Nýtt upphaf

sápukúlur

Gleðidagar er tímabil í kirkjunni. Vissuð þið það? Dagarnir frá páskum og að hvítasunnu eru kallaðir gleðidagar! Eftir tímabil iðrunar á föstunni fáum við gleðidaga í 40 daga þar sem textarnir eru vonarríkir og kallast á við vorið og vonina sem birtist okkur á þeim árstíma. En heimurinn okkar hefur ekki upplifað gleðidaga síðustu vikur. Heimsfaraldurinn, gjörbreytt hversdagslíf, týnd framtíðarsýn og yfirvofandi ógn, þetta er búið að reyna á í margar vikur og á eftir að reyna á í langan tíma framundan.

Einn af mörgum vonartextum gleðidaganna er eignuð Jesaja spámanni:

Svo segir Drottinn sem lagði veg yfir hafið
og braut yfir hin ströngu vötn,

Minnist hvorki hins liðna
né hugleiðið það sem var.
Nú hef ég nýtt fyrir stafni,
nú þegar vottar fyrir því,
sjáið þér það ekki?
Ég geri veg um eyðimörkina
og fljót í auðninni.

Textar Biblíunnar tala við okkar innra sjálf, við kjarnann í okkur, við sálina okkar, sjálfið, tilfinningalífið, en líka við raunveruleikann. Við megum treysta því að auðnin innra með okkur, kvíðinn og óttinn sem við þekkjum sennilega flest þessa dagana, er tímabil til að fara í gegnum og finna leiðina út úr. Við megum líka treysta því og trúa að aðstæður okkar í lífinu verði ekki bara auðn og eyðimörk, heldur að við finnum nýjar leiðir til að lifa lífinu og bregðast við aðstæðum.

Hvernig mannkyni hefur tekist að breyta hegðun sinni á svo skömmum tíma gefur okkur von! Það að milljónir milljónir manna með ólíka menningu og tungumál, aðstæður og samfélagsgerð – að allt þetta fólk, venjulegt fólk með enga ofurkrafta eða sérgáfu, ég og þú, hafi brugðist hratt og fljótt við ógninni gefur okkur von. Og flestir hafa lagt allt þetta á sig fyrir aðra, fyrir samfélagið, fyrir þau öldruðu, þau í áhættuhópi, fyrir heilbrigðiskerfið.

Nú horfum við fram á bjartari daga, samfélagið okkar hér í Noregi er smám saman að fara aftur af stað, og á Íslandi gengur það jafnvel enn hraðar fyrir sig. Við erum farin að sjá veginn í eyðimörkinni, það glittir í vinaknúsin, veislurnar, vinnuna, ferðalögin.

En ætlum við að leita aftur í það gamla? Viljum við að allt verði eins og það var áður? Viljum við hafa jafn mikið að gera og áður? Jafn mikla mengun? Eða er vaxtarmöguleikinn í þessari krísu einmitt falinn í því að við fáum tækifæri til að hafa nýtt fyrir stafni?

Nú hef ég nýtt fyrir stafni. Ég vona að við getum tekið þessari hvatningu um að dvelja ekki um of í fortíðinni heldur horfa fram á veginn til nýrra lífshátta. Ég vona að við getum fundið kjark til þess að leggja af stað inn í nýja tíma, sem núna líta út eins og eyðimörk og auðn, og treysta því að það muni blessast.  Að þó við sjáum það ekki núna þá munum við finna nýjar leiðir, ný tækifæri opnast, og leiðir sem við vissum ekki af munu birtast okkur.

Ég hlakka til þegar við hittumst á nýjan leik, þegar messurnar og messukaffið, kóræfingar, tónleikar, veislur, hversdagsspjall og hátíðarstundir geta aftur sameinað okkur, þegar við getum haft nýtt fyrir stafni – saman.

Guð gefi ykkur von og gleði á gleðidögum.

Með kærri kveðju,

Inga