Fréttir

Sjálfstyrkingarnámskeið fyrir konur í Stavanger

Föstudagskvöldið 22. október kl.19-21 verður sjálfstyrkingarnámskeið í miðbæ Stavangurs.

Á námskeiðinu verður fjallað um sjálfstraust og samskipti; hvernig mótast sjálfsmynd
okkar og hvernig viðhelst hún? Einnig verður fjallað um hvernig við getum tamið
okkur meiri ákveðni í samskiptum. Gerðar verða Mindfulnessæfingar, farið í slökun,
íhugun og bæn. Spennandi námskeið sem gefur þátttakenndum nýja sýn og aukið
sjálfstraust.

Leiðbeinendur á námskeiðinu eru Eygló Sigmundsdóttir sálfræðingur og sr. Arna Grétarsdóttir.
Námskeiðið er á vegum safnaðarins og er þátttakendum að kostnaðarlausu.

Skráning og nánari upplýsingar hjá [email protected]

 

Barnakór

Barnakór var fromlega stofnaður eftir messu í gær, sunnudaginn 3. október. Barnakórinn mun syngja með Ískórinum og Pálma Gunnarssyni á aðventuhátíðinni 1.sunnudag í aðventu og ef vel tekst til í hátíðarguðsþjónustu annan jóladag.
Áformað er að æfa fjórum sinnum í tengslum við sunnudagaskólann og messur í Nordberg kirkju. Sunnudagaskólinn byrjar kl.14 og er í 50 mín. Barnakórsæfingarnar  hefjast strax á eftir. Barnakórinn er hugsaður fyrir börn á öllum aldri eða frá ca. 4 ára og upp úr. Æfð verða valin jólalög. Ketil Grötting kórstjóri Ískórsins mun stýra með aðstoð foreldra. Skráning fer fram hjá Ingu á skrifstofunni: [email protected] Einnig er velkomið að mæta á næstu æfingu og skrá börnin þar.

Sunnudagaskóli og barnakórsæfingar verða sem hér segir:

3. október kl.14            Messa/sunnudagaskóli og kóræfing; kynning og skráning
24. október kl.14          Sunnudagaskóli og kóræfing
7. nóvember kl.14        Messa/sunnudagaskóli og kóræfing
21.nóvember kl.14       Sunnudagaskóli og kóræfing
28. nóvember                Aðventuhátíð kl.14 – Mæting auglýst síðar.
19.desember kl.14      Sunnudagaskóli og kóræfing
 

Léttmessa í Nordberg kirkju í Ósló

Næstkomandi sunnudag 3. október kl.14 verður léttmessa í Nordberg kirkju í Ósló. Ískórinn mun taka létta sveiflu og börnin fá að njóta sín í söng og leik.  Að venju er kirkjukaffi á eftir í umsjón Íslendingafélagsins í Ósló. Verið hjartanleg velkomin. Þetta er upphaf sunnudagaskólans og hægt verður að skrá sig í barnakór aðventuhátíðarinnar.

Fermingarbörnin til Svíþjóðar

 Um helgina verður hópur fermingarbarna í fermingarbúðum í Svíþjóð. Börnin koma frá Noregi, Svíþjóð og Danmörku og fá fermingarfræðslu. Mikið líf og fjör er á þessum mótum enda hressir krakkar sem koma saman til að eiga samfélag og mörg vinatengslin myndast. Leikjum og fræðslu er fléttað saman og standa kvöldvökurnar með ýmis skemmtiatriðum og biblíuspurningakeppni hæst. Fermingarfræðslan hjá Íslenska söfnuðinum í Noregi hefst með þessari ferð og er svo að mestu fjarkennsla en prestur reyni að hitta fermingarbörnin á ferðum sínum um Noreg. Fermingarfræðslunni líkur svo með annarri helgarferð til Svíþjóðar í maí og fermingu hér í Noregi eða á Íslandi næsta sumar. 

Léttmessa í Fredrikstad 19.september kl.14

Guðsþjónustan verður í Østre Fredrikstad kirkju sunnudaginn 19.september kl.14.(Borgarveien 1, 1633 Gamle Fredrikstad). Ískórinn mun syngja og sunnudagaskólinn kynntur. Helga Kolbeinsdóttir og María Gunnarsdóttir guðfræðinemar ætla að vera með sunnudagaskóla einu sinni í mánuði.

Kaffi, meðlæti og spjall eftir stundina. Verið hjartanlega velkomin.

Leiðtogar í barnastarfi kirkjunnar á námskeið

 Elín Elísabet Jóhannsdóttir fræðslufulltrúi á Biskupsstofu er komin til Óslóar með leiðtoganámskeið fyrir leiðtoga í barnastarfi kirkjunnar. Leiðtogar íslensku safnaðanna hér í Noregi, Svíþjóð og Danmörku sækja námskeiðið ásamt prestum. Þetta er árvisst námskeið sem haldið er til skiptis í þessum löndum. Þar er farið yfir fræðsluefni komandi vetrar og nýjar aðferðir kenndar í boðun fagnaðarerindisins meðal barna og unglinga. 

Í vetur verður starfræktur sunnudagaskóli í Ósló, Drammen, Fredrikstad, Stavanger og Bergen. Leiðtogar eru allir með góða reynslu í að starfa með börnum og unglingum. Vetrarstarfið verður auglýst nánar í fréttabréfi safnaðins sem kemur út síðar í september. Sunnudagaskóli er starfræktur einu sinni til tvisvar í mánuði á þeim stöðum um landið þar sem leiðtogar eru til staðar.