Fréttir

Ólafíustofa lokuð frá 27. maí – 7. júní

Ólafíustofa verður lokuð næstu tvær vikur og opnar aftur 11. júní. Ef þurfa þykir er hægt að hafa samband í síma 450 79 733 og eða senda tölvupóst á [email protected]

Rúnar Sigríksson

Vígsla nýs sóknarprests

Það er okkur mikil ánægja að tilkynna að nýráðinn sóknarprestur Íslenska safnaðarins í Noregi, sr. Inga Harðardóttir, var vígð í embætti í dag í Dómkirkjunni í Reykjavík. Athöfnin fór vel fram og veðrið skartaði sínu fegursta.

Sr. Inga Harðardóttir hefur verið starfandi æskulýðsfulltrúi Hallgrímskirkju sl. 6 ár. Hún útskrifaðist með cand.theol gráðu frá Guðfræðideild Háskóla Íslands árið 2012 og var það sama ár ráðin til starfa í Hallgrímskirkju. Inga kom víða við á námsferli sínum og stundaði m.a. nám í myndlist og heimspeki áður en guðfræðin vann hug hennar allan. Hún söng einnig í Kór Menntaskólans við Hamrahlíð, Hamrahlíðarkórnum, og síðar Mótettukór Hallgrímskirkju, þar til hún hóf störf í kirkjunni. Það hefur nýst Ingu vel að hafa breiðan bakgrunn enda verkefnin fjölbreytt í kirkjulegu starfi en fyrir utan hefðbundið hópastarf barna og unglinga hefur hún m.a. unnið ötullega að tónlistarstundum fyrir ungabörn sem kallast Krílasálmar og einnig séð um fermingarfræðslu fermingarbarna Hallgrímskirkju frá því að hún hóf störf þar. Inga útbjó einnig verkefnið Jólin hans Hallgríms fyrir jólin 2015, byggt á bók Steinunnar Jóhannesdóttur, þar sem skólabörnum er boðið að koma í heimsókn í í sögustund í Hallgrímskirkju á aðventunni. Það verkefni hefur slegið í gegn og hafa nokkur þúsund skólabörn notið þessara stunda í kirkjunni á aðventunni og er enn mikil aðsókn í ár. Inga er gift Guðmundi Vigni Karlssyni, tónlistarmanni, og eiga þau þrjú börn.

Biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, vígir Ingu Harðardóttir til prests í Dómkirkjunni.

Að lokinni vígslu: Sr. Inga Harðardóttir (til hægri) ásamt forvera sínum sr. Þórey Guðmundsdóttur.

Fyrstu verkefni Ingu verður að þjóna til altaris við tvær fermingarguðsþjónustur safnaðarins. Sú fyrri verður í Ósló þann 10. júní nk. og sú seinni þann 7. júlí í Seltjarnarneskirkju. Fermingarguðsþjónustan í Ósló fer fram í Nordberg kirkju og hefst kl. 14.00. Sr. Inga mun taka formlega við störfum þann 1. ágúst 2019.

Stjórn Íslenska safnaðarins í Noregi býður sr. Ingu velkomna til starfa og væntir mikils af henni í komandi stöfum sem sóknarprestur. Hvetjum við fólk til að fjölmenna til kirkju og taka vel á móti okkar nýja sóknarprest.

Atvinnutækifæri fyrir fólk sem finnst gaman að vinna með börnum og unglingum

Ertu leiðtogi? … og finnst gaman að vinna með börnum og unglingum?

 

Íslenski söfnuðurinn í Noregi auglýsir eftir starfsfólki í barna- og unglingastarf víðsvegar um Noreg.

Um er að ræða starf fyrir þrjá ólíka aldurshópa þ.e. sunnudagaskóla fyrir yngstu börnin og fjölskyldur þeirra, TTT starf fyrir 10-12 ára börn og unglinga. Til að byrja með verður miðað við einn viðburð í hverjum mánuði.  Söfnuðurinn býður upp á stuðning og fræðslunámskeið í leiðtogafræðum í ágúst á hverju ári. Um launað starf er að ræða í öllum tilvikum.

Við leitum eftir starfsfólki sem hefur gaman af að vinna með börnum á ólíkum aldri. Við stefnum á að hafa virkt starf fyrir þessa aldurshópa á eftirfarandi stöðum: Osló, Sandefjord, Bergen, Stavanger, Þrándheimi, Tromsø, Haugasundi, Álasundi og Kristiansand. Við hvetjum sem flesta til að sækja um og vinna að hag og velferð íslenskra barna í leik og starfi.

