Fjölskylduguðsþjónusta kl. 14.00 sunnudaginn 3. febrúar í Nordberg kirkju

Í fyrstu atrennu er það okkur mikil ánægja að kynna til leiks fyrri umsækjandann um stöðu sóknarprests, Ingu Harðardóttur, sem er starfandi æskulýðsfulltrúi Hallgrímskirkju. Hún útskrifaðist með cand.theol gráðu frá Guðfræðideild Háskóla Íslands árið 2012 og var það sama ár ráðin til starfa í Hallgrímskirkju. Inga kom víða við á námsferli sínum og stundaði m.a. nám í myndlist og heimspeki áður en guðfræðin vann hug hennar allan. Hún söng einnig í Kór Menntaskólans við Hamrahlíð, Hamrahlíðarkórnum, og síðar Mótettukór Hallgrímskirkju, þar til hún hóf störf í kirkjunni.

Það hefur komið sér vel að hafa breiðan bakgrunn enda verkefnin fjölbreytt í kirkjulegu starfi en fyrir utan hefðbundið hópastarf barna og unglinga hefur Inga m.a. unnið ötullega að tónlistarstundum fyrir ungabörn sem kallast Krílasálmar og einnig séð um fermingarfræðslu fermingarbarna Hallgrímskirkju frá því að hún hóf störf þar. Inga útbjó einnig verkefnið Jólin hans Hallgríms fyrir jólin 2015, byggt á bók Steinunnar Jóhannesdóttur, þar sem skólabörnum er boðið að koma í heimsókn í í sögustund í Hallgrímskirkju á aðventunni. Það verkefni hefur slegið í gegn og hafa nokkur þúsund skólabörn notið þessara stunda í kirkjunni á aðventunni og er enn mikil aðsókn í ár.

Inga er gift Guðmundi Vigni Karlssyni, tónlistarmanni, og eiga þau þrjú börn.

Inga Harðardóttir mun þjóna fyrir altari í fjölskylduguðsþjónustu sunnudaginn 3. febrúar í Nordberg kirkju í Ósló. Hún byrjar daginn á að leiða fermingarfræðslu í Ólafíustofu áður en sjálf kirkjuathöfnin hefst. Að lokinni athöfn mun Inga kynna sig nánar fyrir krikjugestum og meðlimum safnaðarins í safnaðarheimili Nordberg kirkju. Jafnframt mun hún svara spurningum kirkjugesta ef einhverjar eru.

 

Fjölskylduguðsþjónusta kl. 14.00 sunnudaginn 7. apríl í Nordberg kirkju

Sr. Jóna Lovísa Jónsdóttir mun þjóna fyrir altari í fjölskylduguðsþjónustu í Nordberg kirkju sunnudaginn 7. apríl. Við munum kynna Jónu Lovísu til leiks þegar nær dregur guðsþjónustunni í apríl.

 

Hvetjum meðlimi til að fjölmenna til kirkju

Stjórn Íslenska safnaðarins vill hvetja sem flesta safnaðarmeðlimi til að fjölmenna til kirkju nú sem áður og þá sérstaklega til þessarra tveggja guðsþjónusta. Það er okkur mikið metnaðarmál og tilhlökkun að fá að kynnast umsækjendum betur enda lofa umsóknirnar góðu. Stöndum saman, verum virk og mætum til kirkju!