Aðalfundarboð

0301-norbergAðalsafnaðarfundur verður haldinn þann 26. apríl n.k í Nordberg kirkju.

Messa hefst kl.14 og er fundurinn í safnaðarheimilinu strax á eftir.

Dagskrá aðalsafnaðarfundar samkvæmt lögum safnaðarins:

a. Formaður kannar hvort til fundar sé löglega boðað
b. Kosning fundarstjóra og fundarritara
c .Skýrsla formanns
d. Stefna stjórnar
e. Skýrsla prests
f. Fjárhagsáætlun og ársreikningar lagðir fram
g. Kosning í safnaðarstjórn og varastjórn
h.Tillögur
i. Kosning í kjörnefnd og aðrar nefndir
j. Önnur mál

Um aðalsafnaðarfund segir m.a í 2.gr. laga safnaðarins:

Aðalsafnaðarfundur fer með ákvörðunarvald safnaðarins í málum þeim sem undir fundinn heyra samkvæmt lögum eða lögmætum ákvörðunum.
Aðalsafnaðarfundur er vettvangur starfsskila og reiknisskila af hendi stjórnar safnaðarins og einstakra nefnda á vegum safnaðarins. Þar skulu rædd málefni safnaðarins, þar á meðal þau mál sem lögmælt er að undir fundinn séu borin.
Aðalsafnaðarfund skal að jafnaði halda fyrir maí lok. Til hans skal boðað með fjögurra vikna fyrivara. Aðra safnaðarfundi skal halda ef meirihluti stjórnar safnaðarins óskar þess, eða 150 safnaðarmanna sem atkvæðisrétt hafa á safnaðarfundum.

Tillögur til aðalfundar skulu berast safnaðarstjórn fyrir 1. mars ár hvert.

Safnaðarmenn njóta kosningarréttar og kjörgengis á safnaðarfundum þegar þeir eru fullra sextán ára.
Lagabreytingatillögur verða lagðar fyrir aðalfundinn og fylgja þær fundargögnum.
Kosið verður um tvo aðalmenn og tvo varamenn í safnaðarstjórn/sóknarnefnd á fundinum.  
Lilja B. Þorsteinsdóttir frá Stavanger og ritari sóknarnefndar býður sig fram til áframhaldandi setu í aðalstjórn og Elín Kolbeins frá Osló sitjandi varamaður býður sig einnig fram í aðalstjórn.
Fundargögn liggja frammi í Ólafíustofu.

Helgihald yfir páskana

imagesSkírdagskvöld í Ólafíustofu kl. 17-19.

Guðsþjónusta verður fimmtudaginn 2.apríl eða á skírdagskvöld kl.17 i Ólafíustofu (Pilestredet Park 20). Helgihaldið hefst á borðhaldi þar sem súpa og brauð verða í boði. Lestrar, fallegir kvöldsálmar, hugleiðing og altarisganga. Sérstakt altarisbrauð verður bakað fyrir þessa stund.  Sr. Arna Grétarsdóttir predikar, Sr. Ása Lafey Sæmundsdóttir og sr. Jóhanna Sigmarsdóttir þjóna fyrir altari. Kvöldið endar á Getsemanestund þar sem 22 Davíðssálmur er lesinn, altarið afskrýtt, svartur dúkur lagður á, ásamt fimm rauðum rósum er tákna svöðusár Krists. Gengið er út í kyrrðinni.

Verið hjartanlega velkomin.

 

 

 

images-1

Annar páskadagur í Nordberg kirkju kl. 14.

Hátíðarmessa annan páskadag kl.14 í Nordberg kirkju.. Sr. Jóhanna Sigmarsdóttir predikar og þjónar fyrir altari og Ískórinn syngur hátíðartón Bjarna ásamt því að leiða sálmasöng undir stjórn Gísla J. Grétarssonar. Hjörleifur Valsson leikur á fiðlu og organisti er Ole Johannes Kosberg.