Umsóknir sendist á [email protected] fyrir 1. júlí 2019. Nánari upplýsingar gefur Rebekka Ingibjartsdóttir í síma 948 63 356.

Vorferð eldri borgara 60+ fimmtudaginn 23. maí 2019

Framundan er árleg ferð eldri borgara. Mæting í Ólafíustofu kl. 09.30 en lagt verður af stað kl. 10.00 og keyrt áleiðis með rútu í átt að Hønefoss. Þar verður fyrsta stopp og má eiga von á óvæntum gesti við Veien Kulturminnepark. Frá Hønefoss verður haldið til Granavolden. Þar verður Steinhuset skoðað ásamt Systrakirkjunum og endað á Granavolden Gjestgiveri. Sjá dagskrá hér undir:

 

Dagskrá

Innlandet (Hønefoss/Kistefoss/Granavolden)

1. Hittingur og morgunhressing í Ólafíustofu kl. 09.30

2. Rúta frá Ólafíustofu kl. 10.00 áleiðis til Hønefoss

3. Fyrsta stopp Veien Kulturminnepark kl. 11.15 – 12.15

4. Granavolden – Leiðsögn um Steinhuset kl. 13.15 – 13.45. Leiðsögn á norsku annast Anne Lise Jorstad.

5. Tvíréttað á Granavolden Gjestegiveri kl. 14.30 – Framreiddur verður kjúklingaréttur með grænmeti og sætri kartöflu. Eftirréttur sem samanstendur af suðrænum ávöxtum og ostakremi ásamt kaffi.

6. Granavolden – Leiðsögn um Søstrekirkene kl. 16.15. Leiðsögn á norsku annast Grete F Solheim.

7. Rúta áleiðis til Oslo kl. 17.00 og áætlaður komutími í Ólafíustofu er kl. 18.30

 

Þátttaka tilkynnist fyrir 16. maí til formanns á tölvupóstfang [email protected] og/eða með SMS í síma 450 79 733.

Þátttakendur greiða einungis fyrir veitingar á Granavolden Gjestgiveri og skv. tilboði frá þeim þá gerir það 315 nkr. pr/pers.

Sjómannadagsguðsþjónusta í Tromsø 2. júní 2019 kl. 15.00

Það hefur skapast hefð að standa fyrir sjómannadagsguðsþjónustu í Tromsø hvert ár á degi sjómanna. Þetta árið þá ber sjómannadagurinn upp á sunnudaginn 2. júní. Guðsþjónustan verður í Grønnåsen kirkju og hefst kl. 15.00. Kirkjan liggur við Dramsvegen 203. Sr. Arndís Ósk Hauksdóttir, prestur í Steinkjær, mun þjóna fyrir altari. Tónlistarflutningur verður í höndum Íslendingafélagsins sem og kirkjukaffið. Hvet alla Íslendinga í Tromsø og nágrenni til að fjölmenna til messu og hafa gaman af.

Skráning í fermingarfræðsluna fyrir veturinn 2019-2020 er hafin

Innritun fer fram á heimasíðu safnaðarins www.kirkjan.no (linkur á skráningareyðublað til hægri á heimasíðu).

Börn sem sækja fermingarfræðslu Íslenska safnaðarins þurfa að sækja 10 guðsþjónustur og sitja alls 10 fræðslufundi í Ólafíustofu. Fundirnir eru ávallt í tengslum við guðsþjónustur safnaðarins í Nordberg kirkju í Ósló. Fundirnir hefjast kl. 11.00 og guðsþjónustur kl. 14.00. Við tökum vel á móti foreldrum og öðrum fjölskyldumeðlimumsem fá leiðsögn um nágrenni Ólafíustofu meðan á fræðslu stendur.

Þau börn sem búa utan Óslóar og eiga ekki heimangengt vegna fjarlægðar munu fá möguleika til að vera virkir þátttakendur á öllum fræðslufundum í gegnum fjarfundarbúnað. Fundirnir eru sendir út og með aðstoð tækninnar eru samskiptin gagnvirk.

Auk fræðslufunda og guðsþjónusta verður öllum þátttakendum safnað saman 1-3 sinnum á árinu og yfir helgi.

Fyrsti fundur fermingarhóps næsta árs er sunnudaginn 12. maí kl. 11.00 í Ólafíustofu. Nánara fyrirkomulag fræðslunnar verður auglýst nánar síðar og skipulagt eftir búsetudreifingu þátttakenda.

