Fermingarfræðsla veturinn 2018-2019

Upphaf fermingarfræðslunnar er 7. október kl. 11.00 í Ólafíustofu

 Ég vil byrja á því að bjóða ykkur hjartanlega velkomin til þessarar samfylgdar sem fermingarfræðslan er. Fermingarfræðslan hér í Noregi hefur aðallega falist í helgarfræðslu yfir 2 helgar, haust og vor. Síðustu ár hafa verið þungbær fyrir söfnuðinn þá sérstaklega fjárhagslega og hefur það haft áhrif á starfið síðustu tvö ár. Nú sjáum við fram á betri tíma og vonum við svo sannarlega að þessi mikilvægi þáttur safnaðarstarfsins verði eins vel skipulagður og má vera.

 

Sóknarprestur og formaður íslenska safnaðarins taka á móti fermingarbörnum í Ólafíustofu kl. 11.00 sunnudaginn 7. október. Eftir fermingarfræðslu eða um kl. 12.30 verður boðið upp á veitingar áður en haldið verður upp í Nordberg kirkju þar sem deginum lýkur með fjölskylduguðþjónustu. Formaður safnaðarins mun fylgja fermingarhópnum til Nordberg kirkju að fræðslu lokinni. Meðan á fræðslunni stendur mun formaður bjóða upp á göngutúr fyrir þá foreldra sem þess óska. Fjölskylduguðþjónustan hefst kl. 14.00 og að henni lokinni er boðið upp á kaffiveitingar í safnaðarheimili kirkjunnar. Við viljum hvetja öll fermingarbörn og foreldra/forráðamenn sem búa í Ósló og nágrenni að taka þátt í fræðslunni og guðsþjónustunni þennan dag. 

 

Innritun fer fram hér á forsíðu heimasíðunnar.

Innritun fer fram á heimasíðu safnaðarins (sjá link til hægri). Í dag eru alls 17 börn skráð í fermingarfræðslu á vegum íslenska safnaðarins. Þau sem búa lengst frá Ósló m.a. á vesturströndinni verða boðuð til leiks þegar fyrsta helgarfræðslan fer fram. Við eigum enn eftir að fá staðfest leigu á sumarbústað við Frognerseteren, ekki langt frá Holmenkollen.

 

Hvað er fermingarstarf?

Ferming þýðir staðfesting. Í fermingunni staðfestir barnið skuldbindingu foreldra og guðfeðgina ískírnarathöfninni. Það fer með trúarjátninguna, vinnur fermingarheit og þiggur fyrirbæn og blessun. Fermt er við messu. Til þess að öðlast rétt til að mega fermast stundar fermingarbarnið sérstakt nám í kristnum fræðum hjá presti sínum eða fermingarfræðara, sem kallast fermingarfræðsla.

 

Fermingardagar 2019  á vegum íslensku kirkjunnar í Noregi:

Sunnudaginn 7. júlí kl. 11 í Seltjarnarneskirkju á Íslandi.

Mánudaginn 10.júni (annar í hvítasunnu) í Osló. Nordberg kirkja kl. 14.