Skírn

11014979_10152721245251045_1500624356573048506_nPrestar Íslenska safnaðarins skíra börn fyrir Íslendinga búsetta í Noregi.

Skírnin getur farið fram hvort heldur sem er í guðsþjónustum safnaðarins, norskum kirkjum og kapellum sem fengnar eru að láni eða í heimahúsi, allt eftir samkomulagi. Ekkert gjald er tekið fyrir skírn hjá söfnuðinum.

Þegar prestur skírir barn færir hann skírnarskýrslu og skráir í íslenska kirkjubók og sendir til Þjóðskrár á Íslandi. Við skírn þarf að leggja fram ljósrit af fæðingarvottorði skírnarþega. Foreldrar þurfa sjálfir að senda fæðingarvottorð til Þjóðskrár á Íslandi með beiðni um skráningu í þjóðskrá til að barnið fái íslenska kennitölu og þar með íslenskt vegabréf.

Skírn er um leið skráning í þjóðkirkju Íslands og þar með Íslenska söfnuðinn í Noregi.

Hægt er að senda póst á skrifstofu safnaðarins til að bóka skírn eða hafa beint samband við

sr. Ingu prestur@kirkjan.no.

Hvað er skírn?
Í heilagri skírn er skírnþegi tekinn inn í kirkju Krists. Í hinni evangelisk – lúthersku kirkju, sem Þjóðkirkjan er hluti af, er algengast að barn sé skírt meðan það enn er ómálga.

Samkvæmt fyrirmælum Jesú Krists er barn skírt til nafns föður og sonar og heilags anda. Það er helgað Guði með Orði hans og bæn og ausið vatni.
Meginreglan er sú að barn sé skírt í kirkju og að viðstöddum söfnuði eða fulltrúum hans, en gömul hefð er fyrir því á Íslandi að skírn geti farið fram á heimili barnsins.
Gömul hefð er einnig fyrir því að barnið sem skírt er sé fært í hvítan skírnarkjól sem er tákn fyrirgefningar syndanna. Kjóllinn er síður, sem táknar það að skírnarbarnið á að vaxa í trú, von og kærleika.
Aðstandendur velja barninu skírnarvotta. Skírnarvottar heita einnig guðfeðgin og eru þau aldrei færri en tvö, karl og kona (eins og felst í orðinu), en mest geta verið fimm. Æskilegt er að í það minnsta eitt guðfeðginana sé á þeim aldri að það geti fylgt barninu eftir til fullorðinsára. Foreldrar og guðfeðgin játa trúna fyrir hönd barns síns og skuldbinda sig þar með til að ala barnið upp í kristinni trú.
Jesús sagði: ,,Allt vald er mér gefið á himni og á jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður. Sjá ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.” Mt.28.18-20.
Þessi kafli úr Mattheusarguðspjalli er kallaður innsetningarorð skírnarinnar eða kristniboðsskipunin. Þegar foreldrar bera barn sitt til skírnar eru þau að hlýða henni.

(heimild: www.kirkjan.is)
Hafið endilega samband við prest safnaðarins til að fá nánari upplýsingar.