 

Fermingardagar fyrir 2020  á vegum íslensku kirkjunnar í Noregi:

• Mánudaginn 1. júní kl. 14.00 (annar í hvítasunnu) í Nordberg kirkju í Osló.

• Sunnudaginn 28. júní kl. 12.00 í Seltjarnarneskirkju á Íslandi.

 

Aðrar dagsetningar og staðsetningar í Noregi eftir samkomulagi við presta íslensku kirkjunnar.

Aðalsafnaðarfundur 5. maí

Aðalsafnaðarfundur verður haldinn sunnudaginn 5. maí í Nordberg kirkju. Guðsþjónusta hefst kl. 14.00 og að henni lokinni hefst fundurinn í safnaðarheimilinu, en gert er ráð fyrir að sjálfur aðalfundurinn hefjist kl. 15:30. Hefðbundin aðalfundarstörf ásamt kosningum.

 

Dagskrá aðalsafnaðarfundar samkvæmt lögum safnaðarins:

a.  Formaður kannar hvort til fundar sé löglega boðað

b.  Kosning fundarstjóra og fundarritara

c.  Skýrsla formanns

d.  Stefna stjórnar

e.  Skýrsla sóknarprests

f.  Fjárhagsáætlun og ársreikningar lagðir fram

g.  Tillögur

h. Kosning í stjórn og aðrar nefndir.

i. Önnur mál

 

Skjöl er lögð verða fram á fundinum verða að finna hér á heimasíðunni, undir “Söfnuðurinn/Ársskýrslur”.

 

Undir lið h þarf að kjósa:

Stjórn Íslenska safnaðarins

– 2 í varastjórn (Kristján Daðason og Snorri Ásgeirsson ganga úr varastjórn)

 

Ólafíusjóður

– 2 í varastjórn Ólafíusjóðs (engir varamenn eru til staðar)

 

Nefndir

– 5 í listanefnd (endurvekja þarf nefndina)

– 2 í kjörnefnd (núverandi nefndarmeðlimir eru Sturla Jónsson og Rannveig María Gísladóttir)

– 2 innri endurskoðendur (núverandi innri endurskoðendur eru Þórhallur Guðmundsson og Ómar Diðriksson)

 

Framboð þurfa að hafa borist kjörnefnd fyrir 29. apríl.

Áhugasamir hafi samband við kjörnefnd safnaðarins: Sturlu Jónsson, formann nefndarinnar, í síma 905 68 173 eða Rannveigu Maríu Gísladóttir, í síma 905 51 583.

 

Um aðalsafnaðarfund segir m.a í 2.gr. laga safnaðarins:

• Aðalsafnaðarfundur fer með ákvörðunarvald safnaðarins í málum þeim sem undir fundinn heyra samkvæmt lögum eða lögmætum ákvörðunum.

• Aðalsafnaðarfundur er vettvangur starfsskila og reiknisskila af hendi stjórnar safnaðarins og einstakra nefnda á vegum safnaðarins. Þar skulu rædd málefni safnaðarins, þar á meðal þau mál sem lögmælt er að undir fundinn séu borin.

• Aðalsafnaðarfund skal að jafnaði halda fyrir maí lok. Til hans skal boðað með fjögurra vikna fyrivara.

• Aðra safnaðarfundi skal halda ef meirihluti stjórnar safnaðarins óskar þess, eða 150 safnaðarmanna sem atkvæðisrétt hafa á safnaðarfundum.

• Safnaðarmenn njóta kosningarréttar og kjörgengis á safnaðarfundum þegar þeir eru fullra sextán ára.

• Tillögur til aðalfundar skulu berast safnaðarstjórn á netfangið [email protected] fyrir 1. mars ár hvert. Tillögur sem berast eftir 1. mars verða ekki teknar til umræðu.

Þann 8. febrúar mun söfnuðurinn hefja TTT starf í Ósló.

TTT klúbburinn er fyrir tíu til tólf ára krakka. Fyrsta samkoman er áætluð þann 8. febrúar og svo í framhaldinu aðra hverja viku á föstudögum í Ólafíustofu kl. 17.30-19.00.  Þar er margt skemmtilegt gert m.a. leikir, föndur, fræðsla, helgistundir og fleira. Þetta verður leikandi skemmtilegur vetur!

Allir krakkar í 5 – 7. bekk eru velkomnir og þátttaka er ókeypis.

Umsjón hefur Jónína M Arnórsdóttir ásamt ungliðum úr æskulýðsstarfinu.

