Páskakveðja frá presti

Kæru vinir.

Í dag er skírdagur, dagurinn sem Jesús átti sína síðustu kvöldmáltíð með lærisveinum sínum og sá sami dagur þar sem Jesús þvoði fætur lærisveina sinna. Í kvöldmáltíðinni undirstrikaði hann og innsiglaði eilífan vinskap við lærisveina sína og öll þau sem gengu í þann hóp þaðan í frá. Hann lofaði eilífri elsku og vinskap við okkur. Í fótaþvottinum sýndi hann hvernig elska hans birtist í þjónustunni við lærisveinanna. Meistarinn sjálfur setti sig í hlutverk þjónsins og sýndi fram á að enginn er fremri öðrum, ekkert starf er merkilegra en annað, öll störf eru jafn mikilvæg fyrir Guði. Að vera skír merkið að vera hreinn. Á skírdag sýndi Jesús okkur að við þurfum að vera skír bæði á líkama og sál.

Föstudagurinn langi er langur því hann er sorgardagur. Dagur þar sem Jesús er svikinn fyrir peninga. Traust er brotið og dauðinn nálgast.  Jesús er nelgdur á krossinn vegna svika og illsku manna. Sorgin tekur völdin og sorgin lætur tímann standa í stað. Dauðinn á krossinum var vinum Jesú óbærilegur og vonleysið tók völdin næstu þrjá sólarhringa. Þeir sáu ekki það sem við sjáum í dag að krossinn vísar ekki bara til heljar heldur líka til himins og með útbreiddann faðminn til okkar. Vinirnir þá vissu ekki það sem við vituma að á þriðja deginum Páskadegi gerðist undrið.

Á páskadag skín sólin aðeins skærara og það er bjartara yfir að líta. Jesús reis upp frá dauðum. Hann hitti konurnar sem vitjuðu grafarinnar og sendi þær af stað með mikilvægu fréttirnar, það mikilvæga fagnaðarerindi að lífið hafi sigrað dauðann. Að Jesús, Guðs sonur, væri upprisinn frá dauðum. Ótrúlegt! En svo satt! En sannleikurinn verður aðeins meðtekinn í trú á lífið. Í trú á kærleiksríkann Guð sem leggur allt í sölurnar fyrir okkur svo við megum hafa það gott, svo við megum upplifa elsku. Í trú á þau orð Jesús er hann segir: "Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið." Konurnar við gröfina tómu völdu veginn góða og það gerum við enn í dag.

Páskaboðskapurinn segir okkur að þjóna lífinu. Hugum að börnum okkar, maka, vinum og fjölskyldu allri án þess að gleyma þeim sem eiga engan að. Verið opin og tjáið kærleika ykkar og leyfið páskasólinni að verma vanga ykkar svo bros færist yfir ásjónu ykkar og færi bjarma til allra er verða á vegi ykkar.

Guð gefi ykkur kærleiksríka páskahátíð!

Arna Grétarsdóttir, prestur