Fermingarferð í Norefjell

Tilvonandi fermingarbörn áttu skemmtilega, fjöruga og fræðandi daga í Norefjell um síðastliðna helgi. Þar fengu íslenskir unglingar hvaðanæva af landinu tækifæri til að mynda ný vinabönd um leið og þau kynntust sjálfum sér og trúnni í gegnum leiki, verkefni, samveru og fræðslu. Mikið stuð var á kvöldvökunni sem þau undirbjuggu sjálf, nýir leikir og glæsileg leikrit í bland við smá góðlátlega stríðni, söng og nammi!

Leikhúsferð 60+

Hópurinn 60+ ætlar að fara í leikhús í nóvember!

Staður og stund:  National Theatret föstudaginn 22.nóvember kl.19.30.  Leikritið er “Forelska i Shakespeare”, sem er gamanleikur gerður fyrir leiksvið eftir hinni margverðlaunuðu og geysivinsælu kvikmynd “Shakespeare in love” frá 1998.  Mikið líf og fjör.  Áður en sýningin hefst setjumst við kannski inn á Bibliotekbarinn á Hótel Bristol, eða annan góðan stað, og eigum þar góða stund saman.  Vinsamlegast látið vita um þátttöku sem fyrst (helst fyrir 25. september) á skrifstofu safnaðarins 22360140 eða hjá Snorra í 91723271. Einnig er hægt að senda tölvupóst á [email protected]  Leikhúsferðin er í boði safnaðarins en mat og drykk á undan greiðir hver fyrir sig. Hlökkum til að eiga skemmtilega kvöldstund saman!

Tónleikarnir Trú, von og kærleikur í Sjøholmen 21. september

Þemað Trú, von og kærleikur endurspeglast í lögum og textum söngvaskáldsins Ómars Diðrikssonar (textarnir eru á norsku, íslensku og ensku) sem verða flutt á Sjøholmen 21. september klukkan 21 af eftirtöldum listamönnum:
Ómar Diðriksson söngur og gítar,

Ísold Hekla Apeland, söngur,

Jónína G Aradóttir, söngur,

Lilja Margrét Ómarsdóttir, söngur,

Rebekka Ingibjartsdóttir, söngur og fiðla,

Ágúst Jóhannsson, bassi,

Jónas Elí Bjarnason, strengjahljóðfæri,

Hjörleifur Valsson, fiðla,

Karl Þorvaldsson, ásláttur,

Rúnar Þór Guðmundsson, gítar.

Án efa notaleg kvöldstund í fögru umhverfi við Osló fjörðinn. Tónleikarnir eru fyrsti viðburður af fjórum fyrir jól, á vegum Menningar og listanefndar Íslenska Safnaðarins í Noregi.
Miðaverð er 135.- í Forsölu (Bíómiða verð) eða 200.- við innganginn.
Miðasalan er hafin á https://www.deltager.no/truhapogkjaerlighet

Vel sótt hátíðarmessa og sunnudagaskóli

Sr Inga Harðardóttir var formlega sett í embætti af sr Helgu Soffíu Konráðsdóttur, prófasti, við hátíðlega messu í Bøler kirkju sunnudaginn 8. september 2019. Sr. Þorvaldur Víðisson, biskupsritari tók einnig þátt í þjónustunni, meðlimir stjórnarinnar lásu bænir, Hörður Áskelsson lék á orgel og söngflokkurinn Laffí leiddi sálmasönginn og flutti fallega tónlist. Rebekka Ingibjartsdóttir og Zsolt Anderlik héldu uppi fjörinu í sunnudagaskólanum og félagar úr 60+ hópnum reiddu fram glæsilegt hlaðborð í messukaffinu. Messan og sunnudagaskólinn voru mjög vel sótt og mikil gleði og samheldni einkenndi samfélagið í messukaffinu. Takk fyrir góðan og skemmtilegan sunnudag!

