verið hjartanlega velkomin.

Fjölskylduguðsþjónusta miðvikudaginn 9.júní í Ålesund kirkju kl.18. Barn borið til skírnar. Verið hjartanlega velkomin.
 

Fjölskylduguðsþjónustur er sérstaklega sniðnar þannig að passi bæði börnum og fullorðnum. Reynt er að höfða til barna, ungmenna, foreldra og ömmu og afa á sem einfaldastan hátt.Tónlistin, sálmar og söngvar miða að því að allir geti sungið með.

Messa og aðalfundur safnaðarins í Ósló

 Messa í Nordberg kirkju í Ósló sunnudaginn 25.apríl kl.14. Ritningalesarar eru Gunnar Hólm formaður og Inga Erlingsdóttir starfsmaður safnaðarins. Sakkarías Ingólfsson guðfræðinemi predikar. Sunnudagaskólinn á samatíma. Aðalfundur safnaðarins verður svo eftir messuna í safnaðarheimilinu eins og boðað hefur verið til. Verið hjartanlega velkomin.

Páskakveðja frá presti

Kæru vinir.

Í dag er skírdagur, dagurinn sem Jesús átti sína síðustu kvöldmáltíð með lærisveinum sínum og sá sami dagur þar sem Jesús þvoði fætur lærisveina sinna. Í kvöldmáltíðinni undirstrikaði hann og innsiglaði eilífan vinskap við lærisveina sína og öll þau sem gengu í þann hóp þaðan í frá. Hann lofaði eilífri elsku og vinskap við okkur. Í fótaþvottinum sýndi hann hvernig elska hans birtist í þjónustunni við lærisveinanna. Meistarinn sjálfur setti sig í hlutverk þjónsins og sýndi fram á að enginn er fremri öðrum, ekkert starf er merkilegra en annað, öll störf eru jafn mikilvæg fyrir Guði. Að vera skír merkið að vera hreinn. Á skírdag sýndi Jesús okkur að við þurfum að vera skír bæði á líkama og sál.

Föstudagurinn langi er langur því hann er sorgardagur. Dagur þar sem Jesús er svikinn fyrir peninga. Traust er brotið og dauðinn nálgast.  Jesús er nelgdur á krossinn vegna svika og illsku manna. Sorgin tekur völdin og sorgin lætur tímann standa í stað. Dauðinn á krossinum var vinum Jesú óbærilegur og vonleysið tók völdin næstu þrjá sólarhringa. Þeir sáu ekki það sem við sjáum í dag að krossinn vísar ekki bara til heljar heldur líka til himins og með útbreiddann faðminn til okkar. Vinirnir þá vissu ekki það sem við vituma að á þriðja deginum Páskadegi gerðist undrið.

Á páskadag skín sólin aðeins skærara og það er bjartara yfir að líta. Jesús reis upp frá dauðum. Hann hitti konurnar sem vitjuðu grafarinnar og sendi þær af stað með mikilvægu fréttirnar, það mikilvæga fagnaðarerindi að lífið hafi sigrað dauðann. Að Jesús, Guðs sonur, væri upprisinn frá dauðum. Ótrúlegt! En svo satt! En sannleikurinn verður aðeins meðtekinn í trú á lífið. Í trú á kærleiksríkann Guð sem leggur allt í sölurnar fyrir okkur svo við megum hafa það gott, svo við megum upplifa elsku. Í trú á þau orð Jesús er hann segir: "Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið." Konurnar við gröfina tómu völdu veginn góða og það gerum við enn í dag.

Páskaboðskapurinn segir okkur að þjóna lífinu. Hugum að börnum okkar, maka, vinum og fjölskyldu allri án þess að gleyma þeim sem eiga engan að. Verið opin og tjáið kærleika ykkar og leyfið páskasólinni að verma vanga ykkar svo bros færist yfir ásjónu ykkar og færi bjarma til allra er verða á vegi ykkar.

Guð gefi ykkur kærleiksríka páskahátíð!

Arna Grétarsdóttir, prestur

Messa í Bergen

Messa í Bergen 21.mars kl.14 í Åsane kirkju. Fermingarbörnin taka þátt í messunni. Safnaðarstjórn Íslenska safnaðarins í Noregi taka þátt í messunni og verða til spjalls í messukaffinu. Íslendingafélagið í Bergen hefur umsjón með messukaffinu eins og venja er. Verið hjartanlega velkomin. Arna Grétarsdóttir prestur.