Til foreldra fermingarbarna sem fermast áttu í vor.

blómstrandi túlípanar að vori

Kæru foreldrar fermingarbarna

Það er farið að birta til í kófinu og fyrir það erum við þakklát. Það lítur út fyrir að leyfilegur fjöldi samkomugesta verði kominn upp í 100 manns á Íslandi í júní. Út frá samkomutakmörkunum ætti því að ganga upp að halda sjálfa fermingarathöfnina, með ákveðnum varúðarráðstöfunum og með því að fylgja öllum smitvarnarreglum.

Það er samt ennþá allt óljóst með samgöngur til Íslands á næstu vikum og skv. upplýsingum frá Sendiráði Íslands í Noregi eru viðræður um opnun á milli Norðurlandanna enn á frumstigi og því miður ekki hægt að segja neitt til um framhaldið. Eins er ljóst að ráðstafanir um tveggja vikna sóttkví við komu til Íslands verður ekki aflétt 15. maí heldur framlengt um óákveðinn tíma. Við höfum lært á síðustu vikum að það getur breyst með stuttum fyrirvara en óvissan er samt mjög óþægileg og kannski líður okkur öllum aðeins betur ef við miðum ferminguna á Íslandi við nýja dagsetningu seinna í sumar.

Fermingardagarnir sem ég legg til eru því eftirfarandi:

  • 9. ágúst 2020 í Háteigskirkju í Reykjavík kl. 14.00
  • 6. september 2020 í Osló
  • 27. júní 2021 á Íslandi
  • Einkaathöfn

Við erum líka tilbúin að vera með litlar fermingarathafnir fyrir eitt fermingarbarn eða nokkur fermingarbörn saman – t.d. í kirkju sem er nálægt ykkar heimili hér í Noregi.

Mig langar að biðja ykkur um að vinsamlegast svara í tölvupósti og láta vita hvaða möguleika ykkur líst best á.

Látið mig líka endilega vita ef enginn af ofantöldum dagsetningum hentar, eða ef þið sjáið fram á að geta verið á Íslandi 28. júní 2020 og viljið halda ykkur við þann fermingardag. Við eigum Háteigskirkju bókaða bæði 28. júní og 9. ágúst.

Ykkur er svo alltaf velkomið að hringja ef þið viljið ræða eitthvað nánar.

Með hlýjum kveðjum í norska vorinu,

Inga