Myndirnar tók Freydís Heiðarsdóttir

Hátíðarmessa og sunnudagaskóli

Við hefjum vetrarstarf Íslenska safnaðarins með hátíðlegri og hlýlegri innsetningarmessu þann 8. september kl. 15.00 í Bøler kirke í Osló, en við fáum góða gesti frá Íslandi í heimsókn til okkar af því tilefni. Sr. Helga Soffía Konráðsdóttir, prófastur setur sr. Ingu Harðardóttur formlega í embætti en þær þjóna í messunni ásamt sr. Þorvaldi Víðissyni, biskupsritara. Hörður Áskelsson, organisti Hallgrímskirkju, leikur á orgel og kammerkórinn, Laffí vokalensemble, leiðir sálmasönginn og flytur fallega tónlist í messunni.
Sunnudagaskólinn verður á sama tíma með fullt af söng, sögum, leikjum og fjöri með Rebekku Ingibjartsdóttur og Zsolt Anderlik í fararbroddi.
Að lokinni messu og þeirri andlegu næringu sem við fáum þar er komið að skemmtilegri veislu í messukaffinu en að þessu sinni sjá félagar úr 60+ hópnum okkar um hlaðborðið.
Verið öll hjartanlega velkomin til að eiga góða og endurnærandi stund í skemmtilegu samfélagi!
Vinsamlegast ath. breytta tímasetningu kl. 15.00!!

Skírn

Falleg skírn fór fram í Nordmarka þar sem Alexandra Sól var borin til skírnar í faðmi sinna nánustu og skógarins, umvafin kærleika, hlýju og sólskini. Íslenski söfnuðurinn óskar fjölskyldunni innilega til hamingju. Guð blessi Alexöndru Sól.

Megi gæfan þig geyma,
megi Guð þér færa sigurlag,
megi sól lýsa þína leið,
megi ljós þitt skína sérhvern dag.
Og bænar bið ég þér,
að ávallt geymi
þig Guð í hendi sér.

(Bjarni Stefán Konráðsson)

 

Myndir: Pálína Ósk Hraundal

 

Skírn

Í faðmi fjalla og fjarða liggur fallegi bærinn Balestrand í Sogn og Fjordane og þar var Georg svo lánsamur að vera borinn til skírnar í fallegri heimaskírn, umvafinn sinni nánustu fjölskyldu, kærleika þeirra og hlýju. Íslenski söfnuðurinn óskar fjölskyldunni innilega til hamingju með skírnina! Guð blessi Georg.

 

Ó, Jesús bróðir besti
og barnavinur mesti,
æ breið þú blessun þína
á barnæskuna mína.

Mér gott barn gef að vera
og góðan ávöxt bera,
en forðast allt hið illa,
svo ei mér nái’ að spilla.

Það ætíð sé mín iðja
að elska þig og biðja,
þín lífsins orð að læra
og lofgjörð þér að færa.

Þín umsjón æ mér hlífi
í öllu mínu lífi,
þín líknarhönd mig leiði
og lífsins veginn greiði.

Mig styrk í stríði nauða,
æ styrk þú mig í dauða.
Þitt lífsins ljósið bjarta
þá ljómi’ í mínu hjarta.

Með blíðum barnarómi
mitt bænakvak svo hljómi:
Þitt gott barn gef ég veri
og góðan ávöxt beri.

Páll Jónsson

Georg með foreldrum sínum, guðforeldrum og prestinum

Tónleikar kórsins Vox Felix

Þann 19. ágúst mun kórinn Vox Felix heimsækja Osló og halda tónleika í Sænsku kirkjunni Margeret Kyrkan tónleikarnir eru klukkan 20:00.

 

Nánari upplýsingar er hægt að nálgast á Facebook viðburð tónleikanna.

https://www.facebook.com/events/851183375278097/

 

Fundur með nýjum sendiherra Íslands í Noregi

Í morgun áttum við stuttan fund með nýjum sendiherra Íslands í Noregi, Ingibjörgu Davíðsdóttir og Karí Jónsdóttur, viðskipta- og menningarfulltrúa.

Það var skellt í mynd af tilefninu.
Frá vinstri: Karí, Ingibjörg, Inga, Jónína og Margrét.