Fjölskylduguðsþjónusta kl. 14.00 sunnudaginn 3. febrúar í Nordberg kirkju

Í fyrstu atrennu er það okkur mikil ánægja að kynna til leiks fyrri umsækjandann um stöðu sóknarprests, Ingu Harðardóttur, sem er starfandi æskulýðsfulltrúi Hallgrímskirkju. Hún útskrifaðist með cand.theol gráðu frá Guðfræðideild Háskóla Íslands árið 2012 og var það sama ár ráðin til starfa í Hallgrímskirkju. Inga kom víða við á námsferli sínum og stundaði m.a. nám í myndlist og heimspeki áður en guðfræðin vann hug hennar allan. Hún söng einnig í Kór Menntaskólans við Hamrahlíð, Hamrahlíðarkórnum, og síðar Mótettukór Hallgrímskirkju, þar til hún hóf störf í kirkjunni.

Það hefur komið sér vel að hafa breiðan bakgrunn enda verkefnin fjölbreytt í kirkjulegu starfi en fyrir utan hefðbundið hópastarf barna og unglinga hefur Inga m.a. unnið ötullega að tónlistarstundum fyrir ungabörn sem kallast Krílasálmar og einnig séð um fermingarfræðslu fermingarbarna Hallgrímskirkju frá því að hún hóf störf þar. Inga útbjó einnig verkefnið Jólin hans Hallgríms fyrir jólin 2015, byggt á bók Steinunnar Jóhannesdóttur, þar sem skólabörnum er boðið að koma í heimsókn í í sögustund í Hallgrímskirkju á aðventunni. Það verkefni hefur slegið í gegn og hafa nokkur þúsund skólabörn notið þessara stunda í kirkjunni á aðventunni og er enn mikil aðsókn í ár.

Inga er gift Guðmundi Vigni Karlssyni, tónlistarmanni, og eiga þau þrjú börn.

Inga Harðardóttir mun þjóna fyrir altari í fjölskylduguðsþjónustu sunnudaginn 3. febrúar í Nordberg kirkju í Ósló. Hún byrjar daginn á að leiða fermingarfræðslu í Ólafíustofu áður en sjálf kirkjuathöfnin hefst. Að lokinni athöfn mun Inga kynna sig nánar fyrir krikjugestum og meðlimum safnaðarins í safnaðarheimili Nordberg kirkju. Jafnframt mun hún svara spurningum kirkjugesta ef einhverjar eru.

 

Fjölskylduguðsþjónusta kl. 14.00 sunnudaginn 7. apríl í Nordberg kirkju

Sr. Jóna Lovísa Jónsdóttir mun þjóna fyrir altari í fjölskylduguðsþjónustu í Nordberg kirkju sunnudaginn 7. apríl. Við munum kynna Jónu Lovísu til leiks þegar nær dregur guðsþjónustunni í apríl.

 

Hvetjum meðlimi til að fjölmenna til kirkju

Stjórn Íslenska safnaðarins vill hvetja sem flesta safnaðarmeðlimi til að fjölmenna til kirkju nú sem áður og þá sérstaklega til þessarra tveggja guðsþjónusta. Það er okkur mikið metnaðarmál og tilhlökkun að fá að kynnast umsækjendum betur enda lofa umsóknirnar góðu. Stöndum saman, verum virk og mætum til kirkju!

Tveir umsækjendur um stöðu ný sóknarprests

Stjórn Íslenska safnaðarins hefur í samvinnu við Biskupsstofu unnið að auglýsingu og ráðningarferli sóknarprests og hefur það skilað tveimur umsóknum, en umsóknarfrestur rann út þann 21. janúar. Eins og áætlanir gera ráð fyrir þá munum við vinna úr þessum umsóknum og vanda það ferli eins og kostur er. Umsækjendur um stöðuna eru þær Inga Harðardóttir, fræðslufulltrúi Hallgrímskirkju og sr. Jóna Lovísa Jónsdóttir, prestur í norsku kirkjunni.

Báðir umsækjendur munu fá tækifæri til að þjóna fyrir altari í Nordberg kirkju áður en lokaákvörðun verður tekin um hvor þessarra umsækjenda fái starfstilboð um stöðu sóknarprests. Í fyrstu atrennu mun Inga Harðardóttir þjóna fyrir altari sunnudaginn 3. febrúar í Nordberg kirkju og byrjar athöfnin kl. 14.00.

Stjórn safnaðarins reiknar með að ráðningarferlinu ljúki fyrir páska og niðurstaða liggi fyrir í lok apríl eða fyrir aðalfund þann 5. maí.