Hjónavígsla

Eldri-borgarar-2Prestar Íslenska safnaðarins í Noregi geta vígt í hjónband ef annað hjónaefna er með íslenskan ríkisborgararétt.

Hjónaefni þurfa að útvega sér hjónavígsluvottorð (no. prøvingsattest) hjá skattayfirvöldum í Noregi (no. skatteetaten) ef þau hafa verið búsett í landinu skemur en 6 mánuði þarf að útvega hjónavígsluvottorð frá því landi sem búið var í og láta fylgja umsókn til skattayfirvalda hér.

Hjónavígsla getur ekki farið fram ef hjónavígsluvottorð berst ekki presti fyrir athöfn.

Kirkjuleg hjónavígsla er helgiathöfn þar sem tveir einstaklingar, karl og kona, tvær konur eða tveir karlar heita hvort öðru ævitryggðum.

Hjónin játast hvort öðru opinberlega fyrir Guði og mönnum, heita því að vera hvort öðru trú, elska og virða hvort annað. Prestur minnir þau á skuldbindingar, ábyrgð og fyrirheit hjónabandsins, lýsir þau hjón og leggur blessun Guðs yfir hjúskap þeirra. Söfnuðurinn biður fyrir hjónabandi þeirra og heimili.

Megin reglan er að gifting fari fram í kirkju en heimild er fyrir því að gifting fari fram á heimili eða utan húss. Minnst skulu tveir vottar vera viðstaddir athöfnina þ.e svaramennirnir en oftast eru það fleiri svo sem vinir og fjölskylda.

Ekkert gjald er tekið fyrir hjónavígslu og söfnuðurinn greiðir fyrir kirkjuleigu og organista.

Hægt er að bóka hjónavígslu á skrifstofu safnaðarins eða með því að hafa samband við presta safnaðarins.

Undirbúningur hjónaefna:

 

Venjulega hittir prestur hjónaefni fyrir vígslu 1 – 3 sinnum ef vegalengdir hamla því ekki. Farið er yfir samtalspunkta sem sjá má hér að neðan sem og athöfnina sjálfa. Hafið samband með því að senda tölvupóst eða hringja.

IMG_0497Hjónaband og fjölskyldan
– Samtalspunktar fyrir verðandi brúðhjón –

Samskipti
Hvað gerið þið til að rækta samband ykkar?
Hvernig vilduð þið rækta sambandið?
Hvernig tjáið þið tilfinningar ykkar? (Ást, sorg, gleði, reiði, þreytu, vellíðan, óánægju o.s.frv.)
Hvernig leysið þið ágreining?

Viðhorf ykkar til
a) að leita til þriðja aðila í þrengingum eða erfiðum tímapunktum í lífinu.
b) atvinnu/náms hvors annars.
c) trúmála – Hver er ykkar trúarafstaða?
d) lífsins – Hver eru ykkar lífsgildi?

Fjölskylda og vinir
Hvernig er samskiptum ykkar háttað við tengdafjölskyldu og/eða aðra í stórfjölskyldu?
Hvernig og hvaða áhrif hefur hún á ykkar samband?
Hvernig er samskiptum ykkar háttað við vini?
Hvernig og hvaða áhrif hafa þeir á ykkar samband?
Hvernig er ykkar fjölskylda?

Hver eru framtíðarplön varðandi
a) barneignir
b) atvinnu ykkar eða nám
c) húsnæði/búsetu

Viðhorf ykkar til
a) barnauppeldis
b) þess að leggja rækt við fjölskyldubönd
c) þess að leggja rækt við vináttubönd

Að reka “fyrirtækið” Hjónaband ehf

Heimilishald
a) uppvask
b) þvottur
c) hreingerning/tiltekt
d) matreiðsla
e) innkaup
f) bíllinn

Fjármál
a) skiptur fjárhagur
b) sameiginleg ábyrgð
c) ákvarðanir varðandi fjárfestingar

Stóra spurningin!
Hvers vegna vilt þú ganga að eiga NN?
Lýstu maka þínum í nokkrum setningum.
Hvert hjónaefna fyrir sig svari. Sumum fellur betur að skrifa niður á blað hugsanir sínar.
Hafið endilega samband ef e-ð kemur upp í samræðum ykkar sem þið vilduð ræða frekar undir minni handleiðslu.

Gangi ykkur vel og Guð blessi ykkur!

Til að fá nánari upplýsingar um hjónavígslur hjá söfnuðinum hafið samband við prest safnaðarins.

sr. Inga Harðardóttir

prestur@kirkjan.no