Fermingarfræðslan fer af stað

Fermingarbörn sumarsins!

Fermingarfræðslan hjá Íslenska söfnuðinum er aðeins öðruvísi en hjá öðrum kirkjum þar sem fermingarbörnin eru dreifð um allan Noreg en öll fermingarbörnin taka þátt, sum með því að mæta í Ólafíustofu í Osló en önnur eru með á netinu. Við notum fjölbreytta og skapandi kennsluhætti, veltum lífinu og tilverunni fyrir okkur og vinnum allskonar verkefni tengd umfjöllunarefnum fermingarfræðslunnar en umfjöllunarefnin eru m.a. hamingjan, áföll, trú og efi, góðverk, Guð, Jesús, leyndardómar, traust, Biblían, sögur, vatn, kirkjan, vinátta, samskipti, sjálfsvirðing, kærleikur, gleði, fyrirgefning og margt fleira!

Fermingarfræðslan hefst með fermingarbarnahelginni í Norefjell 13.-15. september og vonumst við til að sjá öll fermingarbörnin þar, því þar ætlum við að kynnast hvert öðru og sjálfum okkur í skemmtilegri og fræðandi dagskrá. Eftir góðan samhristing í upphafi verða samskipti og samstarf í vetur auðveldari og ánægjulegri – líka í gegnum netið – og því hvetjum við ykkur til að taka þátt í þessari helgi. Söfnuðurinn stendur straum af öllum ferðakostnaði fermingarbarnanna og Margrét Björnsdóttir, starfsmaður Ólafíustofu, getur aðstoðað við að skipuleggja ferðalagið.
Hluti af fermingarfræðslunni er að mæta nokkrum sinnum yfir veturinn í kirkju, og það geta öll fermingarbörn gert í sinni heimabyggð, auk þess sem við hvetjum ykkur til að koma í messur Íslenska safnaðarins í Osló eða í nágrenni ykkar þegar það á við.

Inga Harðardóttir, prestur og Jónína Margrét Arnórsdóttir, formaður safnaðarstjórnarinnar, munu sjá um kennsluna í vetur, og Rebekka Ingibjartsdóttir, umsjónarmaður æskulýðsstarfsins verður með í fermingarbarnahelginni í september, en hún sér líka um barna- og unglingastarfið í Osló.

Vinsamlegast sendið tölvupóst á starfsmaður@kirkjan.no eða prestur@kirkjan.no með upplýsingum um fermingarbarnið til að skrá það í fermingarfræðslu. Þar þarf að koma fram nafn, símanúmer og heimilisfang fermingarbarnsins og foreldranna, hvort fermingarbarnið hafi tök á að mæta í Osló eða vilji nýta sér fjarkennsluna. Einnig þarf að koma fram hvort fermingarbarnið mæti á fermingarbarnahelgina í Norefjell. Ef það er eitthvað sérstakt sem við þurfum að vita má setja það með eða slá á þráðinn til Ingu í síma 40 55 28 00.