Ævintýra- og ofurhetjudagur

Sunnudaginn 1.mars var haldinn ævintýra- og ofurhetjudagur fyrir stóra og smáa í sænsku Margareta kirkjunni.  Þar mættu til leiks og söngs allskonar ævintýrafígurur og ofurhetjur af ýmsum toga. Sungin voru lög úr kvikmyndum og ævintýrum og íslenski barnakórinn söng nokkur lög með góðum stuðningi þeirra sem mættir voru. Eftir krafmikla söngstund fóru gestir á milli bænastöðva sem staðsettar á fleiri stöðum í kirkjunni. Þar var velt upp alls kyns spurningum um hinar ýmsu tilfinningar til hugleiðinga og umræðu. Þá var t.d. hægt að hengja bænabönd á tré, prófa eigið hugrekki, búa til sína eigin ofurhetjuskikkju og ekki minnst blása sápukúlur um alla kirkju. Eftir bænastöðvarnar komu allir saman og sungu Hakuna Matata og úr varð örugglega einn stærsti kór Íslendinga í Noregi.

Síðust en alls ekki síst voru svo Íþróttaálfurinn og Solla Stirða mætt til að skemmta, eitthvað sem margir biðu eftir og börnin létu ekki segja sér það tvisvar að hoppa og dansa með þessu sprellfjöruga pari.

Við erum virkilega þakklát þeim fjölmörgu sem mættu og skemmtu sér með okkur þennan dag  og það gladdi okkur mjög að sjá svona marga í öllum regnbogans litum.

Hjartans þakkir fyrir komuna.