Sunnudagaskólinn verður með páskaeggjaleit og kaffi verður eftir messuna í umsjá Íslendingafélagsins.

Verið hjartanlega velkomin.

Tónleikar í Sælen kirkju í Bergen, 25. mars kl. 20:00

passiusalmarSálmakvöld í Sælen kirkju í Bergen næstkomandi miðvikudagskvöld, 25. mars kl. 20:00, þar sem meðal annars passíusálmar Hallgríms Péturssonar verða fluttir. Ævi Hallgríms var á margan hátt óvenjuleg og sálmar hans eiga sér djúpar rætur í sögu og menningu Íslendinga. Sönghópurinn í Bergen syngur og organistinn Bjørn Lien spilar passíur J.S Bachs. Enginn aðgangseyrir. Nánari upplýsingar má sjá á heimasíðu Sælen kirkju http://www.saelen.dnn2.labora-portal.no/Artikler/Nyheter/tabid/6344/ArticleId/22749/language/en-US/Salmekveld-med-Arve-Brunvoll-og-Det-Islandske-koret.aspx

 

Guðsþjónusta í Stavanger sunnudaginn 22. mars kl. 14

johannes kirke stavanger

Guðsþjónusta verður sunnudaginn 22. mars kl. 14 í Johannes kirkju í Stavanger. Sr. Jóhanna I. Sigmarsdóttir predikar og þjónar fyrir altari.  Katrín Ósk Óskarsdóttir, syngur og leiðir almennan söng. Anna María Proppé og Kolbrún Edda sjá um sunnudagaskólann sem verður á sama tíma. Páskaeggjaleit sunnudagaskólans og kirkjukaffi eftir messuna.

Verið hjartanlega velkomin !

Guðsþjónusta í Bergen sunnudaginn 15. mars kl. 15

paskaeggNæsta sunnudag 15. mars kl. 15:00 er barna- og fjölskylduguðþjónusta í Skjoldkirkju, Skjoldlia 55.
Nývígður fræðslufulltrúi safnaðarins sr. Ása Laufey Sæmundsdóttir mun sjá um Guðþjónustuna ásamt sunnudagaskólastarfsmönnum. Sönghópurinn í Bergen syngur, Rebbi og Mýsla mæta á staðinn og börnin fara í páskaeggjaleit og búa til pappaegg.
Kirkjugestir eru beðnir um að leggja til veitingar á kaffihlaðborðið á eftir.
Þetta er tilvalið tækifæri til þess að hitta aðra Íslendinga og eiga notalega stund saman.

Verið hjartanlega velkomin !

60 ára og eldri hittast í fiskisúpu og spjall, fimmtudaginn 12. mars

fish-soupNæstkomandi fimmtudag, 12. mars, hittast 60 ára og eldri kl. 12.15 á skrifstofu Íslenska safnaðarins í Noregi í Pilestredet Park 20, í Osló.

Við hefjum stundina á stuttri kyrrðar- og bænastund sem sr. Ása Laufey leiðir, að henni lokinni borðum við hádegismat saman. Að þessu sinni verður boðið upp á fiskisúpu sem Óli kokkur ætlar að elda fyrir okkur, síðan fáum við okkur kaffi og konfekt á meðan við spjöllum saman um málefni líðandi stundar.

Við hlökkum til að sjá ykkur.

Ása Laufey og Osvald.

Konur eru konum bestar – framhaldsnámskeið í Sandefjord 10. apríl

empowered-womenFöstudaginn 10. apríl 2015 kl.17 – 19:30

Staðsetning: Sandar Menighetshus, Bjerggata 56, 3210 Sandefjord.

Ókeypis er inn á námskeiðið og það er opið öllum konum 18 ára og eldri. Öllum velkomið að koma með á kaffiborðið.

Námskeiðið miðar að því að byggja upp sjálfsmynd kvenna, fjalla um tilfinningar, samskipti, mörk og markmiðasetningu. Þetta er vettvangur til að kynnast sjálfum sér betur í góðu samfélagi við aðrar konur. Ýmsum spurningum er velt upp og sögur Biblíunnar eru notaðar til að varpa ljósi á viðfangsefnið. Kvöldið endar með íhugun og slökun í kapellunni.

Þetta námskeið hefur notið fádæma vinsælda innan kirkjunnar síðustu 20 árin. Það hefur verið haldið víðsvegar um Ísland og margar konur lýst ánægju sinni með það.

Námskeiðið sem er samið eftir norskri fyrirmynd hefur verið haldið á vegum þjóðkirkjunnar frá árinu 1989 úti um allt land. Það hentar konum á öllum aldri með mismunandi bakgrunn.

Umsjónaraðili er Margrét Ólöf Magnúsdóttir, djákni en námskeiðið er á vegum Íslenska safnaðarins í Noregi.

Nánari upplýsingar og skráning sendið póst á fraedsla@kirkjan.no

Messa í Þrándheimi, sunnudaginn 8. mars kl. 11

bakke kirkjaMessa verður sunnudaginn 8. mars kl. 11 í Bakke kirkju Þrándheimi. Sr. Jóhanna Sigmarsdóttir predikar og þjónar fyrir altari. Kór Kjartans syngur í messunni. Sunnudagaskólinn verður á sama tíma á meðan á messu stendur undir stjórn Elínar Soffíu Pilkington. Kirkjukaffi og spjall eftir messuna.

Verið hjartanlega velkomin til messu í Þrándheimi.

Taizé messa sunnudaginn 1. mars kl. 14

taizeTaize messa verður haldin næstkomandi sunnudag kl. 14 í Nordberg kirkju, Kringjsårenda 1 Ósló. Sr. Jóhanna Sigmarsdóttir og Sr. Ása Laufey Sæmundsdóttir sjá um messuna. Öll fermingarbörn á svæðinu er hvött til að koma tímanlega og aðstoða við messuna.

Ískórinn syngur fyrir kirkjugesti og Hjörleifur Valsson spilar á fiðluna.

Ruth og Leópold sjá um sunnudagaskólann fyrir börnin.

Íslendingafélagið í Ósló hefur umsjón með kaffi að messu lokinni sem er í boði safnaðarins.

Verið öll hjartanlega velkomin.

Sr. Ása Laufey vígð til prestsþjónustu við söfnuðinn

11001742_10153077116610396_5057030024044858637_nHátíðleg stund var í Dómkirkjunni í Reykjavík sl. sunnudaginn þegar Ása Laufey Sæmundsdóttir guðfræðingur var vígð til prestsþjónustu við Íslenska söfnuðinn í Noregi. Ásamt henni var Anna Elísabet Gestsdóttir vígð til djáknaþjónustu í Útskálaprestakalli.
Vígsluvottar voru sr. Arna Grétarsdóttir, sr. Sigurður Jónsson, sr. Sveinn Valgeirsson, sr. Sigurður Grétar Sigurðsson sem lýsti vígslu ásamt djáknunum Margréti Gunnarsdóttur og Guðnýju Bjarnadóttur.Fulltrúar safnaðanna voru Kristjana Kjartansdóttir Útskálaprestakalli og Eygló Sigmundsdóttir frá íslenska söfnuðinum í Noregi. Frú Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, vígði.

VIð vígsluathöfnina voru einnig viðstödd fyrir hönd safnaðarins í Noregi þau Lilja Björk Þorsteinsdóttir ritari sóknarnefndar, Osvald Kratch og Hanna María Helgadóttir. Sr. Ása Laufey fékk rauða stólu í vígslugjöf frá söfnuðinum sem hún var skrýdd í vígslunni og sést bera á myndinni hér til hliðar.

Óskum þeim sr. Ásu Laufeyju og Önnu Elísabetu hjartanlega til hamingju með vígsluna og Guðs blessunar í lífi og starfi.